Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Blöðrusleppingarnar
 voru alltaf einstakar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 1. september 2023 kl. 07:32

Blöðrusleppingarnar
 voru alltaf einstakar

Elín Rafnsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Myllubakkaskóla, var mikið á ferðinni í sumar og segir ferð til Tenerife hafa staðið upp úr. Á komandi vetri bíður hún eftir því að skólinn hennar rísi og vinnan komist aftur í eðlilegt horf. Elín ætlar að taka virkan þátt í dagskrá Ljósanætur, eins og reyndar mörg undanfarin ár.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sumarið fór að mestu leyti í ýmiskonar ferðalög hjá okkur fjölskyldunni. Við hjónin fylgdum dóttur okkar á smáþjóðaleikana á Möltu í byrjun júní. Malta er stórkostleg eyja og forréttindi að fá að heimsækja hana ásamt því að fylgjast með okkar frábæra íþróttafólki. Í lok júní tók við ferð til Akureyrar með syni okkar sem keppti á aldursflokkamóti Íslands, veðrið lék við okkur sem var góð tilbreyting frá kuldanum sem júní bauð okkur upp á hér fyrir sunnan. Við stórfjölskyldan fórum svo í tveggja vikna ferð til Tenerife í lok júlí. Öll börnin okkar og tengdasonur fóru með okkur ásamt barnabarni okkar og foreldrum mínum. Ferðin var stórkostleg og Tenerife er alltaf jafn skemmtileg.

Hvað stóð upp úr?

Ferðin með stórfjölskyldunni minni til Tene stóð upp úr í sumar. Það eru svo mikil forréttindi að fá að verja góðum tíma með fjölskyldunni sinni, það eru bestu tímarnir. Það spillir líka ekki að vera í 28 gráðum og sól og þurfa ekki að elda og þrífa í leiðinni.

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Veðrið síðari hluta sumars var eiginlega það sem kom mest á óvart. Miðað við veðrið sem maí og júní bauð upp á var maður ekki vongóður um gott sumar. En það er víst alltaf gott að enda á góðum endaspretti.

Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?

Ég held að Akureyri sé eiginlega minn uppáhaldsstaður fyrir utan Reykjanesið. Ég á svo margar góðar minningar frá þeim fjölmörgu sundmótum sem við höfum fylgt börnunum okkar eftir á til Akureyrar, ásamt þeim frábæra vinskap sem hefur myndast á þessum mótum í brekkunni við Sundlaug Akureyrar. Svo er náttúrlega Garðskagi alveg sér á báti, maður fyllist svo mikilli orku og gleði á þeim töfrastað.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?

Þessi vetur verður svo sem svipaður og síðasti vetur þar sem ég bíð eftir að skólinn minn rísi og vinnan mín komist í eðlilegt horf. Ég er mjög spennt fyrir því að flytja inn í nýjan skóla í vetur. Einnig verðum við hjónin fimmtug á næsta ári og við erum að íhuga fimmtugsferð með vinum okkar. Annars ætla ég bara að vinna vinnuna mína vel og sinna fólkinu mínu í vonandi snjóléttum vetri.

Hvernig finnst þér Ljósanótt?

Ég elska Ljósanótt. Bærinn einhvernvegin lifnar við og allir fyllast gleði og bjartsýni.

Við förum alltaf á eins margar sýningar og listviðburði og við getum á Ljósanótt.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?

Fimmtudagskvöldið á Ljósanótt er alltaf æðislegt, gaman að fara á sýningar og sjá hve miklir hæfileikar búa hér í bænum okkar. Svo hittir maður svo margt skemmtilegt fólk röltandi um á Hafnargötunni. Við ætlum að fara að fá okkur bestu kjötsúpu landsins á föstudeginum ásamt því að hlusta á frábæra tónlistarmenn á „Í holtunum heima“ um kvöldið. Við maðurinn minn erum bæði fædd 1974 og höfum sjaldan látið okkur vanta í árgangagöngunni á laugardeginum. Svo er náttúrlega algjört möst að fara á björtustu flugeldasýningu landsins á laugardagskvöldinu.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?

Við fjölskyldan höfum tekið virkan þátt í hátíðarhöldunum á Ljósanótt frá upphafi. Það eru því margar góðar minningar sem tengjast hátíðinni, blöðrusleppingarnar sem voru hér áður fyrir utan Myllubakkaskóla voru alltaf einstakar og ótrúlega skemmtilegur viðburður. Svo voru tónleikar sem Valdimar hélt í Hafnarkirkju alveg æðislegir ásamt tónleikunum sem voru í Holtunum heima í fyrra þegar náttúruöflin ákváðu að kveðja okkur með stórkostlegri Norðurljósasýningu í lok tónleikanna.

Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Það eru endalausar hefðir hjá okkur á Ljósanótt. Við hittum alltaf vinafólk okkar á fimmtudeginum og tökum „sýningarölt“. Kjötsúpan og tónlistarviðburðir á föstudeginum eru fastir liðir og árgangagangan sem við höfum bara einu sinni misst af. Við grillum svo alltaf einhverjar dýrindis krásir á laugardagskvöldinu með vinum okkar og krökkunum okkar. Röltum svo niður í bæ í tæka tíð fyrir skemmtiatriðin og flugeldasýninguna.