Max 1
Max 1

Fréttir

Eitt tæknilegasta  skip landsins
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 25. október 2024 kl. 07:15

Eitt tæknilegasta skip landsins

Útgerðarstjórinn er spenntur yfir framtíð þessa nýja skips

Ísfisktogarinn Hulda Björnsdóttir GK 11, sem útgerðarfélagið Þorbjörn í Grindavík lét smíða fyrir sig á Spáni, renndi í höfn í Grindavík í síðustu viku og af því tilefni efndi Þorbjörn til móttöku miðvikudaginn 16. október. Fjölmargir Grindavíkingar og aðrir gestir létu sig ekki vanta, skoðuðu skipið, gæddu sér að alvöru fish & chips að hætti Issa og hlustuðu á lifandi tónlist.

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar, fór yfir ferlið.

„Það hefði lengi blundað í okkur að fara í nýsmíði á skipi en við höfum verið duglegir við að nýta eldri skip að undanförnu, lengdum t.d. Hrafn Sveinbjarnarson. Línuskipunum okkar hefur verið að fækka og við urðum að fá eitthvað í staðinn og tókum ákvörðun þegar COVID var í toppi og Úkraínu-stríðið var að byrja. Sem betur fer gátum við samið um verð á stáli í skipið því verðið hækkaði mikið í kjölfar stríðsins. Við vorum með þeim síðustu sem náðum að semja um gamla verðið á stáli, áður en stríðið byrjaði.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Gunnar Tómasson.

Breytingar eru yfirvofandi á eignarhaldi Þorbjarnar.

„Við erum að skipta Þorbirni upp í þrjú sjálfstæð fyrirtæki sem hvert um sig mun sjá um útgerð eins skips. Mínir synir munu taka við Hrafni Sveinbjarnarsyni, synir Eiríks heitins bróður munu stýra málum á Tómasi Þorvaldssyni og Gerða Sigga systir og hennar fjölskylda munu að öllum líkindum stýra málum á þessu nýja skipi, Huldu Björnsdóttur. Við byrjum alla vega svoleiðis og munum leggja ísfisktogaranum Sturlu á meðan. Þetta mun ekki hafa nein áhrif á Grindavík, það verða einfaldlega þrjú fyrirtæki í stað eins, við eigum ættir okkar að rekja til Grindavíkur langt aftur í aldir og það er ekkert að fara breytast. Við vorum búnir að hætta allri landvinnslu og treystum okkur ekki til að hefja hana aftur á meðan þetta ástand ríkir en þegar ástandið lagast munum við skoða að hefja aftur vinnslu í landi,“ sagði Gunnar.

Hulda Björnsdóttir GK er glæsilegt og tæknivætt skip

Útgerðarstjóri Huldu Björnsdóttur er Hrannar Jón Emilsson, hann rölti með okkur um skipið og fræddi okkur um kosti þess en það mun brátt halda á veiðar.

„Við fórum á fullt árið 2021 að þarfagreina hvernig skip við vildum, það var minna í upphafi en stækkaði á þróunartímanum og hönnun var klár í árslok 2021. Það var Sævar Birgisson hjá Skipasýn sem hannaði skipið sem er 58 metrar að lengd og 13,6 metrar að breidd. Það mun geta borið 700 kör sem hvert tekur 300 kíló, eða samtals 210 tonn sem er meira en þrefalt meira en Sturla ber og ég á ekki von á við munum keyra á 700 körum, verðum með 570 kör í lestinni til að byrja með.“

Hrannar Jón Emilsson.

Ekki mun væsa um áhafnarmeðlimi í borðsalnum.

Skipið er mjög vel tæknilega búið og minnir brú skipsins meira á sjónvarpsupptökuver.

„Það var mikið lagt í alla hönnun á skipinu og allur aðbúnaður er fyrsta flokks. Valur Pétursson, skipstjóri sem sigldi skipinu frá Spáni til Íslands lét mjög vel að öllu og mun að öllum líkindum taka fyrstu túrana á meðan við erum að læra á skipið. Valur er skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnar en við fengum hann í þetta verkefni, að fylgja skipinu eftir síðustu metrana í smíðaferlinu, sigla því heim og vonandi mun hann taka fyrstu prufutúrana.

Brúin líkist sjónvarpsupptökuveri.

Skipið er hannað með sparneytni í huga og m.v. siglinguna heim er greinilegt að mjög vel tókst til. Þegar skipið var á 11,5 mílum var eyðslan á klukkustund 340 lítrar en sambærileg eyðsla á Tómasi Þorvalds er 520 lítrar, á sólarhring munar þetta heilum fjögur þúsund lítrum. Í krónum og aurum skiptir það auðvitað máli en skipið mengar þá í leiðinni miklu minna. Skipið uppfyllir kröfur varðandi mengunarstaðla í heiminum en við munum reyna að keyra vélina ekki á hámarks afkastagetu, sem er 800 snúningar á mínútu. Á þannig keyrslu snýst skrúfan 78 hringi en það á ekki að þurfa keyra skipið þannig. Hýfingarpúltið, þ.e. stýringin á því þegar trollið er híft inn, er fyrsta flokks en sem betur fer þurftum við ekkert að finna upp hjólið í þeim efnum, gátum stuðst við bestu hönnunina,“ segir Hrannar.

Það þurfti ekki að finna upp hjólið þegar hýfingarpúltið var hannað.

Vinnsludekkið og lestin

„Ég segi nú kannski ekki að það þurfi ekki mannshöndina en það er búið að gera alla vinnunna miklu auðveldari en áður tíðkaðist. Fiskurinn er í sjó alveg fram að blóðgun, þannig helst líf í honum og hann blóðgaður við bestu skilyrði. Svo er hann í blóðgunarbaði í tuttugu mínútur og klárar þannig blæðinguna, fer svo þaðan í slægingu. Eftir slægingu fer fiskurinn í myndgreiningu þar sem hann er tegundagreindur og þyngd áætluð. Eftir það fer hann í sitt hólf og fer í gegnum aðra vigt sem staðfestir fyrri vigtun auk þess sem fiskurinn er lengdarmældur. Að lokum er fisknum safnað saman í hólf sem tekur 300 kíló, þar er hann kældur niður í eina gráðu, stærri fiskur þarf lengri kælingu en þegar einni gráðu er náð, fer fiskurinn svo niður í lest.

Vinnsludekkið er líklega það tæknilegasta í íslenska skipaflotanum í dag.

Lestin er mjög tæknileg, kör koma upp, fyllast af fiski, hann er ísaður og körin fara svo niður og þar er lyftari í loftinu sem hægt er að stjórna úr matsalnum þess vegna því það er myndavélakerfi, þar fer nettur tedris-leikur í gang hjá þeim sem raðar körunum í lestina. Þetta er mjög spennandi og verður gaman að gera skipið út, það heldur brátt í sinn fyrsta túr og auðvitað mun taka smá tíma fyrir menn að átta sig á öllum tæknilegum atriðum í skipinu, það er alltaf þannig. Ég er mjög spenntur yfir framtíð þessa nýja skips,“ sagði Hrannar að lokum.