Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar

Íþróttir

Njarðvík setti sópinn á loft og mætir Haukum í úrslitum Bónusdeildar kvenna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 27. apríl 2025 kl. 21:00

Njarðvík setti sópinn á loft og mætir Haukum í úrslitum Bónusdeildar kvenna

Njarðvík og Keflavík mættust í kvöld þriðja sinni í undanúrslitarimmu sinni í Bónusdeild kvenna og fór leikurinn fram í Icemar-höll Njarðvíkinga. Njarðvík hafði unnið fyrstu tvo leikina og gátu sent nágranna sína í sumarfrí með sigri í kvöld.
Njarðvík leiddi nánast frá fyrstu mínútu, í hálfleik með tveimur stigum, 46-44 en tóku öll völd í seinni hálfleik og höfðu að lokum öruggan sigur, 101-89.

Keflavík byrjaði betur en leikurinn jafnaðist fljótt. Brittany Dinkins, leikmaður Njarðvíkur, sem greinilega gekk ekki heil til skógar í leik tvö í Keflavík, virtist vera í betra standi og var búin að skora sjö stig eftir tæpar fjórar mínútur en hinum megin var Jasmine Dickey áfram sjóðandi heit. Staðan eftir fyrsta fjórðung, 27-22 en fyrir utan Brittany var Paulina Hersler illstöðvandi inni í teig Keflvíkinga og var komin með 10 stig og 3 fráköst. Lára Ösp Ásgeirsdóttir átti frábæra innkomu hjá Njarðvík og var búin að setja tvo flotta þrista. Jasmine Dickey sú eina með alvöru framlag hjá Keflavík var komin með 14 stig og 3 fráköst.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Njarðvík kom miklu grimmara til leiks í öðrum leikhluta og eftir tæpar fjórar mínútur tók Keflavík leikhlé, þær voru að tapa leikhlutanum 13-5 og leiknum þar með með þrettán stigum, 40-27. Keflavíkurkonur svöruðu leikhléinu vel og setti sex stig í röð og var með frumkvæðið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum, 46-44 fyrir Njarðvík.

Seinni hálfleikur byrjaði jafn, staðan var t.d. 59-57 eftir rúmar fimm mínútur en Njarðvík bætti þá í og náði muninum upp í níu stig, 72-63. Munurinn fór svo upp í tíu stig en Thelma Dís Ágústsdóttir kom með sterkan þrist og önnur karfa fylgdi í kjölfarið og munurinn kominn niður í fimm stig en Brittany Dinkins átti lokaorðið með þristi og staðan eftir þrjá leikhluti, 78-70. Brittany við sitt gamla heygarðshorn, þarna komin með 27 stig og 10 stoðsendingar.

Jasmine Dickey skoraði fyrstu körfu fjórða leikhluta og brotið á henni. Hún setti vítið niður og Keflavík reyndi að búa til augnablik til að snúa leiknum sér í vil en þriggja stiga hittni Njarðvíkur slökkti þá von jafnharðan. Munurinn fór upp í 16 stig, 93-77 en Keflavík neitaði að gefast upp og næstu fimm stig voru þeirra.  Munurinn fór niður í níu stig en nær komust Keflvíkingar ekki og öruggur sigur Njarðvíkur staðreynd, lokatölur 101-89. Liðin skiptu því um hlutverk síðan í fyrra en þá sópaði Keflavík Njarðvík í lokaúrslitunum, núna settu Njarðvíkingar sópinn á loft og munu mæta deildarmeisturum Hauka í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Brittany Dinkins og Paulina Hersler voru yfirburðabestar hjá Njarðvík, Brittany með 40 framlagspunkta (36 stig, 12 stoðsendingar og 7 fráköst). Paulina var með 27 í framlag (27 stig og 8 fráköst). Emilie Hesseldal var að vanda grimm í fráköstunum, tók 16 fráköst en skoraði ekki nema 3 stig.

Jasmine Dickey var að vanda atkvæðamest hjá Keflavík og endaði með 37 stig og 14 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir reyndi sitt besta og endaði með 20 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.

Hilmar Bragi var mættur með myndavélina í Icemar-höllina í kvöld.

Njarðvík - Keflavík // Bónusdeild kvenna 27. apríl 2025