HSS hefur alla burði til að vera til fyrirmyndar
– segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, nýráðinn forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
„Ég er mjög bjartsýn fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á þessum merku tímamótum þegar stofnunin fagnar sjötíu ára afmæli. Ég veit að hún hefur alla burði til að vera til algjörrar fyrirmyndar,.“segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir en hún var skipuð forstjóri HSS til fimm ára frá 1. mars á þessu ári.
Guðlaug Rakel er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún er einnig með meistaranám í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands (HÍ) og hefur jafnframt lokið ýmsum námskeiðum í lýðheilsuvísindum innan læknadeildar HÍ í tengslum við doktorsverkefni sem hún vann að um faraldsfræði notenda bráðamóttaka. Guðlaug Rakel hefur langa og víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum, auk þess að hafa um árabil starfað sem hjúkrunarfræðingur. Frá árinu 2000 hefur hún sinnt ýmsum stjórnunarstörfum innan heilbrigðiskerfisins. Hún hefur lengst af verið stjórnandi á Landspítala, síðustu árin verið í starfi framkvæmdastjóra en haustið 2021 var hún sett tímabundið í embætti forstjóra Landspítala.
Hverjar eru helstu áskoranir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á þeim tímamótum þegar 70 ára afmælinu er fagnað?
„Þær eru nokkrar. Mér finnst fyrst og fremst að við þurfum að kynna þjónustuna og hvað HSS hefur uppá að bjóða sem er margt mjög gott og það verður að halda því til haga.
Við verðum að styrkja það sem vel er gert og bæta það sem má bæta. Til þess að sjá hvað það er var ákveðið að halda íbúafund og fá það hreint frá íbúum svæðisins hvað stofnunin er að gera vel og hvar við gætum gert betur og það er heilmargt sem við getum gert betur. Til að taka það saman þá snýst það um jákvæða ímynd og byggja upp traust fyrst og fremst einnig kom skýrt fram að íbúar kalla eftir samfellu í þjónustunni. Ég held að það sé stóra málið.“
Hvernig finnst þér stofnunin standa hvað varðar þjónustu við Suðurnesjamenn?
„Almennt varðandi þjónustu við Suðurnesjabúa held ég að við séum að standa okkur alveg þokkalega. Ímyndin er samt þannig íbúar segja að það sé ekki hægt að komast að. Ég tel að það sé búið að snúa því við alveg ágætlega núna. Það er tiltölulega lítil bið eftir þjónustu á heilsugæslunni. Það hefur færst til betri vegar með betri mönnun.
Það eru alveg ótrúlega mörg tækifæri sem þessi stofnun hefur. Ég sé það þannig að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja geti verið heilbrigðisstofnun til fyrirmyndar. Það er margt í starfsemi stofnunarinnar sem er mjög burðugt og við getum vel byggt á. Engu að síður þurfum við að bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu.
Við höfum verið að vinna að því núna að veita aðgengi að krabbameinsskimun en samkvæmt lýðheilsuvísum embættis landlæknis eru tæplega 3.000 konur sem hafa ekki komið í brjóstaskimun en hafa sannarlega átt að vera búnar að fara í skimun. Til þess að færa þjónustuna nær íbúunum þá ákváðum við að bjóða upp á skimun í heimabyggð í samvinnu við brjóstamiðstöð Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þau eru núna í afmælisvikunni að koma hingað með tækin sín. Það er skemmst frá því að segja að það bókuðust upp nær allir tímar þannig að við erum að framlengja tímabilið sem konur hafa tök á að koma hingað til okkar í skimun. Við viljum að konur á Suðurnesjum geti skroppið í skimun, að það þurfi ekki að taka þrjá tíma að fara í skimun með því að fara í bæinn. Fólk á að geta skroppið í skimun og ég er mjög þakklát hvað það hefur verið tekið vel í þessa viðleitni að færa þjónustuna nær fólki og við erum þegar komnar með mörg hundruð bókanir í þessa tíma.“
Hvernig sérðu Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þróast á næstu árum?
„Ég sé hana fyrst og fremst þróast þannig að hún verði mjög öflug fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónusta. Hún verður aldrei þriðja stigs heilbrigðisþjónusta. Ég held að það sem skiptir máli er að við eflum enn frekar heilsugæsluna og bráðamóttökuna okkar. Ég sé þjónustuna þróast þannig að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verði kennslusjúkrahús, viðurkennt kennslusjúkrahús og það skiptir verulega miklu máli til framtíðar.“
Hvað áttu við með kennslusjúkrahúsi?
