Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Útivinnudagur á leikskólanum Tjarnarseli: „Auður hvers skóla býr í fólkinu sem hann byggir“
Ungur nemur gamall temur
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 27. júní 2022 kl. 13:00

Útivinnudagur á leikskólanum Tjarnarseli: „Auður hvers skóla býr í fólkinu sem hann byggir“

– segir Inga Sif Stefánsdóttir, aðstoðarskólastjóri á leikskólanum Tjarnarseli. Hátt í tvöhundruð manns mættu á útivinnudag.

Tjarnarsel hélt útivinnudag með börnum, foreldrum og sjálfboðaliðum á dögunum. Þá voru smíðuð leiktæki, garðurinn snyrtur og sumarblóm, sem börnin ræktuðu frá fræi, gróðursett. Vinnudagurinn er árlegur viðburður þar sem fjöldi sjálfboðaliða mæta í skólann og vinna óeigingjarnt starf í þeim tilgangi að fegra og betrumbæta útisvæði barnanna. Í ár mættu hvorki fleiri né færri en 185 manns. Vinnuhópurinn samanstóð af glaðlegum börnum og systkinum þeirra, galvöskum foreldrum, kennurum og fjölskyldum þeirra, duglegum öfum og ömmum og fyrrum nemendum.

„Þessi vinnudagur er jafnan í upphafi hvers sumars og er ekki annað hægt en að hrífast þegar fylgst er með öllum þeim dugnaðarforkum sem mæta með uppbrettar ermar, í vinnugöllunum, með gleðina að vopni og til í hvað sem er,“ segir Inga Sif, aðstoðarskólastjóri leikskólans. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Inga Sif að segja aðstandendum hvað skal gera

Þessi árlegi viðburður byrjaði sem þróunarverkefni árið 2013 og bar nafnið Áskorun og ævintýri í Tjarnarseli. Nú var útivinnudagurinn haldinn í níunda skiptið og er hann orðinn fastur liður í leikskólastarfinu. „Auður hvers skóla býr í fólkinu sem hann byggir. Árið 2013 hófst þróunarverkefnið. Því lauk með formlegum hætti ári síðar en eins og verða vill með góð verkefni, þar sem brennandi áhugi er til staðar, þau eignast þau sjálfstætt framhaldslíf,“ segir Inga.

Þá segir hún ávinninginn af slíkum vinnudögum vera mikinn: „Auk þess augljósa, er annars konar ávinningur af degi sem þessum. Samfélag allra þeirra sem tilheyra skólanum styrkist þegar fólk vinnur að skemmtilegum verkefnum saman. Foreldrar sem áður þekktust lítið og jafnvel af ólíkum uppruna kynnist og myndar tengsl í gegnum sameiginlega reynslu.“