Max 1
Max 1

Íþróttir

Stelur Kane athyglinni?
Dedrick Basile með boltann í leik með Grindavík í fyrra á móti sínum gömlu félögum í Njarðvík. Deandre Kane fylgist grannt með.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 25. október 2024 kl. 13:29

Stelur Kane athyglinni?

Sjóðandi heitt lið Grindavíkur mætir Tindastóli í stórleik fjórðu umferðar á heimavelli sínum í Smáranum í kvöld. Tindastóll stefnir alltaf í hæstu hæðir, þeir urðu Íslandsmeistarar á þar síðasta tímabili og Grindavík var aðeins einum sigurleik frá þeim stóra á því síðasta. Bæði lið eru þannig mönnuð að allt nema Íslandsmeistaratitill er vonbrigði. Grindavík hefur byrjað tímabilið mjög vel, hefur unnið alla þrjá leiki sína á móti ÍR, Haukum og Hetti en Tindastóll hefur unnið tvo í röð eftir að hafa tapað fyrsta leik tímabilsins.  Leikurinn er athyglisverður því Bandaríkjamaðurinn í liði Tindastóls á heldur betur sína sögu á Suðurnesjum, Dedrick Basile lék með Grindavík í fyrra og tvö tímabil þar á undan með Njarðvík undir stjórn núverandi þjálfara síns hjá Tindastóli, Benedikt Guðmundssyni.
Mesta athyglin verður samt sem áður á Deandre Kane, bandarískum leikmanni Grindavíkinga en enn og aftur er kærumál í gangi gegn honum. Hann verður þó með í kvöld en Grindavík hefur viku til að hreyfa við andmælum frá því að kæran barst.

Ef sumarfríið er tekið út úr myndinni, er þetta þriðja kæran á hendur Kane á u.þ.b. þremur mánuðum en hann fékk kæru á sig eftir leik í lok deildarkeppninnar í fyrra, fékk svo kæru á sig eftir leik númer eitt á móti Tindastóli og þurfti að sæta eins leiks banni, er svo aftur með kæru á sér núna.

Fróðlegt verður að sjá hverju fram vindur og hvort Kane fari að haga málum þannig að athyglin beinist að honum vegna frammistöðu hans á vellinum, en ekki vegna atvika sem leiða til kæru. Víkurfréttir fjölluðu um ótrúlega tölfræði hans í síðasta leik á móti Hetti en í þeim leik kom upp atvik sem leiddi til kæru, á 25 mínútum var hann hæstur í +/- tölfræðinni með +38 en skoraði ekki nema 11 stig í leiknum. Sjaldséðar tölur en það sem bjó þetta að stærstum hluta til, var mögnuð vörn hans en hann nánast slökkti í sjóðandi heitum Bandaríkjamanni Hattar, Courvoisier McCauley.

Bílakjarninn
Bílakjarninn