„Að við séum viðurkennd stofnun til að vera kennslusjúkrahús. Heilsugæslan er það en sjúkrahúsið og bráðamóttakan hefur ekki fengið slíka viðurkenningu en við erum í þeirri vegferð núna. Þá verðum við að bjóða uppá ákveðin námstækifæri og leiðsögn. Við erum sannarlega að vinna í því núna þannig að fólk sem er í námi geti komið hingað í viðurkennt starfsnám.“
Það hefur oft í gegnum tíðina verið í umræðunni að það fjármagn sem HSS hefur fengið væri of lítið.
„Ég veit ekki um neina heilbrigðisstofnun sem fær of mikið fjármagn eða telur sig vera rétt fjármagnaða. Við þurfum að velta við öllum steinum og auðvitað er það alltaf þannig að það er hægt að gera betur. Það er hægt að fara betur með fjármagn. Þá er ég alls ekki að segja að stofnunin sé offjármögnuð, langt frá því. Við erum nýlega búin að senda frá okkur afkomuviðvörun til Heilbrigðisráðuneytisins um að við erum að keyra nokkur hundruð milljónir fram úr áætlun. Mér finnst það líka vera til alls fyrst að við upplýsum nákvæmlega hvernig staðan er og hvað við leggjum til að þurfi að gera. Við ætlum að taka þátt í því en við munum sannarlega reyna að sækja meira fjármagn.
Það sem stendur okkur fyrir þrifum er að það eru margir sem bíða eftir hjúkrunarheimili og bíða hér á stofnunninni. Það eru alltof fá hjúkrunarrými á svæðinu.“
Nú eruð þið með hjúkrunardeild sem er í raun biðdeild fyrir einstaklinga sem þurfa að komast á hjúkrunarheimili. Hvernig hefur það gengið?
„Það hefur í raun gengið ágætlega. Víðihlíð lokaði í Grindavík og skjólstæðingar komu þaðan og hingað. Þeir eru flestir farnir inn á þau hjúkrunarheimili þar sem þeir óskuðu eftir að fá heimilisfesti. Við erum með marga skjólstæðinga núna sem bíða eftir hjúkrunarheimili og það gengur of hægt. Og önnur starfsemi tefst á meðan.“
Hvað með mönnun stofnunarinnar. Á HSS starfa um 400 mannsí 250 stöðugildum. Hvernig gengur að manna stofnunina?
„Ég ætla alveg að vera Pollýanna þarna. Mér finnst það ganga alveg ágætlega núna að manna. Mér finnst mikil jákvæðni í garð stofnunarinnar. Ég held að þar sem íbúar hafi helst gagnrýnt stofnunina fyrir, og kom fram á íbúafundinum, að það væri ekki nógu mikill stöðugleiki í mönnuninni, það væru alltaf nýir og nýir einstaklingar. Með því að vera núna með meira af fastráðnu starfsfólki þá erum við að mæta þessari þörf og þeirri sjálfsögðu kröfu íbúa um stöðugleika í mönnun. Mér finnst við vera á réttri leið varðandi mönnun.“
Þú nefndir lýðheilsuvísa. Hvernig eru þeir hérna suður með sjó?
„Takk fyrir að spyrja um þetta. Þetta er það fyrsta sem ég rak augun í þegar ég tók við starfi forstjóra hér að lýðheilsuvísar embættis landlæknis eru með allt öðrum hætti hér en annars staðar á landinu.
Hér eru marktækt fleiri sem telja líkamlega og andlega heilsu vera lélega eða sæmilega. Eins og ég sagði áðan voru færri sem komu í krabbameinsskimanir. Það sem við þurfum líka að horfa á núna með lýðheilsuvísana sem birtust fyrir um mánuði síðan að það eru marktækt fleiri einstaklingar átján ára og yngri sem eru á þunglyndislyfjum. Við þurfum að horfa á hvernig Heilbrigðisstofnun Suðurnesja getur komið til móts við þetta. Hvernig erum við að sinna unga fólkinu? Hvernig erum við að sinna eldra fólkinu? Og hvernig getum við horfst í augu við það að hérna er það líka þannig að það eru fleiri sem fresta því að koma í heilbrigðisþjónustu og panta sér tíma út af kostnaði. Við þurfum að skoða þetta. Þess vegna var það frábær ákvörðun sem heilbrigðisráðherra tók um daginn að lækka umtalsvert komugjöld varðandi brjóstaskimunina úr rúmum 6.000 krónum í 500 krónur. Þetta skiptir máli.“
Ertu með skýringar á þessu með lýðheilsuvísana, af hverju þetta er með öðrum hætti hér en annars staðar?
