Aðsent

Viðsnúningur í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Föstudagur 22. nóvember 2024 kl. 10:50

Viðsnúningur í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum

Gríðarlegur viðsnúningur hefur átt sér stað í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum síðustu misseri. Mikil og góð vinna hefur átt sér stað á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, til viðbótar við það góða starfsfólk sem þar starfar hefur bæst við góður liðsauki og rekstrargrundvöllur stofnunarinnar hefur verið styrktur verulega. Í ár fagnar Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 70 ár afmæli, stofnunin hefur verið hjartað í samfélaginu allan þann tíma, hún er mikilvæg stoð í heilbrigðiskerfinu og gegnir stóru og vaxandi hlutverki. 

Ný bráðamóttaka og sjúkradeild

Á síðasta ári var formlega opnuð ný slysa- og bráðamóttaka HSS á Suðurnesjum. Með opnuninni jókst rými slysa- og bráðamóttökunnar úr 90 fermetrum í 300 fermetra. Hin nýja aðstaða hefur umbylt allri aðstöðu fyrir skjólstæðinga, starfsfólk og sjúkraflutninga og gert starfsfólki kleift að sinna fleiri erindum í heimabyggð. Þá hefur slysa- og bráðamóttökunni jafnframt verið tryggð til viðbótar varanlegt fjármagn á fjárlögum til að efla þjónustuna enn frekar. Á sama tíma og í tengslum við uppbygginguna á bráðamóttöku hefur sjúkradeildin verið flutt og endurhönnuð frá grunni. 19 ný rúmgóð rými hafa verið opnuð í samræmi við nútímakörfu og þjónusta og vinnuaðstaða þar með stórbætt. 

Bylting í aðstöðu og þjónustu

Á síðasta ári var opnuð ný röntgendeild, þar sem tekin voru í notkun háþróuð röntgen- og sneiðmyndatæki sem bæta myndgæði og hraða þjónustunnar. Segja má að með nýrri röntgendeild hafi orðið bylting í bæði starfsaðstöðu og tækjabúnaði, en samhliða opnuninni var tekið í notkun glænýtt röntgentæki sem leiðir til betri myndgæða og hraðari þjónustu og sneiðmyndatæki.  

Þá leiðir HSS leiðir byltingu í augnskimun með gervigreind í samstarfi við fyrirtækið RetinaRisk. Þetta er mikilvægt skref í að bæta þjónustu fyrir skjólstæðinga, en stofnunin rekur eina stærstu sykursýkismóttöku landsins, með yfir 1.200 einstaklinga í eftirfylgni.

Geðheilsuteymi HSS hefur flutt í stærra og betra húsnæði við Hafnargötu 90, sem mun stórbæta þjónustu við skjólstæðinga og aðstöðu starfsfólks. Ný aðstaða er hönnuð með tilliti til aukinna þæginda og bættrar meðferðar, sem er mikilvægt framfaraskref fyrir geðheilbrigðisþjónustuna á svæðinu. Þá standa yfir framkvæmdir við stækkun á Nesvöllum, hjúkrunarheimili Hrafnistu í Reykjanesbæ, um 80 rými. Áætlað er að hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun á seinni hluta næsta árs. 

Bætt heilsugæsluþjónusta

HSS vinnur að því að bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu með opnun nýrra starfsstöðva í Suðurnesjabæ og Vogum. Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um nýja heilsugæslu í Suðurnesjabæ sem stefnt er að opni næsta vor. Þá opnar ný heilsugæsluþjónusta í Vogum í lok árs auk þess sem stefnt að því að byggja nýja heilsugæslustöð í innri Njarðvík. Heilsugæslan er fullfjármögnuð en leitað er aðila til framkvæmda. 

Til viðbótar við það góða starf sem unnið er í hjá HSS var fyrsta einkarekna heilsugæslan á landsbyggðinni, Höfði á Suðurnesjum, opnuð á síðasta ári og hafa um 9000 manns skráð sig á stöðina og stóraukið aðgengi að heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa á svæðinu.

Segja má að bylting hafi átt sér stað í allri aðstöðu, uppbyggingu og þjónustu á kjörtímabilinu. Heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum hefur tekið stórstígum framförum á stuttum tíma, með stórbættri aðstöðu, nýjustu tækni, öflugu fólki og fjölgun úrræða. Þessar framfarir styrkja samfélagið og bæta lífsgæði íbúa á svæðinu. Meira svona – Meiri Framsókn 

Sigurður Ingi Jóhannsson,
fjármála- og efnahagsráðherra

Willum Þór Þórsson,
heilbrigðisráðherra