Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Uppgjör við ár áskorana og árangurs í bæjarmálunum í Suðurnesjabæ
Sunnudagur 22. desember 2024 kl. 06:09

Uppgjör við ár áskorana og árangurs í bæjarmálunum í Suðurnesjabæ

Kæru íbúar í Suðurnesjabæ!
Senn líður að áramótum og tel ég því mikilvægt að líta yfir farinn veg.
Árið hefur verið tíðindamikið á vettvangi stjórnmálanna og ekki síst hér í bæjarpólitíkinni í Suðurnesjabæ. Margt hefur áunnist og erum við í Framsókn(B) stolt af mörgum þeim málum sem við náðum að klára og höfum unnið markvisst að frá kosningunum 2022. Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks (D) Bæjarlistans(O) og Samfylkingar(S) tók til starfa á 71. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, fimmtudaginn 11. júlí 2024. Við í B-lista Framsóknar erum stolt af störfum okkar síðustu tveggja ára í meirihluta Suðurnesjabæjar. Við horfum ánægð yfir farinn veg á þau áherslumál sem flokkurinn kom í framkvæmd. Reynslunni ríkari höldum við áfram og hlökkum til að starfa áfram saman af heilindum fyrir fólkið í Suðurnesjabæ, nú í minnihluta.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir – stórt framfaraskref

Eitt af áherslumálum Framsóknar í Suðurnesjabæ fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börn. Þessi mikilvæga hugsjón var samþykkt á síðasta fundi mínum sem formaður bæjarráðs í vor, og voru gjaldfrjálsar máltíðir innleiddar í grunnskólum sveitarfélagsins í haust. Við höfum unnið markvisst að hækkun niðurgreiðslna til foreldra og innleitt systkinaafslátt. Svo kom þessi aðgerð til fulls í kjölfar kjarasamningsgerðar og auðvitað fannst okkur það mikilvægt að Suðurnesjabær yrði fyrirmynd og stigi skrefið til fulls, enda eitt af megináherslum okkar í Framsókn.

Við lítum á þetta sem stórt velferðar- og jafnréttismál. Með því að tryggja öllum börnum heita máltíð óháð stöðu foreldra stuðlum við að jafnræði og bætum lífsgæði barna. Á Íslandi er skólaskylda, og því er það eðlileg og réttmæt krafa að grunnskólamenntun sé gjaldfrjáls, án aðgreiningar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þetta framfaraskref styrkir samfélagið og tryggir að börn fái nauðsynlega næringu til að læra og þroskast í öruggu umhverfi. Það er ánægjulegt að sjá þessa framtíðarsýn okkar verða að veruleika.

Grettistaki lyft í leikskólamálum

Leikskólamál hafa verið í brennidepli í Suðurnesjabæ, og nú hefur nýr kafli hafist með opnun leikskólans Grænuborgar í Sandgerði. Gamla leikskólahúsnæðið var löngu orðið úrelt, og endurnýjun þess var tímabær og brýn. Við í Framsókn studdum þetta metnaðarfulla verkefni heilshugar, enda markar það stórt framfaraskref í þjónustu við börn og fjölskyldur í bænum.

Grænaborg er sex deilda leikskóli sem býður framúrskarandi aðstöðu fyrir bæði börn og starfsfólk. Skólinn, sem er 1.135 fermetrar að flatarmáli, hefur rúmgott eldhús, stoðrými og veglega aðstöðu fyrir starfsfólk. Leikskólalóðin, sem er 3.800 fermetrar, býður upp á fjölbreytt leiktæki og öruggt umhverfi fyrir börn.

Eftir opnun Grænuborgar hefur öllum börnum sem sótt hafa um pláss verið tryggt leikskólapláss. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir bæjarfélagið og stórt skref í átt að jafnari tækifærum og betri velferð fyrir fjölskyldur í Suðurnesjabæ. Nú þurfum við að huga að samskonar uppbyggingu í Garði og setja í gang markvissa vinnu til að hefja þá vegferð.

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Í sveitarstjórnarkosningunum 2022 setti B-listi Framsóknar sér skýr markmið um að þrýsta á ríkið að koma á heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Sveitarfélagið er það stærsta á landinu sem hefur ekki heilsugæslu. Suðurnesjabær, sem er 4.200 manna sveitarfélag sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018, hefur séð mikla fjölgun íbúa síðustu ár.

Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þáverandi þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fráfarandi fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig áttum við fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, fráfarandi heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjón að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Þann 30. ágúst var undirrituð viljayfirlýsing um opnun heilsugæslustöðvar í Suðurnesjabæ sem mun opna á nýju ári.

Ábyrgð kjörinna fulltrúa mikil

Það er grundvallarskylda okkar, sem störfum í umboði almennings sem kjörnir fulltrúar, að fara vel með fjármuni samfélagsins. Virðing fyrir almannafé krefst ábyrgðar og gagnsæis í allri ákvarðanatöku. Við verðum að spyrja okkur spurninga eins og: Eru þessi útgjöld réttlætanleg? Er verið að hámarka notagildi fjárins? Hvernig mun þessi ákvörðun koma samfélaginu til góða? Óskynsamleg eða óréttmæt ráðstöfun almannafjár getur grafið undan trausti almennings á stjórnvöldum. Það er því hlutverk okkar að tryggja að hver króna sé nýtt á sem skilvirkastan hátt og að forgangsröðun fjárveitinga taki mið af hagsmunum heildarinnar, ekki sérhagsmuna.

Deilur um íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ

Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um fyrirhugaða uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ. Þetta viðkvæma mál hefur skapað talsverðar deilur og hafði bein áhrif á fall meirihluta Framsóknarflokks(B) og Sjálfstæðisflokks(D) í vor. En hvað olli þessum ágreiningi?

Í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2024 gerði oddviti D-listans þá kröfu við B-lista að mannvirkið, gervigrasvöllur, yrði sett á dagskrá fjárfestingaráætlunar fyrir árið 2024. Þetta var krafa Sjálfstæðismanna, sem vildu gera ráð fyrir verkefninu á komandi ári. Við í Framsókn töldum þessa kröfu fremur bratta, þar sem verkefnið er mjög fjárfrekt, og ekki væri komin niðurstaða um hvar ætti að reysa það – sérstaklega á sama tíma og við vorum í stórri fjárfestingu vegna byggingar nýs leikskóla.

Samt sem áður var sammælst um að setja 200 milljónir króna í verkefnið fyrir árið 2024 með því skilyrði okkar í Framsókn að ákvörðun um staðsetningu vallarins lægi fyrir í mars/apríl sama ár. Okkur fannst mikilvægt að virða samstarfsflokkinn og setja þetta verkefni inn, þar sem uppbygging íþróttamannvirkja var hluti af málefnasamningi listanna í meirihlutasamstarfinu.

Fyrir lá skýrsla frá verkfræðistofunni Verkís, sem kom út í maí árið 2022. Oddvitar D- og B-lista sammæltust um að setja málið á dagskrá bæjarráðs strax í janúar 2024 til að koma hreyfingu á málið og reyna að ljúka því. Á vinnufundi voru oddvitar D- og B-lista einnig sammála um að eina rökrétta lausnin til að halda kostnaði við rekstur í lágmarki væri að mannvirkið risi á öðrum hvorum aðalvelli Reynis eða Víðis.

Í kjölfar þess lagði knattspyrnufélagið Víðir til aðalvöll sinn fyrir verkefnið, þó hann hefði ekki verið tekinn með í skýrslunni frá Verkís. Var þá ákveðið að fara í svokallaða valkostagreiningu á báðum aðalvöllum félaganna. Verkís var falið að meta báða kosti.

Ef skoðaður er samanburðurinn í valkostagreiningunni, sem verkfræðingar hjá Verkís gerðu á milli aðalvallar Reynis í Sandgerði og aðalvallar Víðis í Garði, sýnir hann að það er mun hagstæðara að byggja gervigrasvöllinn í Sandgerði út frá kostnaðarsjónarmiðum og styrk innviða. Kostnaður við að byggja völlinn í Sandgerði er áætlaður 472 milljónir króna, samanborið við 509 milljónir króna fyrir Garð, sem gerir 36 milljóna króna sparnað. Auk þess eru innviðir eins og félagsheimili og stærri stúka þegar til staðar í Sandgerði, sem dregur úr viðbótarkostnaði. Sandgerði býður einnig upp á fleiri og betri bílastæði og hefur betri aðstöðu fyrir vallarinnviði með tilbúnum tækjageymslum, almenningssalernum og steinsteyptri stúku sem rúmar 340 manns.

Niðurstaðan er því skýr: Sandgerði er bæði skynsamlegri og hagkvæmari kostur fyrir staðsetningu gervigrasvallarins.

