Karlakór Keflavíkur
Karlakór Keflavíkur

Fréttir

Garður stækkar og íbúum fjölgar með Grindvíkingum
Bragi Guðmundsson á milli sona sinna, Sveinbjörns til vinstri og Péturs til hægri, ásamt nýjum íbúunum í Báruklöpp. VF/Sigurbjörn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 11. október 2024 kl. 06:11

Garður stækkar og íbúum fjölgar með Grindvíkingum

„Kaupendurnir koma inn í húsið og allt er tilbúið, þau geta þess vegna strax látið renna í pottinn,“ segir smiðurinn Bragi Guðmundsson í Garði en hann afhenti fjórar nýjar íbúðir í síðustu viku að Báruklöpp í Garði og voru Grindvíkingar þrír af kaupendunum. Fleiri íbúðir í götunni eru langt komnar og svo verða reist fjögur einbýlishús á Brimklöpp.

Bragi hefur næg verkefni í Suðurnesjabæ, er nýbúinn að reisa leikskóla í Sandgerði og hefur byggt öll húsin í þessari götu, Báruklöpp og nokkur hús þar eru langt komin.

„Ég hef næg verkefni hér í Garði og Sandgerði og svo sinni ég viðhaldi fyrir Suðurnesjabæ og útgerðirnar, bæði í Garði og Sandgerði. Svo hef ég farið í verkefni út á Reykjanes fyrir hitaveituna og þá með bræðrum mínum, Magnúsi í Grindinni í Grindavík og Kalla heitnum. Annars hef ég nóg fyrir stafni hér, þarf ekki að leita út fyrir bæjarmörkin, ég kláraði leikskólann í Sandgerði í ágúst og setti svo allt í gang hér. Ég tek ekki nema brotabrot af þeim verkefnum sem ég er beðinn um. Þegar þessu lýkur hér á Báruklöppinni færum við okkur yfir í næstu götu, Brimklöpp og reisum þar fjögur einbýlishús.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Mér líkar best að gera þetta svona, hanna húsin frá grunni og vera engum háður, það er enginn að böggast í manni og maður stýrir för frá a til ö. Kaupendur gátu ráðið lit á eldhúsinnréttingu og einhverju í frágangi en annars var þetta allt frágengið þegar íbúðirnar voru seldar. Kaupendur höfðu val um tvö eða þrjú svefnherbergi og ein íbúðanna er með þremur. Allt er tilbúið þegar flutt er inn, þess vegna hægt að fara strax í pottinn.

Við settum aukinn kraft í þetta þegar við sáum hvernig ástatt var fyrir Grindvíkingum og ég á von að íbúðirnar hér á Báruklöppinni sem eru í smíðum muni líka enda hjá Grindvíkingum, hver veit nema einbýlishúsin á Brimklöppinni verði líka Grindvíkinga, það yrði hið besta mál enda sómafólk sem kemur frá Grindavík.

Þetta er það sem koma skal, að byggð rísi á milli Garðs og Sandgerðis, Sandgerðingarnir voru búnir að skipuleggja í hinum endanum fyrir sameiningu og urðu eðlilega að klára það en svo munu þeir byggja í áttina til okkar. Ég held því miður að ennþá eigi að reisa gervigrasvöllinn í Sandgerði, ég vona að þeirri ákvörðun verði snúið og völlurinn rísi milli bæjanna, það er eina vitið ef þetta á að verða sameiningartákn,“ sagði Bragi að lokum.

Séð yfir  Báruklöpp og nágrenni í Garðinum. VF/Hilmar Bragi

Mæðgurnar Guðbjörg Sigurðardóttir og Guðbjörg Ósk Ellertsdóttir í nýja húsinu.

Himinlifandi á nýjum stað

Guðbjörg Sigurðardóttir, ekkja Ellerts Eiríkissonar, fyrrum bæjarstjóra í Garði og Reykjanesbæ, er ein nýbúanna á Báruklöppinni.

„Ég er að koma úr stóru húsi í Reykjanesbæ og vildi minnka við mig. Fasteignasalinn sagðist ekki hafa neitt fyrir mig en svo sá Guðbörg Ósk, dóttir mín þetta hér í Garði og ég stökk á þetta og er himinlifandi. Það er æðislegt að geta flutt inn og allt er tilbúið, ég valdi að hafa ljósa innréttingu og svo gat ég líka haft steypta veggi úti í garði, ég er með hund og hann getur spókað sig úti í garði og ég verið róleg. Ætli ég láti ekki bara renna í pottinn í kvöld,“ sagði Guðbjörg lokum