Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Krefjandi hlutverk í vinsælli mynd
Laugardagur 31. maí 2014 kl. 09:00

Krefjandi hlutverk í vinsælli mynd

Hafdís Eva er ung leikkona með stóra drauma.

Kvikmyndin Vonarstræti er á góðri leið með að slá öll aðsóknarmet íslenskra kvikmynda. Hún hefur fengið nær einróma lof gagnrýnenda og einnig áhorfenda, sem ausið hafa myndina lofi á samfélagsmiðlum. Hafdís Eva Pálsdóttir, nemandi í 4. bekk í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ, leikur Kollu, dóttur Móra, sem Þorsteinn Bachmann á stórleik við að túlka. Olga Björt hitti Hafdísi Evu og móður hennar, Maríu Hauksdóttur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í hlutverki sínu í Vonarstræti.

Heimilisofbeldi um miðja nótt
Hafdís Eva fór í áheyrnarprufur á sínum tíma ásamt mörghundruð öðrum stelpum sem vildu krækja í hlutverk í myndinni. „Það kom til greina að ég léki Heiðu, dóttur Eikar, en þeim fannst ég passa betur í hlutverk Kollu. Hlutverkið var á margan hátt mjög erfitt,“ segir Hafdís Eva og María bætir við að fólk átti sig í raun ekki á því hversu krefjandi þetta hlutverk var fyrir níu ára barn. „Hún þurfti að vera við tökur á heimilisofbeldi um miðja nótt. Einnig þurfti hún að vera fullklædd í bólakafi í vatni í einu atriðinu. Frekar óvenjulega aðstæður fyrir börn. Henni fannst það samt svo gaman að það tók alveg yfir hversu erfitt það var. Það var svo skrýtið að sjá hana svo á tjaldinu. Það var eins og að hún væri andsetin því hún var svo sannfærandi sem Kolla. Fyrst hún náði mömmu sinni svona rosalega þá hlýtur hún að vera ansi góð leikkona.“

Grét af stolti
Hafdís Eva segir að henni hafi einnig fundist skrýtið að sjá sjálfa sig á svona stóru tjaldi. „Mér fannst röddin mín svo skrýtin. Svo fór ég bara að gráta, aðallega þegar ég sá nafnið mitt og varð svo stolt.“ Hún segir að það hafi verið mjög gott að vinna með Þorsteini og einnig leikstjóranum Baldvini Z. „Þeir voru svo glaðir og ánægðir og stemningin rosalega góð. Þorsteinn var alltaf að segja við mig á milli þess sem tökur voru: Hvað segirðu? Ertu ekki spennt? Og svo bara fór hann aftur í karakter Móra og gjörbreyttist. Það var rosalega skrýtin tilfinning.“

Skólafélagar samglöddust
Þær mæðgur segja afar ánægjulegt hversu góðar viðtökur eru á myndinni. Hafdís Eva segir skólafélagana koma vel fram við sig. „Ég kom með myndir frá frumsýningunni í skólann og kennarinn leyfði mér að sýna bekknum og þau tóku því mjög vel. Þau eru ekki að öfundast heldur eru bara stolt.“ María segir stelpuna sína líka bara á jörðinni með þetta og lausa við allt mont. „Hún er bara þakklát þegar aðrir samgleðjast henni. Einnig eru margir búnir að senda mér póst og lofa frammistöðu Hafdísar Evu. Andi persónu Kollu lifir svo mikið í gegnum Móra.“ Þá segist Hafdís Eva einnig hafa upplifað myndina á annan hátt en aðrir, eins og að hún væri Kolla. „Stundum grét ég og ég fagnaði líka af gleði í einu atriðanna með honum því það var svo raunverulegt.“ María segist einnig hafa átt bágt með tilfinningarnar og bara leyft tárunum að streyma.

Í aðalhlutverki í nýrri stuttmynd
Vonarstræti er ekki eina myndin sem Hafdís Eva hefur leikið stórt hlutverk í því hún leikur aðalhlutverk í stuttmyndinni Handan hafsins. Sú mynd er útskriftarverkefni Heiðar Maríu Rúnarsdóttur úr Kvikmyndaskóla Íslands, og var frumsýnd fyrir rétt rúmri viku í Bíó Paradís. „Baldvin vildi fá mig í það hlutverk. Hann takk upp á því,“ segir Hafdís Eva. María segir dóttur sína hafa þurft að gera átakanlega hluti í þeirri mynd líka. „Það myndi ekki hvaða barn sem er framkvæma þessa hluti sem hún gerði.“

Hafdís Eva í hlutverki sínu í Handan hafsins.

Góður leikari þarf ekki að segja mikið
Hafdís Eva sótti leiklistarnámskeið þar sem hún var með flestar línur í uppsetningu leikrits. „Þá lék ég tré. Reyndar áttu að vera tvö tré en sú sem lék hitt tréð var veik, svo að ég lék bara bæði trén.“ Hún segist vera fljót að læra línur í handriti og t.a.m. hafi hún ekki sagt mikið í hlutverki sínu í Vonarstræti. „Það þarf ekki að segja mikið til að vera góður leikari, heldur nota svipi og slíkt. Eftir tökur á erfiðustu senunni, þar sem ég t.d. tala ekkert en geri mikið, var ég alveg búin á því.“ Hún segir að vel hafi verið hugsað um sig, hlý teppi ekki langt undan og alltaf einhver til í að knúsa sig og sýna hlýju.

Á gott tengslanet
Hafdís Eva er umvafin góðu tengslaneti. Hún er dóttir Páls Kristjássonar og hún á einnig stjúpmömmu, Tinnu Fenger, og stjúppabba, Óskar Inga Víglundsson. Framtíðin er björt hjá þessari fjölhæfu stúlku. Ásamt því að vera góð leikkona er hún afburðarnemandi sem fékk 10 í samræmdu prófunum og hefur hlotið verðlaun sem sundkona. „Ég æfi sund sex daga vikunnar. Annar pabbi minn, Óskar, er Íslandsmeistari í bekkpressu og hann er duglegur að taka mig með á hreystivöllinn. Svo hefur hinn pabbi minn, Páll, mikinn áhuga á kvikmyndagerð og leiklist og hvetur mig áfram í því.“ María bætir við að svo sé hlutverk sitt að láta allt ganga upp og minna hana á að vera líka tíu ára. Frá unga aldri hafi Hafdís Eva sýnt leikræna tilburði í daglegu lífi. „Þegar hún horfði á barnaefni horfði hún ekkert bara eða söng með. Hún sýndi öll leikrænu tilþrifin sem hún sá á skjánum og lék helst alla í leikritum sem hún horfði á. Svo þegar slökkt var á sjónvarpinu sá hún spegilmynd sína þar og var mjög glöð. Hún ætlaði sér alltaf í sjónvarpið,“ segir María.

Mikill skilningur hjá skólanum
Þær mægður segja að hjá Háaleitisskóla hafi henni verið sýndur mikill skilningur og sveigjanleiki við gerð Vonarstrætis og hafi m.a. grínast með að það væri kominn rauður dregill fyrir framan skólann. María bætir við að það hafi auðveldað fjarveruna hversu góður námsmaður dóttir hennar er. „Mér finnst líka svo gaman að geta náð að hitta vini mína, staðið mig í skólanum og verið í þessu. Markmiðið er að fara til Hollywood. Ég er mjög sjálfstæð og svo gengur mér bara svo rosalega vel,“ segir Hafdís Eva, sem ætlar að láta alla sína drauma rætast.

VF/Olga Björt