Mannlíf

Þar sem náttúran ein ræður för
Hornbjargsviti.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 7. september 2024 kl. 06:08

Þar sem náttúran ein ræður för

Jón Helgason unir sér vel við skálavörslu á afskekktum stöðum á Íslandi

Hvernig varðir þú sumarfríinu? Sumarfríið var tekið í tveimur hollum. Fyrri part sumars var varið við skálavörslu í Látravík á Ströndum eða í Hornbjargsvita, þar sem einn af mörgum skálum Ferðafélag Íslands er. Vitinn og vitavarðarhúsin voru byggð 1931 og var vitinn mannaður allt árið til ársins 1986. Þá var hann gerður sjálfvirkur. Núna er vitinn opinn í sex vikur yfir bjartasta tíma ársins, þetta svæði er friðlýst og ekki hægt að lýsa með orðum fegurð, dulúð og mikilfengleika. Hornstrandir eru sá staður á landinu sem fæstir hafa kost á að heimsækja vegna samgangna og þarna norðan megin eru ekki margir sem leggja leið sína þangað nema undirbúa það vel.

Seinnipartinn af fríinu ferðaðist ég um austanvert Jótland með börnum og barnabörnum. Þetta er staður sem alltaf er frábært að upplifa, sérstaklega með börn.  Þeim finnst gaman að fara í Legoland, Lalandia eða Give Zoo svo eitthvað sé nefnt.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvað stóð upp úr? Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar? Ísland eða Danmörk? Það er ekki hægt að gera uppá milli þessara fría. Það er magnað að fá tækifæri á að upplifa þessar íslensku sumarnætur og daga þar sem náttúran ein ræður för. Hún tekur oft okkar mannana plön og gerir að engu með snjó og veðurviðvörunum eða einmuna tíð. Þarna eru miklar öfgar í veðri og stór frávik í bátsferðum þannig að þarna er kjörland sjálfbærni og almennrar sveitamennsku. Fjörutíu manna gistirými er á efri hæð hússins og góð tjaldstæði á svæðinu og eina heita sturtan á svæðinu. Þannig að þegar hús er fullt þá er í mörgu að snúast. Rafmagn er framleitt með virkjun sem smíðuð var 1918. Hún gengur enn þessar vikur sem Ferðafélagið er með starfsemi þar.

Það sem stóð upp úr þetta sumar var að í þessa tuttugu daga sem eg var í Látravík var sól og blíða alla daga nema þrír, tveir í rigningu og einn í snjó.

Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands? Uppáhaldsstaðurinn er nú samt sjálfur Stakksfjörðurinn og að róa á kajak við Bergið og Stapann er eitt það skemmtilegasta sem ég geri á góðum degi, hvort heldur er með stöng, byssu eða hundinn Öngul.

Hjá siglingaklúbbnum Knörr náðum við að vera með opin hús alla fimmtudaga í júlí og ágúst þar sem börn og stóru börnin, þ.a.s. fullorðnir fengu að fara á kajak eða kænum út á fjörðinn. Í júní og júlí voru haldin siglinganámskeið fyrir börn. Verst var að ná ekki að tæma biðlistana því að ásókn er að stóraukast.

Hvað ætlar þú að gera í vetur? Veturinn fer í skarf, rjúpu, jól og hesta og svo kemur bara nýtt sumar með fleiri ævintýrum .

Hvernig finnst þér Ljósanótt og hvaða viðburðir eru á listanum? Ljósanótt er fyrir mér frábær fjölskylduskemmtun og tækifæri til að hitta aðra, hvort heldur er í árgangagöngunni eða á förnum vegi. Ég stóð fyrir ör ættarmótum þar sem Stapakotsættin hittist í kaffi og jólakökum. Hef líka boðið bifhjólaklúbbnum í saltfisk og kaffi eftir hópakstur og Rafnar bifhjólafélag Borgarfjarðar hafa geymt hjólin sín hjá mér. Sakna tónleikana „Með blik í auga“. En þessa helgi ætla ég að vera í Grófinni að kynna bátasportið og í stóra hlutverkinu, afastarfinu.

Svo er hafin undirbúningur þess að lýsa upp Stapann frá Kópu inn að Ytri-Skor. Fyrir því verkefni er hulduher sem hittist í karlagufunni í Njarðvíkurskóla og mun seinna hafa aðsetur í nýu gufunni í Stapaskóla.