Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Íþróttir

Logi handhafi tveggja stærstu titlana í golfi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 29. júní 2024 kl. 07:33

Logi handhafi tveggja stærstu titlana í golfi

„Það var frábært að ná að landa þessum sigri og vera handhafi tveggja stærstu titlana á Íslandi. Ég lék vel í öllu mótinu en var þó ekki alveg á boltanum á fyrstu brautunum í úrslitaleiknum. Það small svo allt í gang á áttundu braut og ég lék frábært golf eftir það sem skilaði mér sigri,“ segir Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja en hann varð Íslandsmeistari í holukeppni eftir sigur í úrslitaleik á móti Jóhannesi Guðmundssyni (Golfklúbbi Reykjavíkur). Mótið fór fram á Garðavelli á Akranesi um síðustu helgi en lauk á mánudag.

Í holukeppni er leikin útsláttarkeppni og þurfti Logi að hafa betur gegn fjórum kylfingum í holukeppni en fyrsta keppnisdaginn var leikin 36 holu höggleikur. „Það voru margir jafnir og spennandi leikir. Holukeppnin er skemmtileg og góð tilbreyting frá höggleiknum sem við leikum alltaf nema í þessu móti,“ sagði Logi.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Logi varð Íslandsmeistari í höggleik á síðasta ári en það er stærsta mót ársins. Íslandsmót í holukeppni er annað stærsta mótið og Logi vildi ná þeim titli líka og er því handhafi tveggja stærstu titlana en Íslandsmótið í höggleik fer fram á Hólmsvelli í Leiru, heimavelli Loga, 18.–21. júlí í sumar.

Kærastan, Sara Kristinsdóttir, var Loga til halds og trausts á Íslandsmótinu. VF/PKet

„Það er auðvitað markmiðið að verja titilinn og ég hlakka mikið til mótsins. Ég er á heimavelli og þekki völlinn auðvitað mjög vel, búinn að vera þar nánast frá því ég byrjaði í golfi.“

Hvernig muntu undirbúa þig fyrir það mót?

„Ég er að leika gott golf og í góðum gír. Þekki völlinn auðvitað mjög vel og mun huga vel að leikskipulagi sem maður þarf að hafa en númer eitt er auðvitað að vera vel á boltanum og huga að eigin leik. Samkeppnin er hörð og ég þarf að leika mitt besta golf til að verja titilinn.“

Logi tók þátt í tveimur sterkum áhugamannamótum í St. Andrews í Skotlandi og á Norður-Írlandi rétt áður en hann kom aftur heim til að leika í holukeppninni á Akranesi. Hvernig gekk það?

„Mótin voru á strandvöllum sem eru öðruvísi en við erum vön hér heima. Það vantaði herslumuninn hjá mér að komast lengra en mér tókst að þessu sinni en þetta fer í reynslubankann og ég hlakka til að fá fleiri tækifæri utan landsteinana.“

Logi er þriðji Suðurnesjakylfingurinn til að sigra á Íslandsmótinu í holukeppni en þetta var í 36. skipti sem það fór fram. Árið 1999 sigraði Helgi Þórisson þegar leikið var á Hólmsvelli í Leiru og félagi hans, Örn Ævar Hjartarson, vann árið 2006 þegar leikið var í Grafarholti. Örn og Logi eru því einu kylfingarnir frá Suðurnesjum sem hafa hampað tveimur stærstu titlunum. Verji Logi Íslandsmeistaratitilinn í höggleik síðar í sumar verður hann fyrstur til að  vera titilhafi tveggja Íslandsmeistaratitila í höggleik í röð og vera titilhafi eins holukeppnistitils.

Sigurpáll Geir Sveinsson, íþróttastjóri GS, var hrikalega ánægður með sinn mann þegar titillinn var í höfn. VF/PKet