Roðagyllum heiminn og höfnum ofbeldi
Dagana 25. nóvember til 10. desember munu Alþjóðasamtök Soroptimista, ásamt fjölda annarra félagasamtaka, standa fyrir sextán daga átaki á heimsvísu sem nefnist „Orange the world“ eða Roðagyllum heiminn. Á ensku er undirtitillinn „Read the Signs“ eða „Þekkjum rauðu ljósin“. Roðagylltur litur er einkenni átaksins en hann á að tákna bjartari framtíð.
Í ár verður lögð áhersla á ofbeldi á netinu/stafrænt ofbeldi. Algengt er að ungt fólk, sérstakleg ungar stúlkur og konur verði fyrir ofbeldi á netinu. Því er mjög brýnt að grípa til aðgerða til að vekja athygli á því og reyna að koma í veg fyrir að það fái að eyðileggja líf ungra stúlkna og kvenna til frambúðar.
Netofbeldi er þegar einhver notar tækni eða tæki til að fylgjast með þér, hóta, ógna, áreita eða niðurlægja. Kynferðislegt stafrænt ofbeldi er myndbirting eða hótanir um slíkt á samfélagsmiðlum. Áhrif þess á geðheilsu eru mikil, sem getur leitt til aukins kvíða, þunglyndis, áfallastreitueinkenna, félagslegrar einangrunar og jafnvel sjálfsvíga.
Undanfarin ár hafa ýmis fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar lagt átakinu lið með því að lýsa götur, byggingar, styttur, minnisvarða og heimili af þessu tilefni, okkur öllum til vitundarvakningar. Dagsetningarnar eru valdar í ljósi þess að 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, staðfestur í mannréttindayfirlýsingunni og nær átakið hámarki sínu þriðjudaginn 10. desember, á alþjóða mannréttindadaginn.
Tökum höndum saman um að binda endi á netofbeldi og njótum þess að búa í samfélagi þar sem kærleikur og virðing ríkir.
Frá Soroptimistum í Keflavík.