Ef við skoðun kostnaðartölur úr skýrslu Verkís sem kom út í maí 2022 er mismunurinn þar á milli malarvallarins í Garði og aðalvelli Reynis í Sandgerði. Þá eru efri mörkin 121.100.000 ISK krónur í mismun og áætlunin er 80.781.000 ISK krónur í mismun á verðlagi í maí 2022. Mismunurinn er því gríðarlega mikill í kostnaðarauka fyrir bæjarsjóð að setja gervigrasvöllinn á malarvöllinn í Garðinum útreiknað af verkfræðingum Verkís.

Bæjarráð fundaði oft og stíft um málið fram á vorið 2024, bæði á formlegum fundum og óformlegum vinnufundum. Sigursveinn Bjarni Jónsson fyrir hönd S-lista lagði fram tillögu í bæjarráði og bæjarstjórn um að reisa ætti mannvirkið á aðalvelli Reynis í Sandgerði. Jónína Magnúsdóttir fyrir hönd O-lista lagði það til á fundi bæjarráðs að mannvirkið ætti að reisa á milli byggðarkjarnanna, en eins og áður hefur komið fram töldu D- og B-listi það óraunhæft vegna mikils kostnaðar, þar sem engir innviðir eru til staðar í miðjunni. Auk þess er eignarhald á þeirri landspildu í blandaðri eigu margra aðila.

Ýmsir aðilar voru kallaðir til, þar á meðal forsvarsmenn íþróttafélaganna Víðis og Reynirs og sérfræðingar sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála. Við greiningu á eignarhaldi kom í ljós að aðalvöllur Víðis stendur að hluta til í landi einkaaðila, svokallaðri Miðhúsajörð þar sem sveitarfélagið greiðir umtalsverða lóðarleigu, en aðalvöllur Reynirs er í landi sveitarfélagsins.

Við í Framsókn töldum því þrjár ástæður fyrir því að völlurinn ætti að rísa á aðalvelli Reynis:

Skýrsla Verkís.

Valkostagreiningin.

Yfirráð sveitarfélagsins yfir landinu undir mannvirkið.

Við reyndum hvað við gátum að mynda breiða pólitíska sátt um málið. Þrátt fyrir þetta var tillögum S- og O-lista í bæjarráði og bæjarstjórn, sem beindust í ólíkar áttir, ítrekað frestað. Við sendum Sjálfstæðismönnum skýr skilaboð: Framsóknarflokkurinn styður skýrslu og valkostagreiningu Verkís bæði gögnin og leggur hag bæjarsjóðs til grundvallar. Á þessum tímapunkti voru allir flokkar tilbúnir með sína afstöðu í málinu nema D-listi Sjálfstæðismanna.

Samráðsteymi um gervigras sett á laggirnar til að bjarga meirihlutanum

Oddviti D-listans Einar Jón Pálsson lagði til aðeins 30 mínútum fyrir 139. fund bæjarráðs, haldinn 26. mars 2024, að stofnað yrði samráðsteymi. Þar var oddviti D-listans Einar Jón Pálsson efnislega ósammála oddvita B-listans, Anton Guðmundssyni sem þá var formaður bæjarráðs, og fulltrúa D-listans Magnús Sigfúsi Magnússyni í bæjarráði um efnislega afgreiðslu á málinu. Tilgangur teymisins var að koma með tillögu að lausn á máli gervigrasvallar í Suðurnesjabæ.

Í teyminu voru starfsmenn sveitarfélagsins, fulltrúi frá KSÍ (sem þó var aldrei kallaður til fundar), og forsvarsmenn íþróttafélaganna Víðis og Reynis. Þegar niðurstöður samráðsteymisins lágu fyrir og málið var tekið fyrir í bæjarráði á ný, kom í ljós að bæjarráði hafði ekki borist öll gögn í málinu fyrir fundinn. Þrátt fyrir að þessi gögn hefðu borist stjórnsýslu Suðurnesjabæjar höfðu þau ekki verið sett í fundargáttina.

Meðal þeirra gagna var yfirlýsing frá Ólafi Þór Ólafssyni, formanni aðalstjórnar Reynis, þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði ekki haft umboð frá íþróttafélaginu Reyni til að taka ákvarðanir í málinu. Hann hafði því dregið til baka stuðning Reynis við samráðsteymisniðurstöðuna. Samkvæmt pósti sem hann hafði sent öllum í samráðsteyminu ásamt byggingarfulltrúa og bæjarstjóra.

