Aðsent

Heilbrigðisbylting á Suðurnesjum – Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á þarfir Suðurnesjamanna
Föstudagur 22. nóvember 2024 kl. 14:04

Heilbrigðisbylting á Suðurnesjum – Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á þarfir Suðurnesjamanna

Það er óhætt að segja að stór skref hafi verið stigin í heilbrigðismálum á Suðurnesjum undanfarið. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur, í samstarfi við sveitarstjórnarmenn og heimamenn, lyft grettistaki í málaflokknum og tryggt umbætur sem umbylta heilbrigðisþjónustu svæðisins. Framsóknarflokkurinn hefur sett heilbrigðismál Suðurnesjamanna í forgang, enda var þörfin brýn. Með skýrri stefnu og samvinnu hefur tekist að byggja upp heilbrigðisinnviði sem standast auknar kröfur samfélagsins.

Fyrsta einkarekna heilsugæslan utan HBS

Á síðasta ári opnaði fyrsta einkarekna heilsugæslan utan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HBS) í Reykjanesbæ. Þetta er mikilvæg nýjung fyrir Suðurnesjamenn sem eykur valkosti í heilbrigðisþjónustu og tryggir betra aðgengi fyrir íbúa.

Umtalsverðar umbætur á HSS

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) hefur gengið í gegnum umfangsmiklar endurbætur sem bæta þjónustu og efla rekstur stofnunarinnar:

Ný bráðamóttaka: Þjónustan hefur stórbatnað með opnun nýrrar og nútímalegrar  bráðamóttöku, þar sem skjólstæðingar fá betri þjónustu og starfsfólk vinnur í betri aðstæðum.

Ný legudeild: Ný og betrumbætt legudeild var tekin í notkun, sem eykur rými og bætir aðstöðu fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk.

Röntgendeild byltingarkennd: Á síðasta ári var tekin í notkun ný röntgendeild með háþróuðum röntgen- og sneiðmyndatækjum. Þessi búnaður eykur myndgæði og hraðar þjónustu, sem er til mikilla hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsmenn.

Bætt geðheilbrigðisþjónusta

Geðheilsuteymi HSS hefur flutt í nýtt og stærra húsnæði við Hafnargötu 90. Þessi breyting skapar betri starfsaðstöðu og mun stórbæta þjónustu við skjólstæðinga. Aðstaðan er nú í samræmi við nútímakröfur og styður við markvissari vinnu teymisins.

Aukið hjúkrunarrými á Nesvöllum

Hjúkrunarheimilið Nesvellir hefur verið stækkað úr 60 rýmum í 80. Þetta er mikilvæg viðbót fyrir eldra fólk á Suðurnesjum og tryggir betra aðgengi að hjúkrunar- og umönnunarþjónustu.

Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ og Vogum

Heilbrigðisþjónusta er að verða að veruleika í Suðurnesjabæ og vogum sem tryggir íbúum þessara svæða betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Í nýlegri viljayfirlýsingu, sem undirrituð var á dögunum, kemur fram að unnið verði markvisst að því að opna heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Starfsemin mun fara fram í húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 eigi síðar en 1. maí 2025 og tryggja þannig íbúum aðgengi að þjónustunni í heimabyggð. Grundvöllur skipulags heilbrigðisþjónustunnar er að allir íbúar séu skráðir á heilsugæslustöð sem næst lögheimili, þannig verður heilsugæslan sterk undirstaða heilbrigðiskerfisins. Willum Þór heilbrigðisráðherra hefur sagt að það sé algjört forgangsatriði að bæta heilsugæsluna á Suðurnesjum, og það hefur hann sýnt í verki.

Ný heilsugæslustöð í Innri Njarðvík

Ný heilsugæslustöð í Innri Njarðvík er fjármögnuð og í útboðsferli. Þetta er mikilvægt skref í að tryggja aukið aðgengi íbúa á svæðinu að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og minnka álag á aðrar heilbrigðisstofnanir.

Betri mannaforði og ný forysta

Heilbrigðisstofnunin gengur nú betur að manna stöður og ráða starfsfólk, sem eykur stöðugleika í rekstri og þjónustu. Auk þess hefur nýr forstjóri tekið við starfi og hefur þegar sett mark sitt á framgang og umbætur stofnunarinnar.

Tryggjum áframhaldandi framfarir

Framfarir í heilbrigðismálum á Suðurnesjum hafa verið stórstígar á undanförnum árum, og mikilvægt er að halda áfram á þessari braut. Fjárfestingar, nýjungar og umbætur í þjónustu hafa stórbætt lífsgæði íbúa svæðisins og lagt grunn að sterkari heilbrigðisinnviðum til framtíðar.

Tryggjum áframhaldandi framfarir í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum! og veljum Framsókn til forystu – setjum X við B þann 30. nóvember 2024

Anton Guðmundsson
Oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