Körfuknattleiksfjölskyldan sendir Grindvíkingum hlýjar kveðjur
Körfuknattleikssamband Íslands sendir hlýjar kveðjur til Grindvíkinga fyrir hönd íslensku körfuknattleiksfjölskyldunnar þar sem m.a. kemur fram að hugsanlega muni mótahald raskast eitthvað vegna þess ástands sem upp er komið í Grindavík. Grindvíkingar og KKÍ þurfi tíma til að sjá hvernig hlutirnir muni þróast á næstu sólarhringum.
Kveðjuna má sjá hér að neðan:
„Vegna þessa ástands sem nú ríkir hjá Grindavíkingum vil ég byrja á á því að senda hlýjar kveðjur til allra Grindvíkinga frá KKÍ og körfuknattleiksfjölskyldunni.
Það er búið að vera mikið álag á okkar fólki í körfuknattleiksdeild Grindavíkur undanfarna daga og sólarhring, að beiðni formanns körfuknattleiksdeildar Grindavíkur Ingibergs Þórs Jónassonar sendi ég hans þakkir og stjórnar deildarinnar fyrir alla þá aðstoð og kveðjur sem fulltrúar körfuknattleikshreyfingarinnar hafa sent til Grindavíkur.
Númer eitt núna um helgina er að Grindavíkingar allir, eru að reyna að átta sig á aðstæðum og finna út úr sínum nauðsynlegustu málum.
Grindvíkingar og við hjá KKÍ þurfum að fá tíma til að sjá hvernig hlutirnir þróast allra næstu daga en öllum má vera ljóst að ekki verður spilað í Grindavík á næstu dögum og hugsanlega mun mótahald okkar raskast eitthvað vegna þessa. Þetta er allt að gerast mjög hratt og verður unnið að lausn á þeim málum sem þarf að leysa í samráði við körfuknattleiksdeild Grindavíkur og yfirvöld.
Við þökkum þeim aðildarfélögum okkar sem nú þegar hafa haft samband við Grindvíkinga og boðið fram aðstoð sína þannig að ungir iðkendur Grindavíkur geti mætt á æfingar hvar sem þau eru stödd á landinu, við vitum að öll okkar aðildarfélögn munu bjóða Grindvíkinga velkomna til sín enda er mikilvægt ungir iðkendur nái halda í sína rútínu eins og hægt er við aðstæður sem þessar.
Að lokum það sem skiptir mestu máli núna og við sjáum svo vel er er almenn samstaða með Grindvíkingum öllum og við öll verðum að gefa þeim ráðrúm til að ná utan um atburði síðasa sólarhrings.
Hlýjar kveðjur frá KKÍ og körfuknattleikshreyfingunni til allra Grindvíkinga.“
Undir þetta ritar Hannes Jónsson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi formaður KKÍ