Að ná fólki aftur út í samfélagið er svo mikilvægt
Þrjú teymi starfa í sálfélagslegri þjónustu HSS að Hafnargötu 90 í Keflavík
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja rekur sálfélagslega þjónustu að Hafnargötu 90 í Reykjanesbæ. Þar starfa þrjú teymi í tveimur þjónustulínum. Í fyrstu línu eru tvö teymi, barnateymi og geðteymi. Teymin sinna meðferð við kvíða, þunglyndi og áföllum þar sem vandinn er vægur eða miðlungsalvarlegur. Um er að ræða lágþröskuldaþjónustu sem sinnt er af sálfræðingum. Í barnateyminu er einnig boðið upp á ráðgefandi viðtöl við foreldra barna með hegðunarvanda. Í annarri línu starfar þverfaglegt geðheilsuteymi sem sinnir þyngri málum. Í teyminu starfa margar starfsstéttir þ.e. geðlæknir, geðhjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, félagsráðgjafi, iðjuþjálfi og íþróttafræðingur sem koma að vanda skjólstæðings. Gjarnan er um að ræða vanda vegna þynglyndis, kvíða og oft mikill virknivandi.
Kjartan leggur áherslu á að koma fólki í rútínu, að koma því úr rúminu og út úr húsi. Þetta er oft þegar fólk hefur dottið út af vinnumarkaði og reynt að fara í Virk en ekki gengið. Það er því reynt að byrja á grunnatriðum.
„Ég sem læknir er að koma inn í þetta og skoða lyfjameðferðir, athuga hvort þurfi að gera sérstakar rannsóknir, það þarf að skrifa vottorð en það er mikið vottorðafargan í kerfinu, hvort sem það er vegna endurhæfingar, lyfjaskírteina og svo framvegis. Við erum að vinna saman hér og einstaklingar mæta hjá fleiri en einum fagaðila. Einstaklingur fær málastjóra þegar hann byrjar í teyminu sem sér þá um hans mál og stýrir meðferðinni. Málastjórinn sendir beiðnir á sálfræðinga og á heilsueflandi móttöku, sem við erum í góðu samstarfi við. Við reynum að búa til meðferðarmarkmið með viðkomandi. Þetta fer eftir batahugmyndafræðinni sem gengur út á það að einstaklingur ber ábyrgð á sinni meðferð og velur hvað hann vill gera. Við reynum að finna sameiginleg markmið með einstaklingnum.“
Hvað með viðhorf til þessara þátta sem þið eruð að starfa með? Tilfinningin er sú að það hafi breyst í áranna rás.
„Sem betur fer hefur það gerst. Við erum stödd með okkar aðstöðu fyrir ofan vinsælan matsölustað og það er lítið mál fyrir fólk að koma hingað. Það er sem betur fer ekkert stórmál og ekkert feimnismál heldur.“
Finnst þér viðhorf fólks í dag, jafnvel yngra fólks, hafa breyst? Eldri kynslóðir voru ekki jafn tilbúnar að leita eftir sálfræðiþjónustu á árum áður ef geðræn mál voru að plaga þær.
„Já, við sjáum það á þeim fjölda beiðna sem við fáum frá aðilum úti í bæ, eins og heilsugæslunni, en líka annars staðar frá. Það þarf ekki miklar fortölur til að fá fólk til að sækja þjónustu. Fólk er komið í vanda og er að biðja um þetta sjálft.
Fólk sem er með skemmda tönn og finnur til fer til tannlæknis. Það er sama hér. Fólk sem er með kvíða sem er illviðráðanlegur eða önnur vandamál eins og áföll leitar aðstoðar. Stundum dugar aðstoðin hjá heilsugæslunni. Það þarf ekki að senda öll mál til okkar. Svo kemur að því að heilsugæslan vill fá fleiri fagaðila til að takast á við málið eins og tiltekinn kvíða eða félagsfælni. Og þegar vandinn er orðinn viðameiri er stundum ástæða til að senda beiðni í geðteymið.“
Á fólk sem finnur þörf fyrir að leita að geðþjónustu að leita fyrst til heilsugæslunnar?
„Já, það er alltaf fyrsti viðkomustaður. Við fáum líka beiðnir frá Virk en vanalega fer þetta í gegnum heilsugæsluna. Við höfum einnig verið í samstarfi við Björgina og fengið beiðnir þaðan, sem og frá geðdeild Landspítala. En stærsti hlutinn kemur frá heilsugæslunni.“
Hvernig finnst þér starfsemin hjá ykkur ganga?
