Þjófar náðust á mynd
Steinar Sigurgeirsson sjómaður birti í gær myndir á facebook síðu sinni af meintum innbrotsþjófum sem líklega höfðu brotist inn í aðsetur Steinars á Hólabrekku á Garðskaga. Haft var samband við Steinar á sunnudag og honum greint frá því að brotist hafi verið inn í útihús hans á staðnum. Hurð hafi verið brotin upp og ruslað til í húsnæðinu og ýmsum munum stolið. Meðal þess sem var stolið var stór loftpressa blá að lit, rauð verkfærakista og svokallað múraraspil.
Steinar nafngreinir tvo menn sem hann telur hafa verið þarna á ferð og birtir myndir sem náðust af bifreið sem þeir notuðust við.
„Nú vildi svo skemmtilega til að verið var að taka myndir þarna nærri og þess vegna er til mynd af þeim þar sem þeir keyra í burtu með loftpressuna aftan á kerru, en kerrunni var einnig stolið í Sandgerði,“ segir Steinar en búið að gefa mönnunum kost á að skila þýfinu. Þeir hafa hins vegar ekki sinnt því, en Steinar biður fólk um að hafa augun hjá sér ef þessir hlutir verði boðnir til sölu.