Þessi yfirlýsing hafði afgerandi áhrif á málið. Þar með varð ljóst að verið var að halda gögnum og upplýsingum frá sem höfðu afgerandi áhrif á málið.

Tillaga lögð fram á 143. fundi bæjarráðs 29. maí 2024

Fulltrúar B-lista (Anton Guðmundsson) og D-lista (Magnús S Magnússon) lögðu fram eftirfarandi tillögu:

„Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að íþróttamannvirkið gervigrasvöllur í Suðurnesjabæ fyrir bæði lið sveitarfélagsins verði reist á aðalvellinum í Sandgerði. Allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar á aðalvellinum í Sandgerði, eins og til dæmis 340 manna stúka, salernisaðstaða fyrir áhorfendur, vélageymsla og plássgott félagsheimili.

Auk þess leggur bæjarráð til að starfshópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem þegar hefur verið skipaður af bæjarráði, geri þarfagreiningu og skili af sér tillögum um uppbyggingu íþróttamannvirkja til næstu ára.

Starfshópurinn hafi það að leiðarljósi að jafnræðis skuli gætt milli byggðakjarna sveitarfélagsins þegar kemur að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja.“

Bæjarráð þakkaði verkfræðistofunni Verkís ásamt starfsmönnum Suðurnesjabæjar fyrir þeirra framlag í málinu.

Málið fer fyrir bæjarstjórn

Á 70. fundi bæjarstjórnar, þann 5. júní 2024, var tillagan samþykkt með 2 atkvæðum B-lista, 2 atkvæðum S-lista og 1 atkvæði D-lista, gegn 2 atkvæðum O-lista og 2 atkvæðum frá D-lista, að íþróttamannvirkið – gervigrasvöllur – yrði reist á aðalvelli Reynis í Sandgerði.

Þessi ákvörðun var í samræmi við niðurstöður Verkís og valkostagreiningar sem lögðu til þessa staðsetningu út frá kostnaðar- og rekstrarsjónarmiðum. Í kjölfar þessarar samþykktar sprakk meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Nýr meirihluti var myndaður í sveitarfélaginu. Meirihluti Bæjarlistans (O), Samfylkingar (S) og tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks (D) tók við, og málið var tekið upp á ný á 74. fundi bæjarstjórnar, þann 6. nóvember 2024. Þar samþykktu 2 fulltrúar D-lista, 2 fulltrúar O-lista og 2 fulltrúar S-lista að byggja gervigrasvöllinn á gamla malarvellinum í Garði, þvert á ráðleggingar Verkís. Á móti greiddu 2 fulltrúar B-lista og Magnús S. Magnússon, sem hafði áður verið fulltrúi D-lista.

Einnig gerðust þau tíðindi í millitíðinni á 149. fundi bæjarráðs, sem haldinn var 28. ágúst, þar barst erindi frá Knattspyrnufélaginu Víði. Í erindinu var lögð fram tillaga um að staðsetja nýtt íþróttasvæði á miðsvæði milli byggðarkjarnanna í Suðurnesjabæ.

Nýr meirihluti D-, S- og O-lista svaraði erindi Víðis með þeim upplýsingum að bæjarstjórn hefði þegar samþykkt staðsetningu á gervigrasvelli. Á aðalvelli Reynis í Sandgerði Fram kom að unnið væri samkvæmt þeirri samþykkt, þar sem forsendur ákvörðunarinnar hefðu ekki breyst.

Hvenær á að taka mark á Samfylkingunni í Suðurnesjabæ?

Það er óumflýjanlegt að spyrja sig: Hvenær á að taka mark á S-lista? Er það á sumri eða vetri?

Í júní samþykkti S-listinn, ásamt B-lista og hluta D-lista, að fylgja niðurstöðum faglegra ráðlegginga Verkís, þar sem lagt var mat á hagkvæmustu og skynsamlegustu lausnina. Í nóvember, aðeins fimm mánuðum síðar, samþykkti S-listinn hins vegar að hunsa þessar sömu ráðleggingar og velja óhagkvæmari valkost, þvert á þau sjónarmið sem áður voru lögð til grundvallar.

Þessi stefnubreyting vekur upp spurningar um ábyrgð og stöðugleika í ákvarðanatöku. Er verið að taka ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi eða með tilliti til annarra sjónarmiða?

