Bláa lónið ekki svo langt frá fullum afköstum
„Við erum að taka á móti u.þ.b. 1500 manns í dag sem er ekki svo langt frá heildarafköstum en við erum líka í framkvæmdum og því er gott að geta stýrt þessu á þennan máta,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins en fyrirtækið gat opnað í gær í fyrsta sinn eftir síðasta eldgos.
Hlutirnir ganga öðruvísi fyrir sig í dag en fyrir síðasta eldgos, nú þarf ferðamaðurinn að koma sér til Grindavíkur og þaðan er hann eða hún, fluttur með rútu til og frá Bláa lóninu. Bílastæðin við Nettó og verslunarmiðstöðina voru yfirfull í dag og allt iðaði af lífi í þeim hluta bæjarins. Helga á von á að þessi háttur verði hafður á fram í miðjan mánuðinn en þá er ráðgert að hægt verði að keyra Grindavíkurveginn að Bláa lóninu, og þ.a.l. til og frá Grindavík.
Sjónvarpsviðtal við Helgu fylgir með þessari frétt.