Frændi bjargaði lífi mínu
„Þegar ég kom úr meðferð hafði ég engan stað til að fara á. Ég var búin að brenna allar brýr að baki mér en þá mætti Jón Ingi Ingibergsson, frændi minn og sótti mig og bauð mér að búa með fjölskyldunni sinni í Keflavík. Það bjargaði mér,“ segir Birna Ósk Valtýsdóttir sem leiddist út í daglega neyslu fíkniefna á unglingsárum. Eftir að hún flutti til frænda síns í Keflavík hefur hún byggt sig upp, lokið námi frá Menntastoðum MSS með glæsibrag og er hálfnuð með háskólabrú Keilis. Á næsta ári ætlar hún svo að hefja nám í rannsóknartölvunarfræði við HR og horfir björtum augum til framtíðar. Hún býr núna á Ásbrú með kærastanum sínum, Ísak Berg Jóhannssyni.
Var fyrirmyndarbarn
Birna ólst upp í Grafarvogi og var alltaf til fyrirmyndar sem barn; lagði hart að sér í skóla, stundaði íþróttir af kappi og var hvers manns hugljúfi. Á unglingsárunum leiddist hún út í neyslu vímuefna og í kringum tvítugsaldurinn var útlitið orðið svart. „Ég var byrjuð að gera ýmislegt af mér í lok grunnskólans, áður en ég byrjaði í neyslu, eins og að stela bíl fjölskyldunnar og að láta mig hverfa. Það kom þeim sem þekktu mig mjög á óvart því það þótti ólíkt mér. En einhvern veginn fann ég mig vel í þessu hlutverki að vera alltaf að gera eitthvað sem var bannað og tók einfaldlega ákvörðun um að svona ætlaði ég vera. Það má eiginlega segja að ég hafi tekið algjöra u-beygju.“ Birna byrjaði að neyta áfengis sumarið fyrir 9. bekk. Hún hóf svo nám við Menntaskólann við Sund eftir 10. bekk og gekk ágætlega fyrsta árið. Um það leyti fór hún að neyta fíkniefna og að ganga verr og verr í náminu. „Ég varð þekkt fyrir það í menntaskóla að vera í miklu rugli og ofbeldisfull, eiginlega algjör djöfull. Svo varð þetta bara verra og verra,“ segir hún.
18 ára gömul hlaut Birna dóm fyrir stórfellda líkamsárás og dvaldi af og til í fangaklefa fyrir minni brot sem ekki leiddu til dóma. Í kringum 17 ára aldurinn flutti hún að heiman. „Á þessum tíma byrjaði ég í dagsneyslu og var svo í henni í þrjú til fjögur ár og hætti alveg í námi. Eftir tvö eða þrjú ár í dagsneyslu missti ég svo íbúðina mína. Þá hófst margra mánaða fyllerí og ég var bara á flakki og stundum bjó ég í bílnum mínum og fannst það bara fínt. Maður verður ansi blindur á raunveruleikann í neyslu.“
Skreið heim til mömmu
Tímabilið þegar Birna var í daglegri neyslu hafði hún misst samband við alla fjölskylduna og hafði ekki talað við mömmu sína í langan tíma. „Svo skreið ég inn heima hjá mömmu eina nóttina. Daginn eftir sagði hún mér að ég gæti ekki verið hjá henni á meðan ég væri í neyslu. Næsta dag fór ég bara á djammið en stuttu seinna var hringt fyrir mig inn á Vog. Á þeim tíma fannst mér góð hugmynd að fara í meðferð til að fá frítt húsnæði, rúm til að sofa í og mat,“ segir hún.
Birna lauk meðferð á Vogi og eftirmeðferð á Vík. Þegar meðferðinni svo lauk hafði hún engan stað til að fara á. Á þeim tíma var hún líka búin að missa bílinn sinn og átti aðeins hundinn sinn og nokkrar flíkur í poka. „Ég var búin að loka á alla í fjölskyldunni og átti ekkert eftir. Það var enginn sem treysti sér til þess að fá mig inn á heimilið sitt.“ Þá buðu Jón Ingi, móðurbróðir Birnu og Dröfn H. Guðmundsdóttir, eininkona hans, Birnu að búa á heimili þeirra í Keflavík. „Í æsku var hann alltaf uppáhalds frændi minn og er það auðvitað enn,“ segir Birna og brosir. „Þau eru fjögur á heimilinu og hundur og köttur. Ég fékk að gista í herbergi með dóttur þeirra og meir að segja að taka Doberman hundinn minn með. Þau voru svo góð við mig. Ég tímdi engan veginn að klúðra því að fá að búa hjá þeim. Mér leið svo vel hjá þeim og hélt áfram að gera eitthvað í mínum málum. Það var eitthvað svo notalegt að vera hjá þeim og eiginlega of gott til að vera satt að þau skyldu leyfa mér það. Ég var búin að vera í svo miklu rugli og hélt að allir væru fífl og fávitar en lærði að það er ekki þannig.“
Þegar Jón Ingi sótti Birnu höfðu þau ekki talað saman í nokkur ár. Birna rifjar upp að þegar hún var í neyslu hafi hún farið á Keflavík Music Festival og ætlað að gista í tjaldi og mætt heim til frænda og fjölskyldu í Keflavík að fá lánaðar dýnur sem hún svo skilaði aldrei. Birna segir það ekki spurningu að það hafi bjargað sér að fá að flytja til fjölskyldunnar í Keflavík í hæfilega fjarlægð frá öllum gömlu neyslufélögunum.
