Max 1
Max 1

Mannlíf

Gunnhildur Þórðardóttir sýnir verk sín í Hannesarholti
Gunnhildur Þórðardóttir, myndlistarmaður og ljóðskáld, heldur sýninguna Magn í Hannesarholti dagana 10.–29. október.
Miðvikudagur 9. október 2024 kl. 11:20

Gunnhildur Þórðardóttir sýnir verk sín í Hannesarholti

Magn 10.–29. október 2024

Á sýningunni Magn í Hannesarholti eru glæný verk eftir Gunnhildi Þórðardóttur bæði tví- og þrívíð sem fjalla um liti lífsins, neyslu mannsins og magn, þ.e. stærð, fjölda, ofnotkun efna eða jafnvel magn sem mátt eða afl.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Listin er alþjóðlegt hreyfiafl og þannig vill listamaðurinn túlka heiminn í gegnum verk sem vonandi hreyfa við áhorfendum og fá þau til þess að spyrja spurninga varðandi ofneyslu mannsins, ofhleðslu eða jafnvægi lita eða meta fegurðina og einfaldleikann í að endurnota/uppvinna efni (skapandi endurvinnsla).

Sýningin verður opin 10.–29. október frá kl.11:30 til 16 alla daga nema sunnudaga og mánudaga. Það verður formleg opnun laugardaginn 12. október kl. 14–16 þar sem listamaðurinn mun einnig lesa ný ljóð.

Listaverk Gunnhildar fjalla oft um heimspekileg fyrirbæri en í listaverkum sínum túlkar hún vangaveltur sínar um lífið og tilveruna auk þess sem hringrásarhagkerfið hefur alltaf verið ofarlega á baugi í hennar verkum enda mikill umhverfissinni. Öll verkin á sýningunni eru einnig gerð úr endurunnum listaverkum á striga, endurnotuðum rafmagnsvírum, brotum, hlutum eða afskurði úr hinum ýmsa efniviði t.d. timbri, plasti og málmum.

Gunnhildur Þórðardóttir er myndlistarmaður, skáld og kennari. Hún lauk tvíhliða BA námi í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama háskóla árið 2006 og lauk viðbótardiplóma í listkennslu við LHÍ á haustönn 2019. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar meðal annars í Listasafni Reykjanesbæjar, Kirsuberjatrénu, í Suðsuðvestur, Flóru á Akureyri, í SÍM salnum, Slunkaríki, sal Íslenskrar grafíkur auk þess að taka þátt í samsýningum í Listasafni Íslands, Hafnarborg, Listasafni Reykjanesbæjar, Svavarssafni, Norræna húsinu, 002 gallerí og Tate Britain. Hún er stofnandi listahátíðarinnar Skáldasuðs og Myndlistarskóla Reykjaness. Hún fékk ljóðaverðlaunin Ljósberann árið 2019 og hefur tekið þátt í fjölda upplestra.

Nánari upplýsingar veita Gunnhildur Þórðardóttir (s. 8983419 - [email protected]) eða Ragnheiður J. Jónsdóttir (s. 864-0693/511 1904 - [email protected]).