Tólf milljarða stækkun og endurbætur í Svartsengi
Framkvæmdir við stækkun og endurbætur jarðvarmaversins í Svartsengi hafa gengið vel á árinu þótt náttúruöflin á Reykjanesi hafi boðið upp á ýmsar áskoranir. Um 90 manns vinna nú dag hvern að framkvæmdinni en fyrsta skóflustungan var tekin fyrir sléttum tveimur árum.
Verkið er nánast á áætlun en óhjákvæmilegar tafir vegna jarðhræringa, eldgosa og gasmengunar hafa að stærstum hluta verið unnar til baka þökk sé samhentu átaki og góðri samvinnu allra sem að verkinu koma. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður um tólf milljarðar króna og er stefnt að gangsetningu virkjunarinnar síðla árs 2025.