Var búin að gleyma stærðfræðinni
Eftir að Birna flutti til Suðurnesja fór hún í starfsendurhæfingu hjá Virk og byrjaði á námskeiðinu Af stað, sjálfstyrkingarnámskeiði fyrir fólk sem er búið að vera lengi af vinnumarkaði. Eftir það hóf hún undirbúningsnám á vegum MSS á námslínu. Meðan á endurhæfingunni stóð þurfti Birna reglulega að standast fíkniefnaprufur. Hún segir það hafa veitt gott aðhald. „Einu sinni féll ég og fékk þá strax símtal frá ráðgjöfunum hjá Samvinnu því ég fékk að vera með á námskeiðinu á þeim forsendum að ég væri hætt í neyslu. Það var mjög vel haldið utan um mig þarna.“ Eins og áður sagði gekk Birnu alltaf vel í námi í grunnskóla. Hún var þó mörgu búin að gleyma þegar hún byrjaði aftur í skóla. „Ég man vel eftir fyrsta stærðfræðitímanum. Þá fór ég að gráta því ég var búin að gleyma því hvernig ætti að reikna mínus og deilingu. Mér fannst það hræðilegt og var svartsýn á að ég gæti lokið nokkru námi.“ Eftir smá tíma fór að ganga betur í náminu og eiginlega betur en Birna hafði búist við. „Ég fékk trú á að ég gæti þetta og var ótrúlega hissa á sjálfri mér. Eftir námslínuna hóf hún svo nám hjá Menntastoðum sem er undirbúningur fyrir háskólabrú. Því námi lauk hún um síðustu áramót og er nú hálfnuð með háskólabrú Keilis í fjarnámi. Hún býr á Ásbrú, rétt hjá skólanum og mætir þangað á hverjum degi til að læra. Námið þar gengur einnig mjög vel. Þegar því líkur um næstu áramót hefur Birna sett stefnuna á að hefja nám í rannsóknartölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. „Ég er búin að fara tvisvar sinnum á háskóladaginn að kynna mér námið og hlakka mikið til. Svo kemur bara í ljós eftir námið hvað ég fer að fást við.“
Býr að því að þekkja skuggahliðar lífsins
Það eru aðeins þrjú ár síðan Birna var í daglegri neyslu og þó svo að ýmislegt hafi gerst á þeim tíma finnst henni örstutt síðan. Í dag er Birna í góðu sambandi við fjölskyldu sína og segir lífið varla geta orðið betra. „Ég hefði aldrei trúað því að ég kæmist aftur á beinu brautina og myndi hafa það svona gott. Þetta leit svo illa út á tímabili.“ Hún lítur á tímann í neyslu sem reynslu sem hún muni alltaf búa að. „Mér finnst ég oft hafa betri sýn á lífið en jafnaldrar mínir því ég hef kynnst skuggahliðum þess. Ég nota þessa reynslu sem veganesti og held að ég sé miklu þakklátari fyrir það sem hef en ég myndi annars vera. Í dag er ég svo nægjusöm að það nær varla nokkurri átt. Þegar ég fékk leiguíbúð úthlutað á Ásbrú átti ég eiginlega ekki neitt til að setja inn í hana en var alveg sama. Ég var svo sátt að eiga loksins þak yfir höfuðið. Síðan þá er ég búin að byggja mig upp og bæta við því sem þarf á heimilið svo það er orðið mjög fínt.“ Þegar Birna hætti í neyslu skuldaði hún pening víða en er skuldlaus í dag og komin af vanskilaskrá og á nú allt sem hana áður dreymdi um, bæði veraldleg og andleg gæði.