Safnahelgi
Safnahelgi

Aðsent

Þakka langvarandi stuðning og vináttu
Föstudagur 25. október 2024 kl. 12:10

Þakka langvarandi stuðning og vináttu

Nú liggur fyrir að ég verð ekki á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 30. nóvember nk. Ég verð heldur ekki á öðrum framboðslistum, þrátt fyrir boð um örugg þingsæti. Eðlilega er ég þakklátur fyrir slík boð, af þeim er heiður og virðing fyrir því sem ég hef staðið fyrir.

Ég vil þakka öllum sem studdu mig í vali Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins á Selfossi sl. sunnudag. Það hefur alltaf legið fyrir að í innsta kjarna flokksfélaganna hef ég ekki sótt stuðning minn til þingsetu sl. 12 ár. Umboð mitt hefur komið frá hinum almenna borgara sem hefur tekið þátt í fjölmennum prófkjörum og stutt mig til góðar verka. Ég mun áfram vinna með því sjálfstæðisfólki sem trúir á frelsi einstaklingsins en hafnar sérhagsmunum þeirra sem telja kerfið fyrir sig en síður aðra.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ég trúi því að við saman, styrkjum Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum og látum ekki niðurstöðu um val á lista flokksins breyta þar neinu um. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að við verðum samtaka í áralaginu í gegnum brim og voðasker á pólitískum vettvangi.

Framtíðin er björt, ég er heilsuhraustur og leita nýrra tækifæra í lífinu. Ég á yndislega konu, börn, fjölskyldu og vini sem ég get reitt mig á. Í þeim felast tækifæri mín um blómlega framtíð og fegurð lífsins. Pólitísk uppgjör og endir, er á mína ábyrgð. Ég stóð sjálfur við stjórnvölin og valdi leiðina, ég kenni engum um og þakka fyrir þann tíma sem ég átti á Alþingi Íslendinga. Ég tel að þingið verði fátækara ef menn og konur með minn bakgrunn, reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu fái ekki brautargengi til að endurspegla samfélagið okkar í þingsal.

Ég óska frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi velgengni í komandi kosningum. Framtíðin bíður þeirra.

Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.