Hraun rennur ekki til Grindavíkur - Þessi frétt verður uppfærð með nýjustu upplýsingum
Eldgos hófst á Sundhnúksgígaröðinni í kvöld kl. 23:14. Þetta er sjöunda eldgosið á gígaröðinni frá því hamfarirnar hófust með kvikuhlaupi þann 10. nóvember í fyrra.
Áköf skjálftahrina hófst á ellefta tímanum í kvöld. Frá Reykjanesbæ að sjá er upphaf eldgossins áþekkt því sem hófst 22. ágúst og að sjá á svipuðum slóðum.
Gossprungan er norðan varnaskila og því rennur hraun ekki til Grindavíkur.
Myndin var tekin frá Reykjanesbæ skömmu eftir að eldgosið hófst.
Víkurfréttir streyma frá eldgosinu úr myndavél sem staðsett er í Reykjanesbæ.
Fréttin verður uppfærð með nýjustu upplýsingum.
Benedikt Ófeigsson hjá Veðurstofunni segir að byrjunin á gosinu sé ekki eins öflug og fyrri gos. Gossprungan hefur verið að lengjast í norðaustur og er um tveggja kílómetra löng. Þetta er á góðum stað og innviðir eru ekki í hættu eins og er.
Rýming Grindavíkur gekk vel og tók skamma stund. Síðustu starfsmenn hótelanna og Bláa Lónsins voru að fara um hálftíma eftir að gos hófst.
Ný færsla frá Veðurstofu Íslands:
Lengd gossprungunnar er áætlaður um 2.5 km og er syðri endi hennar við Sýlingarfell. Miðað við stöðuna núna er þetta eldgos minna en síðasta eldgos.
Fyrsta myndin úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni. Ljósin í Grindavíkurbæ sjást í fjarska. Ljósin í Svartsengi hægra megin á myndinni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)
Mynd sem sýnir hraunstraum í vestur í átt að Grindavíkurvegi. Ljósin í orkuveri HS Orku í forgrunni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)
-----
Neyðarstjórn HS Orku hefur verið virkjuð. Búið er að rýma athafnasvæði fyrirtækisins í Svartsengi og er jarðvarmaverinu þar nú fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun. Öll starfsemi orkuveranna er með eðlilegum hætti sem stendur.
Viðvörun barst úr borholuvöktunarkerfi HS Orku tæpum hálftíma áður en eldgosið hófst. Fylgst er grannt með þróun hraunrennslis úr sprungunni ásamt gasmengun á svæðinu, segir á Facebooksíðu HS Orku.
Strókarnir eru hátt í 100-150 m háir og hraun rennur aðallega til austurs og til vesturs í átt að Grindavíkurvegi meðfram Stóra-Skógfelli. Þetta segir í færslu frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands á Facebook.
-----
Benedikt Ófeigsson, sviðsstjóri hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við RÚV nú í nótt að Grindavík sé alls ekki í hættu.
Hraunflæði getur ógnað Grindavíkurvegi eftir einhverjar klukkustundir. Varnargarðar við Svartsengi munu ráða vel við það hraunflæði sem nú er en áætlað er að 1200-1300 rúmmetrar komi upp úr eldstöðinni á hverri sekúndu.
Hraunið ógnar ekki Svartsengi.
------
Bláa Lónið í Svartsengi hefur þegar rýmt öll sín athafnarsvæði í Svartsengi vegna kvikuhlaups við Sundhnjúkagígaröðina og eldgossins í framhaldinu. Rýmingin gekk vel og eru gestir komnir eða á leið á önnur hótel og starfsmenn til síns heima.
-------
Hér má sjá beint streymi úr dróna sem Ísak Finnbogason er með við gosstöðvarnar. Smellið hér til að sjá streymið.
-----
Hraunjaðarinn er núna um 7-800 metra frá Grindavíkurvegi. Gossprungan hefur verið að lengjast og er rúmir þrír kílómetrar.
-----
Beint streymi sem Ísak Finnbogason er með í augnablikinu. Smellið hér.
--------
-------
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birtir eftirfarandi á fésbókinni rétt í þessu:
Gosið hefur hagað sér með svipuðum hætti og síðustu gos, en þó nokkuð minna.
Gossprungan er á að giska um 2,5 - 3 km löng og teygir sig frá Sundhnúksgígum norður fyrir Stóra-Skógfell þegar þetta er skrifað. Hún er enn að lengjast.
Tvær afmarkaðar hrauntungur renna til vesturs meðfram Stóra-Skógfelli. Önnur tungan rennur í átt að Grindavíkurvegi og á eftir um 7-800 m að vegi. Það er þó óljóst hvort að hrauntungan renni á sama hraða. Hraunið breiðist einnig til út til austurs.
Stíf norðanátt er á svæðinu sem feykir gosmekki og gasi til suðurs.
-------