Mannlíf

Bíður spennt eftir opnun nýrrar heilsugæslu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 1. september 2023 kl. 04:34

Bíður spennt eftir opnun nýrrar heilsugæslu

Tanja Veselinovic, lyfsöluleyfishafi og lyfjafræðingur hjá Lyfjavali í Reykjanesbæ, nýtti frábært veður í júlí og ágúst til að fara í stuttar ferðir í nærumhverfinu og að vera með græna fingur á kafi í garðinum.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Viðreisn
Viðreisn

Við fjölskyldan fórum snemma í frí þetta árið og vorum erlendis mestan hluta júní mánaðarins. Þegar komið var heim var æðislegt að skella sér aftur í úlpuna, húfuna og vettlingana þegar farið var út að labba með hundinn – en svo kom þetta fallega veður í júlí og ágúst og við tóku stuttar ferðir í nærumhverfinu og þerapían sem fylgir því að vera með græna fingur og vera á kafi í garðinum.


Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Veðurblíðan er búin að vera frábær. Þetta stórflotta veður sem við fengum hér seinni hluta sumarsins, fyrir mig var þetta eins og framlenging á sumarfíinu. Við breyttum aðeins vöktum í vinnunni og þá áttum við kost á því að hætta fyrr á daginn, þ.e. að njóta veðurblíðunnar var meira en vanalega gerist í svona starfi og þar af leiðandi meiri samvera með fjölskyldunni.

Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?

Já, það er Snæfellsnesið fyrir mig og Hvalfjörðurinn. Það er eitthvað sem við fjölskyldan gerum á hverju sumri, að skella okkur á Snæfellsnesið. Það er eitthvað svo magnað þar. Þar er ég bara með strákunum mínum að kíkja á og príla upp hóla, fjöll, fossa og strendur.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?

Dagskrá vetrarins er að vinna. Apótek Suðurnesja er tiltölulega nýflutt í glæsilegt, nýtt húsnæði við Aðaltorg í Keflavík með fjórum lúgum og skemmtilegri búð. Þar bíðum við spennt eftir opnun nýrrar heilsugæslu, sem verður staðsett við hliðina á okkar starfsemi. Við stækkuðum mikið á stuttum tíma og erum orðin sautján starfsmenn en vorum fimm, þannig að það er  nóg að gera. Svo er það skólinn minn, framhaldsnám í náttúrulækningum frá skólanum á Nýja-Sjálandi, þar er ég komin á annað ár og svo tek ég auðvitað púlsinn á bæjarpólitíkinni.

Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Fyrst og fremst er hefðin hjá okkur að fara saman í kjötsúpuna á föstudagskvöldinu niður í bæ, hitta og heilsa upp á vini og kunningja. Á laugardeginum er farið og kíkt á handverk heimamanna og listasýningar með kaffibollann í hendinni. Um kvöldið höfum við alltaf farið á tónleika og hlustað á góða tónlist og beðið svo spennt eftir  flugeldasýningu, sem hefur orðið glæsilegri með hverjum ári.

Hvað er eftirminnilegast frá Ljósanótt?

Eftirminnilegast var veðurblíðan í fyrra. Ég man að það var rölt léttklædd í flottu veðri, stemmningin í fólkinu var frábær.