Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Vil sjá fleiri flugvélar á lofti yfir bæjarfélaginu“
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 26. apríl 2021 kl. 09:10

„Vil sjá fleiri flugvélar á lofti yfir bæjarfélaginu“

– segir Jófríður Leifsdóttir sem hristi rykið af golfsettinu um síðustu helgi.

Jófríði Leifsdóttur, deildarstjóra hjá Isavia, hlakkar til þegar lífið kemst í eðlilegra horf og er orðin verulega leið á Covid. Hún setur oftast pizzu á grillið og veit um fallega staði bæði við Trölladyngju og Grænudyngju.

– Hvað er efst í huga eftir veturinn?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Kannski helst bara gleði yfir því að hann er á enda og sumarið sé framundan.“

– Er eitthvað eftirminnilegt í persónulegu lífi frá vetrinum?

„Veturinn var á mjög margan hátt eftirminnilegur persónulega, helst eru það óvænt veikindi og andlát mömmu, trúlofun, námslok frá Bifröst og mikil fjarvinna að heiman.“

– Hversu leið ertu orðin á Covid?

„Ég er orðin verulega leið á Covid og öllu því tengdu og hlakka til þegar lífið kemst í eðlilegra horf.“

– Ertu farin að gera einhver plön fyrir sumarið, ferðalög t.d. Ætlarðu til útlanda?

„Við erum ekki farin að plana sumarið neitt að ráði, annað en að við Ingimundur sambýlismaður minn ætlum að gifta okkur í lok ágúst og fara til Tenerife í byrjun september. Partýstuðull brúðkaupsins og ferðaplön ráðast af aðstæðum á þeim tíma en við treystum á betri tíð og bólusetningar. Svo liggur leiðin örugglega upp í bústað og eitthvað víðar um landið. Ég hristi líka rykið af golfsettinu um síðustu helgi og stefni á að nota það eitthvað í sumar.“

– Hvað myndir þú gera ef heimurinn yrði Covid-frír í næstu viku?

„Ég myndi fagna því að geta farið grímulaus út í búð og líklega taka langt helgarfrí í einhverri borg erlendis, áfangastaðurinn væri eiginlega aukaatriði.“

– Uppáhaldsmatur á sumrin?

„Uppáhaldsmaturinn allan ársins hring er heimagerð pizza eða góð nautasteik.

– Ertu mikill grillari? Hvað finnst þér best á grillið?

„Oftast er það pizzan sem fer á grillið, eitthvað gott kjöt eða hamborgarar. Við tökum yfirleitt bæði pláss í eldhúsinu en ég læt þó Ingimund alfarið um grillið.“

– Uppáhaldsdrykkur á sumrin?

„Rauðvín og vatn eru uppáhaldsdrykkir, í þessari röð og óháð árstíðum.

– Hvert myndir þú fara með gest á Reykjanesinu (fyrir utan gosslóðir)?

„Ég myndi líklega fara hefðbundinn Reykjaneshring og svo er mikið af skemmtilegum svæðum til að ganga á, til dæmis í kringum Trölladyngju og Grænudyngju.“

– Hver var síðasta bók sem þú last?

„Ég las Konan sem elskaði fossinn, eftir Eyrúnu Ingadóttur, sem er saga Sigríðar frá Brattholti og baráttu hennar fyrir Gullfossi.“

– Hvaða lag er í uppáhaldi hjá þér núna?

„Hér verð ég eiginlega bara að segja pass, hlusta á allskonar bæði línulegt og á Spotify.“

– Hvað viltu sjá gerast í þínu bæjarfélagi á þessu ári?

„Helst myndi ég vilja sjá fleiri flugvélar á lofti yfir bæjarfélaginu og breytingar á atvinnuástandi á Suðurnesjum.“