Við sjálfboðaliðar björgunarsveitanna göngum svo sannarlega í takt
Björgunarsveitin Suðurnes fagnaði 30 ára afmæli í apríl síðastliðnum en sveitin er sameinuð úr þremur björgunarsveitum sem eiga sér þó sögu allt til ársins 1931 þegar að Slysavarnardeildin Eldey var stofnuð í Höfnum. Björgunarsveitin hefur stuðlað að öflugu leitar og björgunarstarfi allt frá stofnun hennar í Reykjanesbæ og hefur mikið mætt á sveitin og sjálfboðaliðum hennar í kjölfar jarðhræringana á Suðurnesjum undanfarin ár eins og örðum sveitum á SV horni landsins og meira að segja landinu öllu.
Meginfjáröflun sveitarinnar undanfarin ár hefur verið sala á flugeldum og neyðarkalli björgunarsveitanna. Þess má þó geta að sala flugelda hefur verið frjálst til fjölda ára og í meira en áratug hefur björgunarsveitin haft samkeppni á þeim markaði í Reykjanesbæ sama hvort um er að ræða íþrótta og líknarfélög eða einkaaðilar og höfum við félagar ekki hent í orðaskrif í fjölmiðlum þrátt fyrir þá samkeppni.
Nú í ár fengum við sjálfboðaliðarnir þó símtal frá Byko á Suðurnesjum þess efnis að okkur væri boðið að taka þátt í sölu á varningi sem við höfum ekki selt áður en það eru jólatré. Félagar okkar í björgunarsveitum víðsvegar um landið hafa tekið þátt í sölu á jólatrjám við góðan orðstýr í fjöldamörg ár og ákváðum við eftir samtal við okkar félagsmenn að slá til því að fjármagna búnað og þjálfun sjálfboðaliða björgunarsveitanna er krefjandi og jafnframt mjög kostnaðarsamt.
Það var aldrei í samtali okkar ætlun okkar að stíga á tær þess frábæra líknarfélags sem Kiwanisklúbburinn Keilir er og því er það köld kveðja að lesa á degi sjálfboðaliðans þá grein sem kemur frá klúbbnum að við séum taklausir að þora á markaðinn sem þeir hafa átt árum saman.
Það eru breyttir tímar í samfélaginu okkar hér suður með sjó og fólk hefur hingað til haft val um hvar það eyðir krónunum sínum og meira að segja er það þannig að fólk getur lagt á sama bílastæðinu og ákveðið að kaupa rjómann fyrir jólin í Bónus eða Krónunni. Samkeppnin er hörð og það á líka við um fjáraflanir á svæðinu.
Það má þó sannarlega koma fram með þessum skrifum að með kaupum á flugeldum, neyðarkalli eða jafnvel jólatrjám hjá björgunarsveitinni ertu að stuðla að áframhaldandi öflugu björgunarstarfi í sveitarfélaginu og á landinu öllu. Við erum til taks 365 daga á ári við leit og björgun mannslífa á sjó eða á landi.
Sjáumst hress í Byko á Víkurbraut.
Arnar Steinn Elísson.
Höfundur er sjálfboðaliði í Björgunarsveitinni Suðurnes.