Piccolo býður upp á hágæða föt fyrir yngri kynslóðina
„Við sáum þessa búð auglýsta til sölu og þar sem Alma nennti ekki að hanga bara heima með nýfædda dóttur okkar, ákváðum við að stökkva á Piccolo og sjáum ekki eftir því,“ segja þau Jónmundur Aron Tómasson og Alma Dís Sigurbjörnsdóttir en þau eiga og reka barnavöruverslunina Piccolo á Hafnargötu 54 í Reykjanesbæ. Þau tóku við rekstrinum 30. október og eru hægt og örugglega að setja sín fingraför á búðina og hafa m.a. látið hanna nýtt lógó og þegar blaðamann bar að garði var nýbúið að líma það á veggi og í glugga verslunarinnar.
Jónmundur sem hafði átt heima í Hafnarfirði frá sex ára aldri, þegar hann flutti þangað frá Grindavík, er að vinna í Reykjavík og Alma Dís á ættir að rekja til Grindavíkur en lítur þó á sig sem Keflvíking, hún er af hinni þekktu Teigs-ætt í Grindavík en Guðmundur Elvar Jónsson sem var umboðsmaður Shell í Grindavík til fjölda ára, er afi hennar.
„Við fluttum í Innri-Njarðvík árið 2020, um svipað leyti og þessi búð var stofnuð af fyrri eigendum. Yngri dóttir okkar er þriggja mánaða gömul og þegar Alma lýsti yfir áhuga á að fara gera eitthvað í stað þess að hanga bara heima með Ivý, var ég nýbúinn að koma auga á þessa búð til sölu. Ég skaut þessu að Ölmu og hér erum við í dag og gætum ekki verið ánægðari. Við tókum við góðu búi en þó ætlum við að endurnýja vöruúrvalið og erum með okkar hugmyndir í þeim efnum. Við viljum geta boðið upp á góð föt á börn og geta boðið þau á sanngjörnu verði. Við erum líka með barnaleikföng og barnakerrur en höfum ekki farið út í að vera með barnavagna. Sömuleiðis erum við með bílstóla og flestir þannig að hægt er að snúa barninu 360°. Ég er líka stoltur að geta sagt frá barnabíl-sesunum en ég fór á stúfana eftir að ég lenti næstum því í bílslysi og var með son minn á sessu sem var laus. Ég þurfti að snarhemla og sessan fór næstum undan drengnum og það getur verið hættulegt. Þess vegna fundum við mjög góða sessu sem festist við aftursætið eins og barnastólar gera, þannig er sessan alltaf undir barninu og veitir því miklu meira öryggi,“ segir Jónmundur.
Eigin fatalína?
Alma Dís hefur alltaf haft áhuga á fötum og fatahönnuðurinn blundar í henni.
„Ég hef alltaf haft áhuga á fötum og þá sérstaklega barnafötum og þess vegna var þetta eins og himnasending fyrir mig þegar Jónmundur sagði mér frá þessari búð til sölu. Ég hlakka alltaf til að mæta í vinnuna og hlakka til þegar við verðum komin með okkar vörur til sölu, við erum svo nýlega tekin við og sumt af því sem var til í búðinni er ennþá til sölu. Mjög flott föt en okkur langar til að koma með okkar vörur inn í búðina en fyrsta sending frá okkur er úr jólalínu frá dönsku merki sem heitir Fliink, við erum í viðræðum við önnur falleg merki frá Danmörku og hlakkar okkur mikið til að fara bjóða upp á þær vörur sem okkur sjálfum líst best á. Við erum með stóra sýn á breytingum fyrir búðina og hlakkar okkur mikið til að geta boðið upp á vinsælar og fallegar vörur á flottu verði fyrir fólk á Suðurnesjum. Draumur okkar er síðan að hanna okkar eigin fatalínu undir Piccolo. Ég er ekki lærður fatahönnuður en er með hugmyndir í kollinum hvernig fötin eiga að líta út og hlakka til að finna aðila sem getur hrint þessu í framkvæmd fyrir okkur. Við viljum bjóða upp á góð gæði og markmið okkar er að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu. Ég hef verið að skjótast með vörur eftir lokun til kúnna hér í Reykjanesbæ, við tökum glöð á móti ábendingum um vöruúrval og fleira, erum alltaf með heitt á könnunni og viljum að fólki líði vel inni í búðinni hjá okkur. Jónmundur er mjög handlaginn, er búinn að taka allt í gegn og mála og við erum afskaplega ánægð með útkomuna, við teljum hlýtt og notalegt andrúmsloft hér hjá okkur. Það er búið að vera mikið álag á Jónmundi, hann er í 100% vinnu í Reykjavík og hefur verið 100% til staðar hér en nú erum þessum breytingum að mestu lokið og ég hlakka til að byggja búðina upp til framtíðar. Við erum lítið fjölskyldu fyrirtæki sem viljum bjóða upp á fallega og sanngjarna barnavörubúð á Suðurnesjum, okkur finnst vanta svona búð hér, það er gott að þurfa ekki alltaf að fara í bæinn fyrir það. Við munum bæta vel í vöruúrvalið fyrir tveggja til tíu ára aldurshópinn á komandi ári,“ sagði Alma að lokum.