Enn leitað að fólki úr átta bílum - Erfiðar aðstæður til leitar í úfnu hrauni
Enn er leitað að fólki úr átta bílum sem eru yfirgefnir við Grindavíkurveg. Ekki er ljóst hversu margra einstaklinga er saknað. Nokkur alvarleg tilvik hafa komið upp í nótt þar sem fólk hefur fundist í ofkælingarástandi. Þá hefur fólk verið að finnast sem var búið að tapa áttum og var í mikilli örvæntingu. Fólkið hefur verið að finnast í vestanverðu Fagradalsfjalli og í úfnu hrauninu við fjallið. Þetta segir Steinar Þór Kristinsson hjá svæðisstjórn björgunarsveita í samtali við Víkurfréttir nú á sjötta tímanum.
Með fréttinni fylgir myndskeið sem tekið var í nótt af myndatökumanni Víkurfrétta af björgunarsveitum í hrauninu við Grindavíkurveg og á slóðum að Fagradalsfjalli.
Allar björgunarsveitir á suðvesturhorni landsins voru kallaðar út fyrr í kvöld til að leita að fólki sem var á göngu frá gosstöðvunum í Geldingadölum. Rétt fyrir miðnætti hafði fólk ekki skilað sér í 140 bíla og ástandið var svart.
Bílnúmer hafa verið skráð niður og lögregla reynir að hafa uppi á eigendum bílanna. Þá hafði verið tilkynnt um fólk sem er saknað og ekki náðst samband við í margar klukkustundir. Að sögn Steinars Þórs hafa allir sem tilkynnt var um sem týnda komið í leitirnar.
Símasamband á gönguleiðinni að gosstöðvunum er afleitt og ekkert samband á stóru svæði. Þrátt fyrir það hefur verið gripið til þess ráðs að senda út skilaboð á farsíma á svæðinu á íslensku, ensku og pólsku.
Hópsskóli í Grindavík var opnaður seint í kvöld og þar sett upp fjöldahjálparstöð. Allt fólk sem fundist hefur á gönguleiðinni að gosstaðnum hefur verið flutt í fjöldahjálparstöðina. Þar fær það hressingu og er skráð.
Björgunarsveitir hafa ekki bara verið að leita að fólki sem var að koma frá gosstöðvunum, því björgunarfólk hefur þurft að stöðva fólk sem var að leggja upp í göngu að gosinu í nótt.
Veður er afleitt. Nú er bálhvasst í Grindavík og gengur á með rigningu í byggð en slydda er inn til fjalla og hitastig um tvær gráður