Mannlíf

Þúsundir skemmtu sér vel á Ljósanótt
Gestir Ljósanætur dreifðust yfir stórt svæði en viðburðir voru um allan bæ. Hér má sjá yfir hátíðarsvæðið síðdegius á laugardag.
Fimmtudagur 12. september 2024 kl. 13:37

Þúsundir skemmtu sér vel á Ljósanótt

Tugþúsundir gesta nutu tónlistar á stóra sviði Reykjanesbæjar, glæsilegrar flugeldasýningar og lýsingu Bergsins á laugardagskvöldi. Dagskrá Ljósanætur náði hápunkti um kvöldið og fór vel fram í góðu veðri.

„Sólin gerir auðvitað gott betra,“ sagði Guðlaug María Lewis, verkefnastjóri Ljósanætur, í skýjunum eftir vel heppnaðan og sólríkan laugardag á Ljósanótt. „Við fögnuðum sérstaklega 30 ára afmæli Reykjanesbæjar með hreint út sagt frábærri tónlistarveislu og flugeldasýningu sem landsmenn fengu að njóta með okkur í beinni útsendingu.“

Skipuleggjendur hátíðarinnar telja að hún hafi verið með þeim fjölmennari og að tugþúsundir gesta hafi tekið þátt í dagskrá laugardagsins enda margt til skemmtunar. Hátíðin hófst formlega að venju á fimmtudegi með opnun fjölda listsýninga en um hundrað aðilar tóku þátt. Á föstudag var tónlistardagskrá á ráðhústorginu og boðið upp á kjötsúpu frá Skólamat. Heimatónleikar voru á sex stöðum. Veðurguðirnir voru í óstuði þegar leið á kvöldið en voru í góðu  skapi annars alla hátíðina og hafði það mikið að segja á laugardegi þegar þúsundir fóru í árgangagöngu og enn fleiri mættu á frábæra tónleika um kvöldið. Margir notuðu sunnudaginn til að fara á listsýningar, sögugöngu í Keflavík og tónleika í Höfnum og í Keflavíkurkirkju.

Að sögn Guðlaugar var virkilega góð og jákvæð stemning á svæðinu og langsamlega flestir staðráðnir í að vera með ljós í hjarta á Ljósanótt eins og lagt var upp með. „Við höfum auðvitað áhyggjur eins og aðrir af hópamyndun og ölvun unglinga sem virðist orðið samfélagslegt vandamál sem þjóðin þarf að taka höndum saman um að stemma stigu við. Eftir því sem við best vitum á þessari stundu gekk þetta stórslysalaust hjá okkur og fyrir það erum við þakklát.“

Lögregla þurfti að hafa afskipti af nokkrum ungmennum vegna ölvunar og einn réðist að tveimur lögreglumönnum en Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn, segir að hátíðin hafi gengið mjög vel á heildina litið. Lögreglan var vel mönnuð á hátíðinni fylgdist vel með.


Veglegt myndasafn Hilmars Braga Bárðarsonar og Páls Ketilssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, sem sýnir mannlífið á Ljósanótt er að finna neðar á síðunni.

Ljósanótt 2024