Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Taktleysi
Föstudagur 6. desember 2024 kl. 06:11

Taktleysi

Kiwanisklúbburinn Keilir var stofnaður 30. september 1970 og var 54 ára í lok september síðastliðnum. Allt frá árinu 1971 hefur aðalfjáröflun Kiwanisklúbbsins verið jólatrésala og hefur hagnaður sölunnar alltaf runnið til líknarmála.

Fyrir nokkrum árum hóf Byko að selja jólatré í sínum verslunum og þar með talið á Suðurnesjum þrátt fyrir óskir Kiwanisklúbbsins um að gera það ekki og hófu þar með sína samkeppni á svæðinu. Til að starta sölunni á Suðurnesjum samdi Byko við klúbbinn um að hafa umsjón með fyrstu sölunni gegn þóknun en slepptu því svo árið eftir. 

Nú hefur Byko samið við Björgunarsveitina Suðurnes um að taka yfir söluna í verslun sinni á Suðurnesjum og rennur allur ágóði af sölunni til styrktar björgunarsveitinni! Eflaust hefur þetta þótt góð hugmynd á skrifstofu Byko í Reykjavík út frá þeirra sýn og ekkert verið að athuga hvaða afleiðingar þetta hefur í heimabyggð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kiwanisfélögum er brugðið við þetta taktleysi. Það myndi nú heyrast eitthvað ef Byko tæki upp á því að selja flugelda á Suðurnesjum og fengju Kiwanisklúbbinn Keili til að taka yfir söluna gegn þóknun. 

Það er sorgleg staðreynd að Björgunarsveitin Suðurnes samþykkti þessa ráðstöfun að ráðast svona gegn helstu fjáröflun Kiwanisklúbbsins Keilis og ljóst að það er ekkert heilagt lengur þegar kemur að fjáröflun, það má koma fram að ágóði sölunnar í Byko fer í rekstur Björgunarsveitarinnar en ágóði sölu Kiwanisklúbbsins fer í líknarsjóð hans og þaðan allur til góðgerðarmála. 

Kiwanisklúbburinn Keilir hvetur Suðurnesjabúa til að koma við og versla jólatré, salan hefst laugardaginn 7. desember kl. 12:00 í porti Húsasmiðjunnar. 

Hjálpið okkur að hjálpa öðrum.

Erlingur Hannesson.