Aðsent

Staða framhaldsskólakennara á Suðurnesjum
Föstudagur 22. nóvember 2024 kl. 09:34

Staða framhaldsskólakennara á Suðurnesjum

Framhaldsskólakennarar gegna lykilhlutverki í íslensku samfélagi með því að undirbúa unga fólkið okkar fyrir framtíðina. Þeir kenna ekki einungis bókleg fög heldur leiða nemendur áfram í lífinu, veita þeim stuðning og hvatningu á vegferð þeirra. Við Halla Hrund heimsóttum Fjölbrautaskólann á Suðurnesjum nýlega og fengum þar kynningu á skólanum og því mikilvæga starfi sem þar fer fram. Eftir kynninguna áttum við fund með kennurum á kaffistofunni, þar sem við fengum að heyra um daglegt starf þeirra og baráttu fyrir réttlátari kjörum.

Miðað við umræðuna í samfélaginu og kjarabaráttu kennara getum við ekki sýnt annað en samstöðu og virðingu fyrir því ómetanlega framlagi sem kennarar veita samfélaginu. Það kom okkur hins vegar verulega á óvart að laun kennara væru mismunandi eftir staðsetningu.

Launamunur eftir landshlutum

Kennararnir sem við ræddum við voru á einu máli um að þessu þyrfti að breyta, og við erum sammála. Það er mikilvægt að leggja áherslu á að kjaramál eigi að snúast um grunnlaun en ekki heildarlaun. Allir framhaldsskólakennarar starfa eftir sama kjarasamningi og fyrir sama vinnuveitanda en launamunurinn getur þó verið gríðarlegur eftir landshlutum. Þessi mismunur er óréttlátur og hefur neikvæð áhrif á jafnan aðgang nemenda að menntun á landsvísu. Það er ljóst að óréttmæt kjör geta gert Suðurnesin að óspennandi stað fyrir hæfa kennara, sem endurspeglast í kennaraskorti og hefur áhrif á gæði menntunar á svæðinu.

Stuðningur við kennara og við nemendur með ólíkan bakgrunn

Framsókn leggur mikla áherslu á að styrkja starfsumhverfi framhaldsskólakennara og stuðla að starfsþróun og símenntun þeirra. Flokkurinn vill tryggja kennurum og starfsfólki framhaldsskóla gott starfsumhverfi og nauðsynlega þjónustu til að takast á við áskoranir í breyttu samfélagi. Einnig er stefnt að því að stórefla skólaþjónustu í framhaldsskólum þannig að kennarar fái þann stuðning sem þeir þurfa til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda, og þá sérstaklega nemenda með íslensku sem annað tungumál. Sem kona af erlendum uppruna þekki ég betur en flestir hversu mikilvægur slíkur stuðningur er fyrir framtíð barna og líðan þeirra. Með stuðningi, skilningi og virðingu fyrir menningarbakgrunni hvers barns má tryggja að það upplifi sig öruggt og velkomið, og það getur sannarlega breytt öllu.

Nýsköpun og tæknilæsi í skólastarfi

Í heimsókn okkar í Fjölbrautaskólann á Suðurnesjum sáum við einnig frábært dæmi um hvernig skólinn styður við nýsköpun og tæknilæsi með aðstöðu eins og Fablab. Þessi aðstaða veitir nemendum tækifæri til að vinna að nýsköpunarverkefnum og nálgast námsefnið með skapandi hætti. Hins vegar er FabLab ekki með langtímafjármögnun, sem er áhyggjuefni. Það þarf að leggja meiri áherslu á nýsköpunarverkefni sem hluta af menntastefnu, til að tryggja að þessi mikilvæga aðstaða verði ekki bara skammtímaúrræði heldur verði varanlegur hluti af menntakerfinu.

Framsókn stendur með kennurum: Betri kjör og réttlátara samfélag

Með því að leggja áherslu á jafnrétti, nýsköpun og sjálfbærni í menntakerfinu og atvinnulífinu erum við í Framsókn staðráðin í að stuðla að betra og réttlátara samfélagi fyrir alla. Við viljum öll að framhaldsskólakennarar fái þá virðingu og þau kjör sem þeir eiga skilið, enda er menntun grunnur að heilbrigðu og framsæknu samfélagi

Fida Abu Libdeh.
Höfundur er orku- og umhverfistæknifræðingur og skipar 4. sæti lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.