Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Fréttir

Erlent fyrirtæki tekur við rekstri fríhafnarverslana á Keflavíkurflugvelli til næstu átta ára
Miðvikudagur 20. nóvember 2024 kl. 15:42

Erlent fyrirtæki tekur við rekstri fríhafnarverslana á Keflavíkurflugvelli til næstu átta ára

Isavia ohf. hefur tekið tilboði þýska fyrirtækisins Heinemann í rekstur fríhafnarverslana á Keflavíkurflugvelli (KEF) til næstu átta ára. Tilboðið er valið út frá fyrir fram ákveðnum valforsendum útboðs. Fjórir aðilar buðu í reksturinn. Heinemann rekur fjölda verslana um allan heim, m.a. fríhafnarverslanirnar á Gardermoen-flugvelli í Osló og Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Isavia.
Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli, fagnar niðurstöðu útboðsins. „ Við vildum kanna hvort hægt væri, með samstarfi við nýjan rekstraraðila með reynslu í rekstri fríhafnarverslana, að tryggja ávinning umfram núverandi fyrirkomulag. Niðurstaðan er sú að með þessari breytingu aukast tekjur flugvallarins verulega um leið og hægt er að auka þjónustu og bæta vöruúrval. Ákvörðunin um töku tilboðsins byggir eingöngu á því mati að þessi breyting skili ávinningi fyrir farþega, flugvöllinn og samfélagið í heild.” 
Í útboðsferlinu var lögð mikil áhersla á að gestir á flugvellinum finni fyrir því og upplifi það hjá nýjum rekstraraðila að þeir séu á flugvelli á Íslandi þegar þeir fari um fríhafnarverslanirnar á KEF. Guðmundur Daði segir að í útboðinu hafi meðal annars komið fram að ein leið til þess væri að leggja mikla áherslu á íslenskar vörur í fríhafnarverslununum. 
Gerð var markaðskönnun sem auglýst var á evrópska efnahagssvæðinu í september 2023 og formlegt útboðsferli hófst í kjölfarið. Boðið var út sérleyfi á rekstri fríhafnarverslana sem í dag eru reknar undir merkjum Fríhafnarinnar ehf., dótturfélags Isavia ohf. Útboðið var með sama fyrirkomulagi og þegar boðin er út aðstaða fyrir aðrar verslanir og veitingastaði í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. 
Guðmundur Daði segir enn fremur að með áframhaldandi þróun Keflavíkurflugvallar og auknum tekjum til þeirrar þróunar fjölgi tækifærum til að bæta við flugtengingum. Það hafi bein áhrif inn í hagkerfið en Alþjóðasamtök flugvalla í Evrópu (ACI Europe) hafi gefið það út að 10% aukning í beinum flugtengingum auki hagvöxt um 0,5% í viðkomandi landi.  
Nú tekur við svonefndur biðtími (e. standstill) næstu tvær vikurnar þar sem þeir aðilar sem urðu af samningnum hafa tækifæri til að gera athugasemdir við niðurstöðuna telji þeir ástæðu til. Að því tímabili liðnu verður gengið til  samninga og gert ráð fyrir að Heinemann taki við rekstrinum í mars næstkomandi. 
Nánari upplýsingar verða veittar um málið að biðtíma loknum. 
 
Heinemann er rótgróið fjölskyldufyrirtæki stofnað árið 1879. Það rekur um 500 verslanir í um 100 löndum. Starfsfólk félagsins er ríflega níu þúsund talsins. Heinemann hefur mikla reynslu af rekstri fríhafnarverslana, þar á meðal komufríhafna líkt og þeirri sem er á Keflavíkurflugvelli.
Ekki er vitað hver verða örlög á annað hundrað starfsmanna frá Suðurnesjum sem hafa margir hverjir unnið í Fríhöfninni í áratugi. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hafa uppsagnarbréf ekki verið send en starfsmenn fengu fréttir af samningnum áður en greint var frá honum opinberlega í dag. 

Uppfært kl.16:45: Aðilaskiptalögin gilda þannig að nýr aðili tekur yfir ráðningasamninga starfsfólks. Honum ber því skylda til að taka yfir ráðningasamninga allra starfsmanna sem jafnframt halda fyrri launakjörum.

SSS
SSS