Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Rauð jól sjóhunda á Suðurnesjum?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 13. desember 2024 kl. 06:39

Rauð jól sjóhunda á Suðurnesjum?

Núna sit ég við tölvuna mína í Sandgerði, er loksins heima eftir mikið flakk um landið og hef skrifað þessa pistla svo til út um allt land. Jólastemmningin ræður ríkjum núna í desember, þennan síðasta mánuð ársins 2024, og þó stutt sé liðið af þessum mánuði þá hefur tíðin bara verið nokkuð góð og bátar hafa komist á sjóinn, þar með talið nokkrir handfærabátar.

Desember myndi nú seint teljast vera góður mánuður til þess að stunda handfæraveiðar, út af veðrum sem og lítilli birtu en fjórir færabátar frá Sandgerði hafa farið út, veiðin hjá þeim var treg. Guðrún GK var með 217 kg í einni löndun og af því var ufsi 109 kíló. Teista ÁR var með 72 kíló í einni löndun og af því var ufsi 42 kíló. Snorri GK var með 143 kíló, af því var ufsi 78 kíló og Dímon GK var hæstur með 225 kíló, af því var ufsi 109 kíló. Reyndar er það nú þannig að verð á ufsa er nú nokkuð gott, þennan dag sem að bátarnir réru þá var meðalverðið um 260 til 270  krónur fyrir óslægðan ufsa, leiguverð á ufsakvóta er á sama tíma um 40 til 50 krónur.

Reyndar er mikil jákvæðni í gangi núna hjá þeim útgerðarmönnum sem gera út handfærabáta því eftir niðurstöður úr nýafstöðnum alþingiskosningum eru menn bjartsýnir á að meira verði gert fyrir færabátanna, við skulum sjá hvernig það fer eftir að ný ríkisstjórn tekur til starfa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þónokkrir bátar hafa verið á línuveiðum frá Sandgerði og veiðin hjá þeim verið nokkuð góð. Hópsnes GK er með 11,4 tonn í tveimur róðrum, Dúddi Gísla GK með 35,8 tonn í fimm róðrum og mest 9,1 tonn. Fjölnir GK með 43 tonn í sex róðrum og mest 9,1 tonn, reyndar landaði hann í Grindavík í einni löndun. Margrét GK með 44,8 tonn í fimm róðrum og mest 10,2 tonn og Óli á Stað GK 55,3 tonn í sjö róðrum, mest 8,4 tonn.

Svo er nýr bátur að koma til veiða til Sandgerðis núna um áramótin. Sigurður Aðalsteins hefur fest kaup á stálbát með skipaskrárnúmerið 1458 en Stakkavík ehf. átti og gerði út þennan bát í um tíu ár og hét hann þá Gulltoppur GK, hann var síðan seldur til Hríseyjar og gerði þá út á dragnót. Skipstjóri á honum var Grétar Þorgeirsson sem var lengi skipstjóri á Farsæli GK frá Grindavík.

Þó svo að Ísey EA hafi verið skráð frá Hrísey þá réri báturinn mjög víða, svo til allt í kringum landið en hérna fyrir sunnan þá landaði báturinn bæði í Grindavík og Sandgerði, þó meira í Sandgerði. Núna hefur báturinn fengið nafnið Margrét GK 27 og skipstjórinn á bátnum er Ástgeir Finnsson, hann er ekki óvanur að róa frá Sandgerði því hann réri á Kristbjörgu HF sem Siggi átti og gerði út frá Sandgerði, líka á dragnót. Báturinn hafði legið í Hafnarfirði í tæp tvö ár en var síðan siglt til Njarðvíkur og var báturinn tekinn í slipp og málaður og unnið að ýmsum lagfæringum. Ástgeir ráðgerir að taka prufutúra milli jóla og nýárs.

Reyndar er það nú þannig að það stefnir í að það verði allt að sex dragnótabátar að róa frá Sandgerði eftir áramótin. Það eru Nesfisksbátarnir sem eru þrír, Maggý VE og síðan tveir nýir bátar. Margrét GK 27 og Stapafell SH sem hefur verið að róa frá Reykjavík til veiða í Faxaflóanum en skipstjórinn á Stapafelli SH er Elli Bjössi Halldórsson sem býr í Njarðvík en Pétur Pétursson útgerðarmaður í Ólafsvík gerir út Stapafell SH, hann gerir líka út tvo báta sem báðir heita Bárður SH.

Reyndar er ein ansi áhugaverð tenging við Ella Bjössa og Grétar sem var skipstjóri á Ísey EA. Þegar að Farsæll GK var seldur þá var hann seldur til Bolungarvíkur og þar fékk báturinn nafnið Finnbjörn ÍS og skipti þá báturinn um lit og varð fallega gulur á litinn. Skipstjóri á þeim báti var títtnefndur Elli Bjössi.

Núna vantar bara snjóinn til að gera þetta jólalegra en er núna. Veit nú ekki hvort allir séu sammála mér um það að fá snjóinn en allavega í desember þá þarf að vera snjór. Enginn rauð jól, bara hvít og notaleg.