Innviðum ekki ógnað
„Við vorum búnir að fergja Njarðvíkuræðina og erum vongóðir um að sú aðgerð haldi eins og sú sem við gerðum þegar æðin að Grindavík var fergjuð,“ segir Páll Kristinsson, rekstrarstjóri orkuvera hjá HS orku en ekki er talið að eldgosið sem hófst í gærkvöldi ógni innviðum. Rauðamelslína sem tengir orkuverið í Svartsengi við Fitjar, er þó farin sundur svo keyrt er á dieselvélum en innan klukkustundar eða svo, mun verða tengt við streng frá Reykjanesvirkjun.
Páll var staddur í Svartsengi þegar blaðamaður náði tali af honum og tók hann nokkrar myndir.
„Hraun er að flæða yfir Njarðvíkuræðina en við vorum búnir að fergja hana en svipuð aðgerð var gerð á æðinni til Grindavíkur og sú aðgerð hélt, ég er því vongóður um að ekkert muni koma fyrir Njarðvíkuræðina en ekki er hægt að slá því sem föstu. Hraunið er á svipuðum stað og fór yfir í febrúar og nú er vegurinn sem liggur að Bláa lóninu að brenna, það virðist vera meira rennsli í þessu gosi en í febrúargosinu. Við verðum bara að vona það besta, gosið er í rénum og lýkur vonandi sem fyrst,“ sagði Páll að lokum.