70 ár frá Fagradalsfjallsslysinu
Minningarathöfn verður haldin 3. maí næstkomandi um Andrews hershöfðingja og áhöfn B-24D Liberator "Hot Stuff" herflugvélarinnar sem fórst á Fagradalsfjalli fyrir 70 árum.
Fyrir réttum sjötíu árum síðan, hinn 3. maí 1943, fórst bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B- 24D Liberator sem bar heitið Hot Stuff á Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Flugvélin var á leið heim til Bandaríkjanna í fyrirhugaða sigurför sem fyrsta sprengjuflugvélin sem hafði náð ósködduð að fljúga 25 árásarferðir frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni. Í fyrstu voru margar slíkar flugvélar skotnar niður af orrustuflugmönnum Þjóðverja og hét Bandríkjaher áhöfnum sprengjuflugvéla sem lykju 25 árásarferðum að þeir fengju að snúa heim. Áhöfn Hot Stuff var sú fyrsta til að ná þessum merka árangri.
Í flugslysinu fórust fjórtán manns, þar á meðal Frank M. Andrews hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu sem var á leið til Washington til þess að leggja á ráðin um undirbúning innrásar Bandamanna á meginland Evrópu. Einn maður lifði slysið af, George A. Eisel stélskytta, og var það í annað sinn sem hann komst lífs af úr slíku flugslysi.
Við fráfall Andrews tók Dwight D. Eisenhower hershöfðingi við sem æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og alls herafla bandamanna í Evrópu og stjórnaði innrásinni í Normandí árið eftir. Eisenhower var síðan forseti Bandaríkjanna á árunum 1953 – 1961.
Andrews hershöfðingi var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsdeild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947. Var Andrews herflugvöllurinn í Maryland, aðsetur einkaflugvélar Bandaríkjaforseta, Air Force One, nefndur til heiðurs honum. Bandaríska herstjórnin á Íslandi nefndi nýreist íþróttahús við Hálogaland í Reykjavík Andrews Memorial Field House til heiðurs hershöfðingjanum en húsið var helsta íþróttahús höfuðborgairnnar í tvo áratugi eftir stríðið. Varnarliðið nefndi einnig samkomuhús sitt á Keflavíkurflugvelli (nú Ásbrú) Andrews Theater til heiðurs Andrews hershöfðingja.
(Framhald neðan við mynd)
Minningarathöfn í Andrews Theater á Ásbrú
Í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá þessu hörmulega flugslysi, mun Flugakademía Keilis á Ásbrú efna til minningarathafnar í Andrews Theater föstudaginn 3. maí n.k. í samstarfi við bandaríska sendiráðið og hefst athöfnin klukkan tvö. Nokkrir ættingjar þeirra sem létust í flugslysinu koma frá Bandaríkjunum til að vera viðstaddir athöfnina. Forseti Íslands verður einnig viðstaddur ásamt sendiherra Bandaríkjanna hér á landi. Sendiherrum allar erlendra ríkja með aðsetur í Reykjavík er boðið. Vígslubiskupinn í Skálholti og kaþólski biskupinn munu flytja minningarorð. Í lok athafnarinnar verða fluttir nokkrir fyrirlestrar um slysið, sprengjuflugvélar í seinni heimsstyrjöldinni og Frank M. Andrews hershöfðingja.
Allir áhugamenn um flug og flugsögu eru hvattir til þess að koma í Andrews Theater þennan dag og sérstaklega björgunarsveitarmenn, landhelgisgæslumenn og flugmenn. Ánægjulegt væri að sjá sem flesta einkennisbúna landhelgisgæslumenn og flugmenn við minningarathöfnina.
Fyrir athöfnina í Andrews Theater verða afhjúpuð kynningarspjöld til heiðurs þeim sem fórust í flugslysinu við Grindarvíkurveg móts við slysstaðinn á Fagradalsfjalli þar sem reistur verður veglegur minnisvarði, en verið er að safna fyrir honum. Hefst sú athöfn kl. 13.30 með ávarpi Bryndísar Gunnlaugsdóttur forseta bæjarstjórnar Grindavíkur. Þá mun sendiherra Bandaríkjanna, Luis Arreaga, flytja minningaorð. Minnsivarðinn er reistur að frumkvæði Þorsteins Marteinssonar og Ólafs Marteinssonar, sem eru miklir áhugamenn um flugsögu, í samvinnu við Bandaríkjamanninn Jim Lux og ættingja þeirra sem fórust. Ef veður leyfir er gert ráð fyrir „heiðursflugi“ Landhelgisgæslunnar og Flugakademíu Keilis yfir minnisvarðann.
Að neðan er heimildamynd um slysið í Fagradalsfjalli.