Aðsent

Kór Kálfatjarnarkirkju 80 ára
Þriðjudagur 24. desember 2024 kl. 06:22

Kór Kálfatjarnarkirkju 80 ára

Erindi á afmælishátíð í Tjarnarsal, Vogum, 8. des. 2024

Kálfatjarnarkirkja á sér langa og merkilega sögu, sem ekki verður rakin hér, en árið 1876 kemur fyrst orgel í kirkjuna og núverandi orgel kom árið 1985.

Kirkjukór Kálfatjarnarkirkju var stofnaður 11. desember 1944  og er því jafngamall og lýðveldið Ísland. Stofnfélagar voru 22 og eru allir látnir. Í fyrstu fundargerð kórsins stendur: „Það hefur verið draumur okkar hér á Vatnsleysuströnd um alllangt skeið, að fá Sigurð Birkis, söngmálastjóra hingað suður til þess að leiðbeina okkur í söng og stofna hér kirkjukór. Nú hefur sá draumur ræst. Í dag mánudag 11. des. 1944 var stofnfundur haldinn í Brunnastaðaskóla, fyrsta kennsludag í hinum nýja barnaskóla að aflokinni kennslu og söngæfingu.”            

Fyrir stofnun þessa kórs var starfandi sönghópur við kirkjuna. Formaður  hans  var Guðmundur Þórarinsson frá Skjaldarkoti en hann varð síðar einn af stofnfélögum kórsins.      

Sigurður Birkis, þáverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, aðstoðaði við að stofna kórinn, sem hefur starfað óslitið síðan. Ári eftir stofnun  sendi kórinn bréf til sóknarnefndar og skólanefndar og vildi að það yrði ráðinn organisti sem jafnframt yrði söngkennari við skólann. Það yrði kórnum í hag enda vilji kórinn efla söng og tónlist í sókninni. Það var samþykkt og ráðinn var organisti úr Hafnarfirði.

Fyrsti formaður kórsins var Símon Kristjánsson frá Neðri-Brunnastöðum og fyrsti stjórnandi hins nýstofnaða kórs var Stefán Hallsson kennari. Núverandi formaður kórsins er Þórdís Símonardóttir, dóttir fyrsta formannsins og núverandi stjórnandi er Árni Heiðar Karlsson. Alls hafa formenn kórsins verið sex og tveir af þeim verið formenn tvisvar. Stjórnendur kórsins, sem jafnframt hafa verið organistar, hafa verið nítján.

Tónlistarlíf í tengslum við kirkju og messuhald í Kálfatjarnarkirkju á sér langa sögu. Löngu fyrir stofnun kórsins hljómaði mjög góður söngur í kirkjunni, sérstaklega í preststíð séra Stefáns Thorarensen (1857–1886), en hann var talinn einn besti söngmaður á sinni tíð, enda unni hann mjög söng sem sést best á sönglagasafni hans og sálmum hans í Sálmabókinni. Einnig var áhugi fyrsta organistans Guðmundar Guðmundssonar frá Landakoti á söng gríðarlega mikill. En svo er sagt, að hann hefði haft fjöldan af góðu söngfólki í kringum sig, ýmist vermenn eða heimilisfólk á Landakoti. Það var sagt að heyrst hefði margraddaður söngur undir húsgafli Landakots meðan verið var að spá í hvort sjóveður yrði eða ekki. Í endurminningum Kristleifs Þorsteinssonar fræðimanns frá Stóra-Kroppi í Borgarfirði segir hann svo frá er hann var við messu á Kálfatjörn: „Strax þegar messan byrjaði var ég svo hrifinn að ég get ekki með orðum lýst. Ég hafði aldrei áður heyrt spilað á orgel og aldrei heyrt margraddaðan söng og svo samstilltan“.  Guðmundur þessi var organisti í 40 ár (1876-1916), löngu áður en kórinn var stofnaður.  Saga er um einn organista, sem hafi rogast með ferðaorgel á bakinu á milli bæja til æfinga.

Eins og áður sagði hefur hinn formlegi kór starfað óslitið í 80 ár og eins og gefur að skilja hafa skipst á skin og skúrir. Oft gekk  erfiðlega að manna kórinn vegna fámennis sóknarinnar og  stundum hefur gengið erfiðlega að fá organista til starfa. Ein sagan segir, að til að fá organista að kórnum hafi einn kórfélagi lagt það á sig í nokkur ár, að sækja hann til Hafnarfjarðar fyrir hverja æfingu og athöfn og skila honum síðan til síns heima.

Kórinn stofnaði á sínum tíma minningarsjóð um Guðmund Kortsson, einn stofnfélaganna, og var sjóðnum ætlað að styrkja ungt fólk í hreppnum til að læra söng og orgelleik. Seinna var þessi sjóður, í samráði við ekkju Guðmundar, sameinaður kirkjusjóði og var varið til kaupa á núverandi orgeli kirkjunnar. Orgelið var vígt 6. október 1985 og kostaði um 1.200.000 krónur á þávirði.

Kórstarf er tímafrekt. Að baki kirkjusöngnum liggur ómældur tími  í æfingar og ferðir, en það er gefandi að starfa í kór.  Kórstarfið verður þeim sem því ánetjast eins konar orkustöð sem sótt er í til að hlaða batteríin.

Stundum hafa menn óttast að kórinn lognaðist útaf vegna ónógrar endurnýjunar, en í dag er ekkert sem bendir til þess. Þvert á móti hefur kórinn verið að yngjast upp þar sem öflugt söngfólk hefur gengið til liðs við hann.

Jón Ingi Baldvinsson.

Kórinn syngur við kirkjulegar athafnir í Kálfatjarnarkirkju, en hefur einnig sungið við ýmsar aðrar athafnir, heima og að heiman. Þegar kórinn varð sextugur árið 2004 fóru kórfélagar og makar í menningar- og skemmtiferð til Tíról í Austurríki. Þá hefur kórinn haldið aðventutónleika til margra ára. Að lokum má nefna að kórinn söng í mörg ár við þrett-ándagleði og  syngur enn þegar kveikt er á jólatré,  nú síðast í byrjun desember.  Kórinn hefur tekið þátt í sameiginlegum kóramótum á vegum Þjóðkirkjunnar. Kórinn fékk Menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga við hátíðlega athöfn sumardaginn fyrsta, 22. apríl  2021. Þá má geta þess að sjö kórfélagar fengu Heiðursviðurkenningu frá Þjóðkirkjunni fyrir framlag sitt á sviði kirkjutónlistar núna í haust.

Nú syngur í kórnum fjórði ættleggur í beinan kvenlegg frá stofnfélaga og nokkrir aðrir sem eru afkomendur stofnfélaga. Þeir sem lengst hafa sungið með kórnum hafa sungið með honum í meira en 60 ár og nokkrir eru enn að.

Kórinn æfir einu sinni í viku, og ásamt hefðbundinni kirkjutónlist eru æfð margs konar sönglög. Nýir félagar eru alltaf velkomnir og vel er tekið á móti þeim.

Jón Ingi Baldvinsson tók saman í nóvember 2024.