Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hryllingur á tímamótum
Miðvikudagur 8. mars 2017 kl. 06:00

Hryllingur á tímamótum

Leikfélag Keflavíkur fagnar því að 20 ár eru síðan félagið fékk aðstöðu í Frumleikhúsinu með uppsetningu á hinum klassíska söngleik Litlu hryllingsbúðinni þar sem engu er til sparað og umgjörð hin glæsilegasta. Leikstjóri er Þorsteinn Bachmann en í sýningunni taka þátt 14 félagsmenn auk hljóðmanna, ljósamanna og annarra sem standa á bak við svo viðamikla sýningu.
Söngstjórn er í höndum Arnórs B. Vilbergssonar, aðstoðarleikstjóri og danshöfundur er Sigrún Gísladóttir Bates en leikmynd gerði Davíð Örn Óskarsson þúsundþjalasmiður, hönnuður og formaður Leikfélags Keflavíkur.

Aðalstjarna sýningarinnar er að sjálfsögðu plantan Auður og þar eru í burðarhlutverki Guðlaugur Ómar sem ljær henni rödd sína á kraftmikinn hátt og Yngvi Þór Geirsson sem fær það hlutverk að stjórna hreyfingum plöntunnar. Það hefur líklega ekki verið þurr þráður á honum eftir sýninguna.
Plantan er snilldarlega vel gerð og býr LK svo vel að hafa brúðugerðarmann á sínum snærum, Jón Bjarna Ísaksson en gera þurfti þrjár útgáfur af plöntunni af mismunandi stærð sem tók þrjár vikur í framkvæmd.
Litla hryllingsbúðin hefur notið gríðarlegra vinsælda frá því að hún var fyrst sett á svið fyrir tæpum fjórum áratugum og eitt af vinsælustu sviðsverkunum sem sett hafa verið upp hér á landi.
Hún segir frá munaðarleysingjanum Baldri sem vinnur í lítilli blómabúð ásamt Auði, sætri ljósku sem hann er ástfanginn af. Viðskiptin eru ekki blómleg en allt breytist það með plöntunni Auði II sem eykur vinsældirnar en sá galli er á gjöf Njarðar að hún vill helst borða ferskt mannakjöt og þær matarvenjur eiga eftir að hafa skelfilegar afleiðingar. Það var nú ekki laust við að maður sæi einhverja hliðstæðu með hungraðri plöntunni og græðgi fjármagnsins í dag - en það er önnur saga.

Þetta er eitt stærsta verkefni leikfélagsins og er umgjörð sýningarinnar vegleg en í fyrsta sinn er notast við snúníngssvið sem býður upp á aukna möguleika þegar verið er að nýta það rými sem Frumleikhúsið býður upp á.
Flestir þekkja lögin úr sýningunni og má þar nefna Snögglega Baldur og þú verður tannlæknir og mátti sjá marga raula með. Sönghlutverkin eru krefjandi og er valinn maður í hverju hlutverki. Ber þar helst að nefna Lísu Einarsdóttur sem leikur skvísuna Auði og Sigurð Smára Hansson sem leikur hinn seinheppna og óörugga Baldur en þau leystu það óaðfinnanlega. Stelputríóið er skemmtilegt og mikið mæðir á Sólborgu, Sólrúnu og Ásdísi Rán sem eru ungar og upprennandi söngkonur. Helst hefði maður viljað sjá fleiri á sviðinu enda mikið af hæfileikaríku fólki í leikfélagi Keflavíkur en þó eru þarna nokkur minni hlutverk sem gera sýninguna skemmtilegri.
Það er alltaf gaman að sjá leikmyndina hjá Davíð Erni og það kom undirritaðri skemmtilega á óvart að sjá fermingarútvarpið sitt á sviðinu.

Það er lítið mál að mæla með þessari sýningu, þetta er metnaðarfullt verkefni og eins og ég hef áður sagt, ef við viljum leikhús í bæjarfélaginu þá þurfum við að mæta á sýningar. Ég skemmti mér vel og þakka fyrir mig.

Dagný Maggýjar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024