Valhöll
Valhöll

Mannlíf

Skötumessan haldin í anda Tedda
Það var margt um manninn á Skötumessunni í fyrra en þá seldust allir miðar upp degi fyrir viðburðinn. Mynd úr safni VF
Miðvikudagur 10. júlí 2024 kl. 09:11

Skötumessan haldin í anda Tedda

Enn á ný fögnum við Þorláksmessu að sumri með því að halda Skötumessuna í Garði næstkomandi miðvikudag, 17. júlí, í Gerðaskóla í Garði kl. 19.00. Skötumessan er góðgerðarsamkoma sem hefur á tæpum tuttugu árum lagt til meira en 100 milljónir til þeirra sem þurfa á stuðningi að halda af ýmsum ástæðum.

Við sem mætum á Skötumessuna ár hvert, um 500 manns, erum samfélagið sem stendur að þessum styrkveitingum og í lok mikillar matarveislu og skemmtunar afhendum við styrkina fyrir hvert ár. Þannig erum við öll saman í því sem gert er og finnum til gleði í hjarta okkar fyrir það. Við höfum líka verið afar heppin í gegnum árin hvað styrkir Skötumessunnar hafa hitt vel í mark og komið á rétta staði.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Í ár söknum við þess að einn okkar mikilvægasti hlekkur í Skötumessunni í tæpa tvo áratugi, Theodór Guðbergsson, lést 17. júní síðastliðinn. Við ætlum að minnast hans og þakka honum fyrir hans óeigingjarna framlag og dugnað við að gera Skötumessuna mögulega öll þessi ár.

Að venju verður viðamikil en hefðbundin dagskrá í boði;

Dói og Baldvin taka á móti gestum með harmonikkum og söng.

Þá koma gamlir kunningjar, þeir Davíð og Óskar, Páll Rúnar Pálsson frá Heiði í Mýrdal, og slá á gleðistrengi gesta Skötumessunnar með söng. Sönghópurinn frá Eyjum í Kjós; Jórunn Lára, Ásdís Rún og faðir þeirra Ólafur Magnússon frá Eyjum, og á píanóið leikur Arnhildur Valgarðsdóttir. Þá leikur hljómsveitin Krummafótur eigin lög og annarra á sinn líflega og skemmtilega hátt.

Að lokum afhendum við þeim aðilum, samtökum eða stofnunum styrki kvöldsins.

Að þessu sinni verður Alli á Bryggjunni í Grindavík ræðumaður kvöldsins. Alli segir skemmtilegar sögur úr Grindavík og leikur nokkur lög á gítar og syngur.

Það verður því Grindavíkurblús sem svífur yfir skötuilminn og andann í salnum. Við kvetjum Grindvíkinga sérstaklega til að fjölmenna á Skötumessuna og slá á létta strengi með okkur og þeirri skemmtilegu dagskrá sem verður í boði.

Á matseði kvöldsins er skata, saltfiskur, plokkfiskur, kartöflur, rófur, rúgbrauð og hamsatólg. Matreitt og framreitt af okkar fólki.

Við aðstandendur Skötumessunnar erum þakklát fyrir þann stuðning og frábæru mætingu sem við fáum á hverju ári. Það gerir okkur mögulegt að láta til okkur taka og styrkja góð málefni.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest og minnum á forsölu aðgöngumiða sem gengur afar vel og lítur út fyrir að það verði uppselt áður eins og gerðist í fyrra en þá voru allir miðar seldir daginn fyrir Skötumessuna.

Hafið því hraðan á og tryggið ykkur miða. Forsala aðgöngumiða er hafin og miðinn kostar 7.500 kr. Greiðslan er lögð inn á reikning Skötuveislunnar; 0142-05-70506, kt. 580711-0650.

Gestir gefa nafn greiðanda við innganginn eða prenta út kvittun sem gildir sem aðgöngumiði.

Helstu stuðningsaðilar Skötumessunnar eru Suðurnesjabær, Fiskmarkaður Suðurnesja, ISAVIA, Icelandair Cargo, Brim, Skólamatur og fleiri aðilar.

Skötumessan í Garði