Gjöreyðilagðist í eldi í Sandgerðishöfn
Sædís Bára GK gjöreyðilagðist í bruna í Sandgerðishöfn nú í hádeginu. Fjölmennt slökkvilið brá starfsstöðvum í Sandgerði og Reykjanesbæ var kallað út.
Báturinn varð fljótlega alelda og honum varð ekki bjargað. Slökkviliðsmenn börðust við eldinn af bryggjukantinum og fengu svo björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein til aðstoðar við slökkvistarfið.
Eldurinn barst í fríholt á hafnargarðinum og magnaði það upp bálið og lagði mikinn og svartan reyk til himins.
Talsverður strekkingur var og gerði það slökkvistarfið erfiðara þar sem eldtungur, reyk og hita lagði yfir bryggjukantinn þar sem slökkvistarfið fór fram.
Eldurinn hefur núna verið slökktur og er ljóst að báturinn er gjörónýtur.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á vettvangi nú áðan.
Myndskeið frá brunanum er væntanlegt á vf.is