Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Besta „Blikið“ frá upphafi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 5. september 2019 kl. 11:33

Besta „Blikið“ frá upphafi

Það voru líklega margir sem fengu blik í auga þegar Eydís ómaði í Stapa á hátíðartónleikum Ljósanætur 2019. Níundu tónleikar Bliks í auga, Mannstu eftir Eydísi, fjalla um lög á áratugnum milli 1980 og 1990 og það er því óhætt að segja að stemmningin hafi verið nokkuð mögnuð í Stapanum þegar lög frá stórstjörnum eins og Madonnu, Tinu Turner, Duran Duran, David Bowie og Queen ásamt fleirum, voru flutt í þessu sögufræga tónlistarhúsi Suðurnesjamanna. Viðbrögð á fjórða hundrað gesta sýndu að Blikurum tókst vel upp og undir það er hægt að taka. Þetta var fjandi flott.

Fjórir landsþekktir söngvarar sungu með Blikinu að þessu sinni, þær Jóhanna Guðrún og Hera Björk og herramennirnir voru heldur ekki af verri endanum, þeir Jón Jósep (Jónsi) og hinn færeyski Jógvan Hansen. Jónsi gaf tóninn um gleðina sem á eftir fylgdi með skemmtilegum flutningi á fyrsta lagi kvöldsins, Footloose sem margir muna eftir úr samnefndri bíómynd en lagið er eftir Kenny Loggins. Hera Björk mætti síðan á svið sem hin íslenska Tina Turner og síðar í sýningunni rúllaði hún Flashdance og Madonnu upp. Frábær söngkona en það er líka Jóhanna Guðrún með þessa mögnuðu rödd. Það er eiginlega alveg sama hvað lag hún syngur og skrýtið að hún sé ekki að syngja úti í hinum stóra heimi. Röddin naut sín vel í lögum eins og Power of love, Hearth of glass með Blondie, True colors með Cindy Lauper og síðan í lögum með Madonnu. Jónsi tók David Bowie skemmtilega og fór mikinn í Queen lagi Freddy Mercury, I want to break free og ætti að fá leiklistarverðlaun fyrir framkomuna á sviði í því lagi. Jöggvan hefur sjaldan verið betri á sviðinu og rifjaði örugglega upp margar minningar hjá tónleikagestum þegar hann söng svo vel lagið Hungry heart eftir Bruce Springsteen. Svo voru þeir magnaðir í dúettum félagarnir með Wham og Duran Duran og ekki síður í geggjuðu lagi sem hljómsveitin Toto gerði vinsælt á þessum tíma, Rosanna. Þar enduðu gítarleikararnir, Davíð Sigurgeirsson og Matthías Stefánsson lagið með ótrúlegu gítarspili. Hljómsveitin var alveg frábær á þessum tónleikum. Þar sem undirritaður þekkti öll lögin sem voru flutt og veit að þau eru greipt í hugum margra í upphaflegum flutningi þá á maður það til að vera gagnrýninn þegar aðrir en upphaflegir aðilar flytja þau. Það var varla hægt að heyra mun á flutningnum í lang flestum lögunum. Auðvitað getur söngurinn aldrei verið eins en hann var mjög flottur hjá söngvurunum og allt að því óaðfinnanlegur hjá hljómsveitinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það væri hægt að tína fleira til í svona umfjöllun en það er óþarfi. Þetta er að mati undirritaðs besta Blik-sýningin frá upphafi og hafa þær lang flestar verið mjög góðar. Ekki má gleyma þætti Kristjáns Jóhannssonar, sögumanns sem fór oft á kostum í upprifjun á ýmsu sem var uppi á þessum tíma. Hver man ekki eftir videospólunum í Beta-tækjunum eða Henson göllunum (sem sjást reyndar ennþá)?

Það kann að vera að maður sé pínulítið hlutdrægur, uppalinn í bítlabænum Keflavík og ánægður með framlag frá heimamönnum en þessar Blik-sýningar hafa verið ómissandi á Ljósanótt síðustu níu ár. Kristján, Guðbrandur Einarsson og Arnór B. Vilbergsson ásamt hópi fólks á þakkir skildar fyrir framtakið. Það verður enginn svikinn á þessari sýningu. Andi eighties tónlistaráratugarins svífur yfir vötnum í Stapanum og ekki hægt annað en að hvetja fólk til að mæta á sunnudaginn þegar tvær sýningar verða.