„Þetta er skemmtilegt og áhugavert starf. Við erum m.a. að taka á móti fólki sem er að detta út af vinnumarkaði. Þetta er ungt fólk mikið til og það er gríðarlega mikilvægt að koma því aftur í gang. Hvert og eitt þeirra er svo dýrmætt. Að ná fólki aftur út í samfélagið er svo mikilvægt. Svo kemur fyrir að við erum að sjá mál sem hafa verið að velkjast í kerfinu lengi og ekki miklar líkur að viðkomandi sé að fara á vinnumarkað. Við reynum þá allavega að bæta lífsgæði og að fólk sé með minni kvíða og njóti lífsins betur. Það er alltaf hægt að setja sér einhver markmið.“
Þú hefur starfað í mörg ár við geðlækningar. Er aukin eftirspurn eftir þjónustu ykkar?
„Já, það hefur gerst. Ég var að starfa á Landspítalanum og það hefur verið gríðarleg aðsókn þar í allskonar þjónustu. Á sama tíma hefur geðlæknum á stofum farið fækkandi. Það er mikil eftirspurn eftir greiningum og ADHD-greiningum. Við erum hins vegar ekki að gera þær, þá værum við ekki að gera neitt annað. Þannig að við erum ekki að stunda greiningarvinnu og ekki ADHD.“
Það er nærtækast að spyrja hverju þið eruð ekki að sinna?
„Það væri langbest ef við gætum sinnt öllum og það er slæmt að vera með útilokunarskilyrði. Við erum ekki að sinna fólki sem er með virkan vímuefnavanda eða áfengisvanda. Það segir sig sjálft að sú meðferð er betur komin annars staðar í kerfinu. Við ráðleggjum því fólki að fara á Vog eða leita þjónustu innan SÁÁ. Þeim sem eru með alvarlegri vanda og jafnvel geðvanda líka ásamt vímuefnavanda beinum við til Landspítala.
Fólk með alvarlegar þroskaraskanir á erfitt með að nýta okkar þjónustu. Þarna erum við líka að tala um fólk með einhverfu. Við höfum ekki verið að vísa öllum einhverfum frá. Við metum það alltaf í matsviðtali hvort að viðkomandi getur notað okkar þjónustu eða ekki. Þetta er ekki algilt útilokunarskilyrði. Fólk með þyngri veikindi eins og mikið geðrof er eitthvað sem við getum ekki sinnt eins og er. Ef við myndum útvíkka teymið þá getum við sinnt fleiri póstum.
Þá er ásókn í að fá ADHD-greiningar yfir allt landið. Eðlilega þekkir fólk eitthvern sem hefur fengið greiningu og sér mikla breytingu á viðkomandi. Við getum því miður ekki sinnt því. Við myndum örugglega drukkna í verkefnum ef við færum að gera það. Við bendum á ADHD-teymi sem er á landsvísu og staðsett í Reykjavík. Það eru því miður útilokunarskilyrði þó við vildum gera eins og Hard Rock, elska alla og þjóna öllum. Við getum ekki alveg gert það ennþá, þá þyrftum við að vera mikið fleiri.“
Í seinni tíð hefur maður orðið var við umræðu í samfélaginu um að það sé aukinn kvíði meðal fólks og jafnvel meira meðal yngra fólks.
„Ég held að það sé rétt, því miður. Ástæðurnar eru margar og erfitt að svara hvað veldur. Örugglega samfélagslegar ástæður. Samfélagsmiðlum er kennt um og það má vera að það sé rétt líka. Það eru gerðar miklar kröfur og lífið í dag er miklu flóknara en það var fyrir 20 eða 30 árum síðan.
Svo held ég að Covid-tímabilið hafi farið mjög illa í mörg ungmenni sem einangruðust að einhverju leyti á þeim tíma. Ég held að þetta sé margþætt og ekkert eitt stórt svar við þessu. Svo má vera að ungt fólk sé opnara í dag að ræða kvíða sinn heldur en það gerði áður. Ég held að fyrir 30 eða 40 árum síðan hafi ungt fólk verið kvíðið, en það bara talaði ekki um það. Það gerði bara eitthvað annað í staðinn, harkaði af sér eða fór einfaldlega í neyslu.“
En þið eruð á réttri leið hérna.
„Við vonumst til þess. Við viljum gera eins vel og við getum og sjá sem flesta. Við erum hins vegar takmörkuð auðlind og það geta myndast biðlistar ef það er mikið af beiðnum en við reynum að forgangsraða.“