Fréttir

Geimveður og brautir gervitungla að trufla mælingar?
Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Síðasta gos hófst 22. ágúst. VF/Hilmar Bragi.
Þriðjudagur 19. nóvember 2024 kl. 16:02

Geimveður og brautir gervitungla að trufla mælingar?

Jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni er áfram fremur lítil. Nokkrir skjálftar hafa mælst á hverjum degi, flestir staðsettir á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells. Suma daga síðustu vikuna hefur verið slæmt veður sem hefur haft áhrif á næmni skjálftakerfisins, þannig að allra minnstu skjálftarnir hafa mögulega ekki mælst. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofunnar.

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Á GPS-mælum hafa þó sést vísbendingar um að hægt hafi á landrisinu síðustu daga. Of snemmt er að fullyrða að þessar breytingar séu merki um að það hægi á kvikuinnflæði þar sem sambærilegar breytingar sjást víða á GPS-netinu fjarri Svartsengi. Á þessu stigi er því ekki hægt að útiloka að um utanaðkomandi áhrif sé að ræða, s.s. vegna geimveðurs eða breytinga í brautum gervitungla.

Viðreisn
Viðreisn

Ef um raunverulegar breytingar á aflögun er að ræða og að hægt hafi á landrisi og kvikusöfnun mun það koma í ljós í næstu viku þegar nýjar gervitunglamyndir berast sem hægt verður að bera saman við aflögun sem mælist á GPS-netinu.

GPS_19112024

Hér er samanburður á mælingum úr GPS kerfinu á Reykjanesskaga, á stöð í Svartsengi og í Herdísarvík. Á tímabilinu sem afmarkast af appelsínugula reitnum sjást breytingar á aflögun í Svartsengi, en einnig í Herdísarvík sem teljast óvenjulegar þar. Mjög margt getur valdið litlum kerfisbundnum hliðrunum sem eru ekki vegna landbreytinga, til að mynda vandamál í viðmiðunarkerfi, brautir gervitungla og sólvirkni (geimveður).

Hættumat óbreytt

Það er áfram mat vísindamanna Veðurstofunnar að ólíklegt sé að nægur þrýstingur verði búinn að byggjast upp til að koma af stað eldgosi í nóvember. Eitt af því sem styður það mat er hversu lítil skjálftavirkni mælist á svæðinu. Ef hraði landriss í Svartsengi breytist eða markverð aukning verður í skjálftavirkni mun þetta mat breytast í samræmi við það.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat sem er óbreytt frá því síðast. Hættumatið gildir til 26. nóvember, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_19nov_2024