„Get horft á flugeldasýninguna út um stofugluggann ef ég er latur“
Jóhann Smári Sævarsson keypti lestarmiða í Þýskalandi í sumar fyrir níu evrur og miðinn virkaði í allar lestarsamgöngur í landinu í heilan máluð. Hann ferðaðist til Þýskalands og Austurríkis í sumar en ætlar að kíkja í árgangagönguna og á laugardagstónleika í Duus safnahúsum á Ljósanótt.
Hvernig varðir þú fyrsta sumarfríinu án takmarkana?
„Við ferðuðumst til Þýskalands og Austurríki og svolítið innanlands, svo máluðum við húsið og notuðum pallinn eins og hægt var.“
Hvað stóð upp úr?
„Að litli afastrákurinn minn hann Yngvi Leó kom í heiminn og ég varð afi í fyrsta sinn.“
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„9€ lestar miðinn í Þýskalandi sem gekk í allar samgöngur út um allt land í mánuð.“
Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
„Vík í Mýrdal.“
Hvað ætlar þú að gera í vetur?
„Vinna áfram í húsinu okkar. Eiga frábært samstarf við samstarfsfólk og nemendur, setja á svið eitthvað glæsilegt verkefni og njóta að vera með fjölskyldu og vinum.“
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
„Skemmtileg tilbreyting í mannlífinu.“
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
„Árgangagönguna, laugardagstónleikana í Duus-húsum svo kíkjum við alltaf á málverkasýningar og flugeldasýninguna sem við reyndar sjáum út um stofugluggan okkar ef við erum löt.“
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
„Þegar við hjá Norðuróp vorum með sýningu í Dráttarbrautinni gömlu, það var magnað! Og svo var árið sem árgangurinn minn varð 50ára og svo hittingur með fjölskyldu og vinum.“