Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Við skulum velja það skásta“
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 9. október 2021 kl. 08:08

„Við skulum velja það skásta“

Nýtt orgel Keflavíkurkirkju formlega vígt

„Í dag fögnum við vígslu nýs orgels í Keflavíkurkirkju. Allt frá byggingu kirkjunnar, fyrir rúmum hundrað árum síðan, hefur það verið ósk sóknarbarnanna að hafa orgel í kirkjunni. Með samtakamætti og samstilltu átaki hefur það alltaf tekist,“ sagði Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir, formaður sóknarnefndar Keflavíkurkirkju, í ávarpi sem hún flutti í hátíðarguðsþjónustu í Keflavíkurkirkju þar sem nýtt orgel var vígt síðastliðinn sunnudag.

Við hátíðarguðsþjónustuna þjónuðu fyrir altari þau sr. Erla Guðmundsdóttir, sr. Fritz Már Jörgensson og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastdæmis. Arnór Vilbergsson, organisti, og Stefán Jónsson, gjaldkeri Keflavíkurkirkju, sáu um ritningarlestur. Kór Keflavíkurkirkju söng Gloria eftir Vivaldi úr samnefndu verki. Eftir ávarp formanns sóknarnefndar flutti Arnór Vilbergsson orgeleftirspil, Prelúdía og Fúga í C dúr, Bwv 531, eftir Johann Sebastian Bach.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fimmta orgel Keflavíkurkirkju

Fyrsta orgel Keflavíkurkirkju var nýtt harmóníumorgel sem gefið var af kvenfélaginu Freyju. Árið 1923 var keypt nýtt orgel, stærra en það sem fyrir var og dugði það til ársins 1952 þegar keypt var nýtt orgel, enskt rafmagnsorgel, sem var tíu, ellefur radda, með tvö hljómborð og pedal. Eftir breytingarnar á kirkjunni og stækkun hennar 1966 var sett upp pípuorgel af Walker gerð, sextán radda og tveggja hljómborða og með pedal. Það var Systrafélag kirkjunnar sem átti stærstan þátt í fjársöfnuninni.

Fimmta orgelið í rúmlega 100 ára sögu Keflavíkurkirkju var svo vígt síðasta sunnudag að viðstöddu fjölmenni en bekkir kirkjunnar voru þétt setnir við athöfnina sem öll var hin hátíðlegasta.

Orgelið er smíðað af eina íslenska orgelsmiðnum, Björgvini  Tómassyni, og liðsmönnum hans. Auk Björgvins hafa komið að smíði orgelsins, Margrét Erlingsdóttir, eiginkona hans og rafvirki, Jóhann Hallur Jónsson, húsgagnasmiður, og Júlíus Óttar, sonur Björgvins. Ráðgjöf við verkið veitti Páll Bjarnason, arkitekt, og Ingvi Þór Sigríðarson, smiður, hefur haft umsjón með verkinu.

Gamla orgelið endurunnið

„Í nýja orgelið eru notaðar pípur úr gamla orgelinu og allt það sem nýtanlegt var úr því. Þó telst hljóðfærið vera nýsmíði. Má líta á það sem einn af hlekkjunum í þeirri vegferð að Keflavíkurkirkja teljist „græn kirkja“ í samræmi við boðaða umhverfisstefnu,“ sagði Ragnheiður Ásta í ávarpi sínu við vígsluna.

Það var í febrúar 1995 sem stofnaður var Orgelsjóður Keflavíkurkirkju af Matthildi Ingibjörgu Óskarsdóttur og fjölskyldu hennar til minningar um eiginmann hennar, Árna Vigfús Árnason, formann sóknarnefndar Keflavíkurkirkju, sem lést í hörmulegu bílslysi í október 1991 aðeins 49 ára að aldri en honum var mjög umhugað um að endurgera orgelið. Frá þeim tíma hefur safnast fé í sjóðinn en það var ekki fyrr en farið var að sjá fyrir endann á viðgerð og lagfæringu kirkjuskipsins að ákveðið var að setja kraft í söfnunina.

Rausnarleg gjöf breytti stöðu orgelsjóðsins

„Það var því snjöll ákvörðun að stofna orgelsjóð sem eingöngu var ætlaður til endurnýjunar orgelsins og sá sjóður var aldrei snertur þrátt fyrir ráðist væri í fjárfrekar framkvæmdir sem loks á þessu ári sést fyrir endann á. Þörfin á nýju orgeli hefur komið æ betur í ljós og var orðið brýnt að hefjast handa. Það hefur samt ætíð verið stefna sóknarnefndar að skuldsetja ekki kirkjuna og að fara ekki í fjárfrekar framkvæmdir á kostnað safnaðarstarfsins. Lögð var vinna í að kanna kostnað við smíði nýs orgels og það borið saman við viðgerð á orgelinu sem fyrir var. Þegar komin var tala um hver kostnaðurinn yrði var tekin ákvörðun á sóknarnefndarfundi 7. nóvember 2016 um að ekki yrði hafist handa við smíði nýs orgels fyrr en 85% af andvirði þess væri í sjóðnum. Þessi ákvörðun var mjög hvetjandi, þörfin á nýju orgeli brýn og því allt kapp lagt á að ná markmiðinu. Þarna lögðu fjölmargir gjörva hönd á plóg. Fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklingar lögðu sitt af mörkum og mikið vannst á stuttum tíma. Það er óvinnandi vegur að telja upp alla sem lögðu verkinu lið. Nafn eins manns, Guðna Sigurbjörnssonar, er þó óhjákvæmilegt að nefna en hann var búinn að gefa margar milljónir í orgelsjóðinn áður en hann lést en í erfðaskrá sinni arfleiddi hann orgelsjóðinn að öllum eigum sínum, sem voru miklar. Vegna þessarar rausnarlegu gjafar var allt í einu staða orgelsjóðsins allt önnur. Ekki var lengur þörf á að takmarka orgelsmíðina við ákveðna fjárupphæð, heldur var hægt að bæta við tæknilegum möguleikum, sem gerðu hljóðfærið miklu fullkomnara. Þar nutu sín vel einkunnarorð Guðna; við skulum velja það skásta,“ segir í ávarpi Ragnheiðar Ástu.

Hljóðfæri af fullkomnustu gerð

Hljóðfærið er af fullkomnustu gerð. Þetta 41. orgelið sem Björgvin smíðar og er útlit þess hefðbundið en tæknin sem notuð er við smíðina er nútímaleg. Orgelið er málað og kallast litur þess á við græna litinn á pílárunum á söngloftinu, græna litinn á kirkjubekkjasessunum og grátunum. Auk þess hefur Sigmar Vilhelmsson sett blaðgyllingu á ytri línur orgelsins. Eins og áður hefur komið fram nýtti Björgvin orgelpípur úr gamla orgelinu en allur búnaður var endurnýjaður. Orgelið hefur 1118 pípur, er tuttugu radda og í ónýttu rými á kirkjuloftinu eru bassapípurnar. Nútíma tölvutækni er nýtt í orgelinu sjálfu og niðri í kirkjuskipinu er annað spilaborð, tengt orgelinu með tölvutækni, svo organistinn getur setið niðri í kirkjunni, horft framan í sóknarbörnin og spilað á og stýrt orgelinu þaðan. Endanlegur kostnaður við orgelsmíðina er 43,5 milljónir króna.

Sjáið myndasafn hér að neðan.

Keflavíkurkirkja - Vígsla á orgeli 2021