Max 1
Max 1

Íþróttir

Mögnuð tölfræði Deandre Kane í leiknum á móti Hetti
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 18. október 2024 kl. 11:35

Mögnuð tölfræði Deandre Kane í leiknum á móti Hetti

Deandre Kane, einn erlendra leikmanna Grindavíkur í Bónusdeild karla í körfuknattleik, var enn og aftur á milli tanna fólks eftir leikinn á móti Hetti frá Egilsstöðum í Smáranum í gærkvöldi. 

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Á rúmum 25 mínútum skoraði Kane ekki nema 11 stig úr sjö skottilraunum og fimm vítaskotum, hann tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Þetta skilaði honum 17 í framlag en það sem sést illa á inni á vellinum fyrir þá sem ekki átta sig á öllu sem viðkemur körfuknattleik, en kemur skýrt fram á tölfræðiskýrslunni, hann var hæstur  í hinni svokölluðu +/- tölfræði, hún segir til um hvernig liðinu gekk á meðan viðkomandi leikmanns naut við. Á þessum rúmu 25 mínútum var Kane +38! 

Ekki er vitað hvað gekk á milli Kane og Bandaríkjamanns Hattar, Courvoisier McCauley í fyrri hálfleik sem leiddi til þess að þeim lenti saman í hálfleik eftir að Kane gekk að upphitunarsvæði Hattar en það þyrfti ekki að koma á óvart ef Hattarkappinn hafi verið pirraður því Deandre Kane slökkti í honum nánast eins og í vindli! McCauley sem hafði skorað 26,5 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjunum, í sigrum á móti Keflavík á heimavelli og Haukum á útivelli, skoraði einunigs 17 stig í gær, hitti úr 5/17 skota sinna og flest stiga kappans komu í lok þriðja leikhluta þegar Kane sat á bekknum.

Það er kannski nöturleg staðreynd að öll athygli á leiknum í gær er vegna uppákomunnar í hálfleik, í lok leiks og eftir leikinn, en ekki á frábæra frammistöðu Deandre Kane og Grindavíkurliðsins. Gaumgæfilega er fjallað um atvikin á visir.is en það sem kemur ekki fram þar er að í lok leiksins dansaði Kane á línunni þegar hann labbaði eftir endalínunni og var kominn að bekk Hattar, til að róa liðsfélaga sinn, Devon Thomas niður. Fyrir það fékk bekkur Grindvíkinga tæknivillu.

KKÍ er að skoða þessi atvik í gær en þetta er ekki í fyrsta skipti sem Kane býr til fyrirsögnina í vetur, eða í fyrra, vegna annarra hluta en sjálfs körfuboltans.