Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Íþróttir stór hluti af menningu Suðurnesja
Laugardagur 13. febrúar 2016 kl. 12:00

Íþróttir stór hluti af menningu Suðurnesja

Gera heimildarmynd um knattspyrnulið Víðismanna á níunda áratugnum

Þeir Eyþór Sæmundsson og Þorsteinn Surmeli vinna nú að gerð heimildarmyndar um glæsilegan árangur Víðismanna á níunda áratugnum þegar þeir léku í efstu deild karla í knattspyrnu og léku til bikarúrslita árið 1987. Þeir Eyþór og Þorsteinn koma úr Reykjanesbæ en þeir hafa alla tíð vitað af þessum svokölluðu gullárum Víðismanna sem þó virðast vera að falla í gleymsku meðal yngri kynslóða. Þeir telja báðir að íþróttir séu stór hluti af menningu Suðurnesja og eigi mikinn þátt í að móta hér sögu og mannlíf.

Tengd frétt: Gulldrengirnir úr Garðinum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við höfum lengi vitað af þessum afrekum Víðismanna og alltaf langað að fræðast um þetta ævintýri. Okkur þótti því tilvalið að ráðast í þetta verkefni á þessu afmælisári félagsins,“ segir Þorsteinn en félagið Víðir fagnar 80 ára afmæli á árinu. Áhuginn á kvikmyndagerð hefur lengi verið til staðar hjá þeim Eyþóri og Þorsteini og langaði þá félaga til þess að skrásetja söguna á sínum heimaslóðum á einhvern hátt. Nú fyrir skömmu rataði rétta viðfangsefnið í fang þeirra þegar ævintýri Víðismanna skaut aftur upp kollinum.

„Ég myndi segja að þegar kemur að hópíþróttum á Íslandi þá komist fá afrek nærri þeim sem Víðismenn unnu á þessum tíma. Það að svona fámennt sveitafélag með ekki betri aðstöðu og ekkert fjármagn til þess að fá leikmenn hafi komist í röð þeirra bestu og í bikarúrslit er einstakt að mínu mati. Það er einhver rómantík sem leynist þarna sem okkur langar að fanga,“ segir Eyþór. Þeir eru þegar farnir á stúfana við að afla efnis og viðmælenda í myndina en þar er að mörgu að hyggja. Þeir vonast til þess að sem flestir muni sem komu að þessum árangri á nokkurn hátt vilji taka þátt í verkefninu en viðbrögðin hafa verið afar jákvæð hingað til að þeirra sögn.

Til stendur að fjalla um alla umgjörð liðsins og stemninguna í bæjarfélaginu á þessum árum og gera þannig sögu Garðins hátt undir höfði. „Við viljum nota tækifærið og biðla til þeirra sem eiga gamlar ljósmyndir eða myndbönd frá þessum tíma að hafa endilega samband við okkur. Við erum á facebook.“