Skammvinn hrina á Sundhnúkagígaröðinni í nótt
Milli kl. 2 og 3 í nótt varð smáskjálftahrina á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells. Þá mældust rúmlega tuttugu skjálftar sem voru um og undir M1,0 að stærð á 3 til 6 km dýpi. Staðsetning skjálftanna er á mjög svipuðum slóðum og jarðskjálftar sem hafa sést við upphaf þeirra kvikuhlaupa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðastliðið ár. Skjálftahrinan var skammvinn og höfðu engir skjálftar mælst þar frá því kl. 4 í nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Hvorki sáust merki um aflögun á GPS mælum eða ljósleiðara né þrýstingsbreytingar í borholum HS-Orku í Svartsengi. Þegar kvika hefur hlaupið frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina hafa þessi mælitæki sýnt skýr merki um það.
Ein möguleg skýring á skjálftavirkninni í nótt er kvikuhreyfingar sem stöðvuðust áður en kom til kvikuhlaups. Engin merki um breytingar á kvikusöfnuninni undir Svartsengi hafa komið fram á mælum Veðurstofunnar í kjölfar skjálftahrinunnar.
Samkvæmt viðbragðsáætlunum Veðurstofunnar var almannavörnum tilkynnt um skjálftahrinuna og upplýst um að sérfræðingar væru að meta hvort að kvikuhlaup væri hafið. Þar sem ekki sáust nein önnur merki um kvikuhlaup var ákveðið að grípa ekki til frekari ráðstafana í nótt.
Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.