Árangurinn er áþreifanlegur
Kæri íbúi á Suðurnesjum.
Ég var kosinn á þing fyrir þremur árum síðan. Á þeim tíma var ég með stórt stefnumál sem ég vildi berjast fyrir. Eflingu heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Fram að þeim tíma hafði lítið sem ekkert gerst í heilbrigðisþjónustu og svo var komið að stór hópur fólks sótti sína þjónustu á höfuðborgarsvæðið. Ég vildi sporna við þessari þróun og sýna í verki að Framsókn gæti látið verkin tala. Frá því ég hóf þátttöku í stjórnmálum hef ég barist fyrir bættri heilbrigðisþjónustu, málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja auk þess að leggja áherslu á uppbyggingu hjúkrunarrýma. Ef þú hugsar þrjú ár aftur í tímann til dagsins í dag hefur eftirfarandi gerst á sviði heilbrigðismála á Suðurnesjum.
- Nýr samningur Sjúkratrygginga við Brunavarnir Suðurnesja
- Ný heilsugæsla opnaði við Aðaltorg í Reykjanesbæ
- Ný slysa- og bráðamóttaka var tekin í notkun á HSS
- Ný sjúkradeild var tekin í notkun á HSS
- Hjúkrunardeild var endurnýjuð á HSS
- Rönkendeild var endurnýjuð á HSS
- Geðheilbirgðisteymi HSS flutti í nýtt húsnæði
- Hjúkrunarrýmum í byggingu var fjölgað á Nesvöllum og verða nú 80 talsins
En hvað meira er í farvatninu? Í maí á næsta ári mun opna heilsugæsluþjónusta í Suðurnesjabæ auk þess sem Framkvæmdasýslan vinnur að útboði á nýrri heilsugæslu HSS í Innri-Njarðvík. Í Grindavík stóð til að stórbæta aðstöðu HSS í bæjarfélaginu þegar náttúruhamfarirnar áttu sér stað og hafði ég unnið með Fannari Jónassyni bæjarstjóra að þeim verkefnum. Eins og allir vita gripu örlögin inn í. Starfsfólk HSS hefur unnið þrekvirki við að halda utanum skjólstæðinga úr Grindavík og hefur bætt aðstaða hjálpað til í því verkefni. Árangurinn af þessu áherslumáli mínu er því vonandi áþreifanlegur fyrir þig kæri íbúi. Það er mikilvægt að halda áfram að efla þjónustu á Suðurnesjum. Opna þarf heilsugæsluþjónustu í Vogum og fylgja eftir þeim verkefnum sem eru á dagskrá. Ég er stoltur af árangrinum og mig langar að halda áfram að bæta lífsgæði okkar allra hér á Suðurnesjum en til þess þarf ég þinn stuðning. Ég er þess fullviss að það skiptir máli fyrir Suðurnes að eiga öfluga málsvara á þingi. Ég óska því eftir þínu atkvæði í kosningunum 30. nóvember.
Jóhann Friðrik Friðriksson.
Alþingismaður og skipar 3. sætið á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.