Mannlíf

Mugison býður Grindvíkingum á tónleika í Grindavíkurkirkju
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 20. september 2024 kl. 10:16

Mugison býður Grindvíkingum á tónleika í Grindavíkurkirkju

„Þegar ég fékk þessa hugmynd með 100 tónleika í kirkjum í 100 póstnúmerum, var mér hugsað til Grindvíkinga, mér hefur alltaf þótt geðveikt stuð að spila í Grindavík og vildi gefa af mér og bjóða þeim að koma á tónleikana mína í sinni kirkju,“ segir tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, eða Mugison eins og hann kallar sig, en hann býður Grindvíkingum frítt á tónleika sína í Grindavíkurkirkju laugardagskvöldið 21. september.

Þegar Mugison var að skipuleggja tónleikaröðina í vor var mikil óvissa í gangi í Grindavík en hann ákvað samt ásamt sóknarprestinum í Grindavík, séra Elínborgu Gísladóttur, að negla þessa dagsetningu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Ég hef auðvitað fylgst með gangi mála í Grindavík síðan þessi ósköp byrjuðu og á kunningja þaðan, ég veit að fólk hefur þurft að flytja margsinnis og mér fannst bara einhvern veginn rétt af mér að gefa Grindvíkingum þetta. Ég get ekki hjálpað Grindvíkingum að flytja en ég get búið til samverustund þar sem fólk kemur saman og hefur gaman. Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að spila fyrir Grindvíkinga, það er extra mikið stuð í þeim og ég hlakka mikið til að koma til Grindavíkur þetta laugardagskvöld, 21. september.

Ég var meðvitaður um að hugsanlega myndi þurfa breyta staðsetningu tónleikanna en málin hafa þróast okkur í hag að undanförnu, síðasta eldgos búið og við sr. Elínborg sammála um að keyra bara á þetta eins og búið var að plana.“

Lítil útgerð

Mugison er heldur betur að fara ótroðnu slóðina á þessari tónleikaferð sinni en hann gerir allt sjálfur frá a til ö, er í hurðinni að taka við miðanum, rótar sjálfur eftir tónleikana og gerir einfaldlega allt einn og óstuddur. Hann fjárfesti í litlum sendiferðabíl, kom koju fyrir í honum og sefur svefni hinna réttlátu í bílnum og er með eldunaraðstöðu. Fyrir vikið hefur hann kynnst landanum betur.

„Þetta er búið að vera alveg hreint ljómandi skemmtilegt. Fyrstu tónleikarnir voru í vor og ég hef tekið þetta í nokkrum áhlaupum, tók mér smá frí í júlí en hélt rúma tuttugu tónleika í ágúst. Þegar maður er einn að ferðast þá er eins og maður eigi auðveldara með að kynnast fólki, þegar maður er með hljómsveit þá er maður mest í samskiptum við bandið. Það er búið að vera mjög skemmtilegt að kynnast nýju fólki og athyglisvert að sjá muninn á milli landsvæða, mismunandi talsmáti og andi sem ríkir á hverjum stað og bara yfir höfuð búið að vera frábært að kynnast löndum mínum svona. Mætingin hefur jafnan verið góð en ég er búinn með 67 af 100 hundrað tónleikum. Ég lagði dæmið þannig upp að ef ég fengi fyrir bensíni og mat, hugsanlega mánaðarlaunum, væri takmarkinu náð. Það er gaman að fá svona hugmynd og framkvæma hana, mér líður kannski meira eins og íþróttamanni sem setur sér markmið. Síðustu tónleikarnir eru fyrirhugaðir í Hallgrímskirkju 14. desember. Það verður gaman að enda þetta í þessari stærstu kirkju landsins, þetta er búið að vera ofboðslega skemmtilegt og gefandi, ég á alltaf eftir lifa á þessum minningum,“ sagði Mugison að lokum.

Fyrir utan tónleikana í Grindavík mun Mugison halda tónleika á þessum dögum á Suðurnesjunum:

  • Kálfatjarnarkirkja í Vogum, sunnudaginn 29. september.
  • Innri-Njarðvíkurkirkja, fimmtudaginn 3. október.
  • Keflavíkurkirkja, föstudaginn 4. október.
  • Hvalsneskirkja í Sandgerði, laugardaginn 5. október.
  • UPPSELT! Útskálakirkja í Garði, sunnudaginn 6. október.

Allir tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og er hægt að kaupa miða á tix.is, miðaverð 4.500 kr. en 5.000 kr. ef miði er keyptur við hurð.