HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Miklu áorkað á krefjandi tímum
Laugardagur 23. nóvember 2024 kl. 08:59

Miklu áorkað á krefjandi tímum

Sjötíu ára afmæli Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fagnað. Oddfellowar gáfu HSS veglega peningagjöf til tækjakaupa. Stórafmælis HSS minnst út vikuna.

„Okkar verkefni er að byggja upp traust sem hefur ekki verið nægjanlegt. Markmið okkar sem störfum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er að gera hana að fyrirmyndarstofnun meðal annars með nýrri stefnumótun og öflugu starfi,“ sagði Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri HSS á 70 ára afmælisdegi stofnunarinnar sem haldinn var hátíðlegur með afmælisboði í húsakynnum heilsugæslunnar á afmælisdaginn 18. nóvember en haldið verður upp á tímamótin alla afmælisvikuna.

Guðlaug Rakel sem kom til starfa sem forstjóri HSS fyrr á þessu ári, þakkaði sveitarstjórnarfólki og bæjarstjórum á Suðurnesjum fyrir mikinn stuðning við stofnunina nú sem fyrr og eins bæjarbúum en rödd þeirra væri mikilvæg fyrir HSS og kom berlega í ljós á opnum fundi fyrr á árinu.

Gott samband við íbúa

„Það er mjög mikilvægt að vera í góðu sambandi við íbúana og við munum halda áfram að tryggja gott samtal við þá með fleiri opnum fundum. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar fyrir okkur. Við erum á þessum stóru tímamótum að gera margt og stofnunin hefur styrkst mjög mikið á undanförnum árum. Við erum að ljúka við nýja stefnumótun sem inniheldur mikilvæg framtíðarskref, margvíslegar leiðir að aukinni þjónustu við íbúa sem og halda vel utan um starfsfólkið okkar. Þetta allt og margt fleira mun hjálpa okkur að stíga rétt skref í að að auka heilbrigði á Suðurnesjum,“ sagði forstjórinn sem Keflvíkingurinn Guðfinna S. Bjarnadóttir sem var fundarstjóri, lofaði í hástert en hún sagði stofnunina og Suðurnesjamenn heppna að hafa fengið Guðlaugu Rakel til starfa hjá HSS.

Miklu áorkað á stuttum tíma

Í afmælishófinu tóku nokkrir til máls, m.a. bæjarstjórar Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra sem sagði að stór skref hafi verið tekin á undanförnum árum í þjónustu HSS. „Það er erfitt að lýsa því hvað HSS hefur áorkað miklu á stuttum tíma á krefjandi tímum á undanförnum árum. Nefna má nýja legudeild, nýja bráðamóttöku, efling heilsugæslu, viljayfirlýsingu um nýja heilsugæslu og stóraukna þjónusta við íbúa og framundan er opnun heilsugæsluþjónustu í Vogum og í Suðurnesjabæ. Heilbrigðisþjónustan verður aldrei fullkomin, það er alltaf hægt að bæta sig enda eru sífellt að koma nýjar áskoranir en það er ekki hægt annað en að hrósa Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og ég vil óska Suðurnesjamönnum til hamingju með hana,“ sagði Willum.

Unga fólkið og Grindvíkingar

Guðrún Aspelund, sóttvarnarlæknir sagði áskoranir á Suðurnesjum margar en einnig tækifæri.

Hún benti á að  niðurstöður úr nýjum lýðheilsuvísum sem nota mætti m.a. til vöktunar á líðan heilsu eftir áföll, sýndu að fylgjast þyrfti vel með afleiðingum sem atburðir í Grindavík hafa haft á fólk. Heilbrigðiskerfið þyrfti að vera undirbúið að taka á móti Grindvíkingum með fjölþætt heilbrigðisvandamál næstu árin. Einnig nefndi hún að í þessum niðurstöðum mætti sjá að fólk á landbyggðinni, m.a. á Suðurnesjum meti færri andlega og líkamlega heilsu sína góða og fleiri hefðu fjárhagsáhyggjur. Fleiri ungmenni teldu sig útundan í skóla og þó  líðan þeirra væri almennt góð og kvíði minni þá mældist meiri notkun þunglyndislyfja, nikótínpúða og orkudrykkja hjá yngra fólki. Þá hreyfðu þau sig minna. Þetta væri áberandi verra á landsbyggðinni. 

Tveir starfsmenn HSS, Guðrún Ösp Theodórsdóttir, hjúkrunarfræðingur, og Eggert Eyjólfsson, bráðalæknir, sögðu frá ánægjulegri reynslu sinni sem starfsmenn á stofnuninni. Þar væri liðsandinn til algerrar fyrirmyndar og samheldni mikil.

Myndasafn er neðar á síðunni.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 70 ára