Við í Framsókn teljum mikilvægt að byggja upp íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ, en það verður að gera á skynsaman og ábyrgan hátt. Kostnaðarsöm verkefni eins og aukin gatnagerð, bygging nýs leikskóla í Garði, stækkun Sandgerðisskóla og nauðsynlegt viðhald á fráveitum og götum bíða okkar einnig í náinni framtíð. Fjármagn er takmarkað og því verðum við að taka ákvarðanir með langtímahagsmuni bæjarins að leiðarljósi og setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum.

Það er eina leiðin til að byggja upp sterkt og sjálfbært samfélag. Umsvifamiklar lántökur eru ekki langtímalausnir, þær duga skammt þar sem þær auka á fjármagnskostnað og verðbætur bæjarsjóðs, sem skilar minni rekstrarafgangi.

Aukið framboð lóða til úthlutunar – Lausn á húsnæðisvandanum

Til að mæta vaxandi þörf á húsnæði í Suðurnesjabæ þarf að auka framboð lóða til úthlutunar. Húsnæðismarkaðurinn hefur verið undir miklu álagi, og skortur á byggingarlóðum hefur hindrað möguleika fjölskyldna og einstaklinga á að koma sér upp húsnæði. Með því að fjölga lóðum sköpum við ný tækifæri fyrir íbúabyggð. Það þarf að setja aukinn kraft í það verkefni, til dæmis með þéttingu á óbyggðum byggingarreitum bæði í Garði og Sandgerði.

Markviss rekstrarrýni til framtíðaruppbyggingar

Til að styrkja fjárhagsstöðu Suðurnesjabæjar og tryggja sjálfbæran rekstur til framtíðar er nauðsynlegt að rýna enn betur í rekstur bæjarins. Með því að auka samlegðaráhrif milli stofnana og reksturs sveitarfélagsins getum við aukið rekstrarafgang, sem svo má nýta til mikilvægra fjárfestinga í innviðum og samfélagsþjónustu.

Þessi nálgun stuðlar að betri nýtingu fjármuna og dregur úr þörf á lántökum, sem styrkir fjárhag sveitarfélagsins til lengri tíma. Með ábyrgum og markvissum aðgerðum tryggjum við að bæjarfélagið geti haldið áfram að vaxa og dafna án þess að auka skuldbindingar á íbúa þess. Þetta er lykillinn að sjálfbæru og vel reknu samfélagi.

Grunninnviðir í almannaeigu

Á 56. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar lagði Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður ráðsins, fram starfsáætlun fyrir vatnsveituna. Þar kom í ljós að viðræður væru hafnar við HS Veitur um möguleg kaup á vatnsveitunni í Sandgerði.

Á 155. fundi bæjarráðs, þann 4. desember síðastliðinn, lagði Sigursveinn Bjarni Jónsson, oddviti S-lista og formaður bæjarráðs, fram minnisblað frá bæjarstjóra um Vatnsveitu Suðurnesjabæjar.

Minnihlutinn hefur ekki atkvæðisrétt í bæjarráði, og tíðkast það hvergi á byggðu bóli á Íslandi nema í Suðurnesjabæ. Þar samþykkti bæjarráð samhljóða að fela bæjarstjóra að eiga viðræður við HS Veitur ehf. um mögulegan samruna Vatnsveitu Suðurnesjabæjar við HS Veitur ehf.

Kjarngóðar umræður sköpuðust á síðasta bæjarstjórnarfundi um málið að frumkvæði minnihlutans. HS Veitur eru að stórum hluta í eigu einkaaðila.

Við í Framsókn teljum að grunninnviðir eins og vatnsveita séu lífsnauðsynlegir fyrir samfélagið. Opinber eign á slíkum innviðum tryggir aðgang allra óháð búsetu eða efnahag. Þegar auðlindir og grunninnviðir færast í hendur einkaaðila er hætta á að þjónustan verði ekki lengur veitt á jafnræðisgrundvelli, þar sem hagsmunir fjárfesta geta orðið fyrirferðarmiklir.

Við eigum að standa vörð um vatnsveituna sem almannaeign og tryggja að hún haldist í opinberri eigu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að auðlindir okkar séu ekki seldar frá okkur.

Kæru íbúar Suðurnesjabæjar.

Nú fer í hönd tími jólanna. Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðsællar hátíðar. Megi þessi tími færa ykkur og fjölskyldum ykkar hlýju, gleði og góðar stundir í faðmi ástvina. Megi árið 2025 verða ykkur gæfuríkt og gott.

Með ósk um gleðilega hátíð,
Anton Guðmundsson
Oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