„Ég held að það séu mjög margir þættir. Samsetning íbúa er með öðrum hætti. Það eru fleiri íbúar sem eru af erlendu bergi brotnir. Ég held að það geti verið ein skýring. Við þurfum að ná til þeirra. Það er mjög mikilvægt. Það er líka þannig að það er fleira ungt fólk. Það er meira óöryggi varðandi atvinnu og menntunarstigið er aðeins öðruvísi. Ég held að það séu mjög margir þættir sem skipta þarna máli.
Ég held að við á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja getum verið ákveðin fyrirmynd varðandi lýðheilsu og hreyfingu. Hvernig getum við hjálpað til við það? Við vorum til dæmis núna að láta útbúa sérstaka bolta fyrir börn sem koma í tveggja ára og fjögurra ára skoðun. Þau fá þessa bolta og skilaboðin í því eru hreyfing.“
Þú nefndir hvar stofnunin er stödd varðandi þjónustu sem hún getur veitt. Það nær ekki til skurðdeildar og tengist þar af leiðandi fæðingardeild. Er þetta bara eitthvað sem er farið og verður aldrei aftur?
„Ég held að maður eigi aldrei að segja aldrei. Allar svona breytingar þurfa að ígrundast mjög vel, sérstaklega út frá mönnun og fjölda aðgerða. Þú þarft að hafa ákveðinn fjölda aðgerða til að geta tryggt gæði og öryggi. Ef að þú nærð því ekki, þá er ekki sérstaklega skynsamlegt að gera þær. Aftur á móti þá held ég að við getum skoðað fyrst eitthvað annað, eins og að bjóða upp á speglanir. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að skoða. Ég er ekki viss um að við séum stödd þar núna að opna skurðstofur.
Af því að þú nefnir fæðingardeild, þá er fólk almennt ánægt með þjónustuna sem þar er veitt. Það skiptir alveg geysilega miklu máli.
Auðvitað heyrir maður líka það sem betur má fara og við viljum heyra það. Við viljum sjá óhreina þvottinn. Það er sérstaklega gott og gaman að heyra það sem vel er gert, því þá getur maður líka styrkt það áfram.“
Þú ert nýkomin til starfa á HSS. Hvernig er þín upplifun af stofnuninni? Var þetta verra eða betra en þú áttir von á?
„Þetta er bara mjög svipað og ég átti von á. Mér finnst þetta geysilega skemmtilegt. Markmiðið er að byggja upp þessa jákvæðu ímynd og traust til stofnunarinnar. Það er mitt markmið, það er bara þannig.
Það er bæði kostur og galli að vera ekki héðan og þekkja ekki samfélagið. Það er kostur af því að þá veit maður ekki alla söguna og tengingar en það getur líka verið galli.
Það sem mér fannst líka skipta miklu máli var að hitta bæjarstjórana og bæjarfulltrúana í sveitarfélögunum á Suðurnesjum og finna hvað það er mikill metnaður gagnvart stofnuninni, mikil vænting og væntumþykja. Mér finnst það skipta miklu máli og samstarfið er mjög gott.“
Þú hefur verið í framlínu heilbrigðismála og með mikla reynslu sem mun nýtast þér á HSS, er það ekki?
„Ég hef það og til margra ára og það nýtist manni. Ekki síður er það allt þetta tengslanet sem skiptir svo miklu máli og það skiptir mjög miklu máli að hafa reynslu þegar maður kemur inn í svona starf.“
Hvað með sjálfa þig, ertu sveitastelpa eða ertu að koma úr borginni?
„Ég er alin upp í borginni en á ættir að rekja á Snæfellsnes og þangað liggja mínar rætur.“
Sjötíu ára afmæli HSS eru stór tímamót og þið ætlið að halda upp á það?
„Já, við ætlum að halda upp á það með þeim hætti og við ætlum að vera með afmælisviku. Við ætlum að gera ýmislegt til að vekja athygli á því sem hér er unnið. Við verðum með fyrirlestra og svo verður afmælisboð á afmælisdeginum. Við ætlum að kynna stefnumótun stofnunarinnar á afmælisdeginum sem er um margt merkileg því hún er með aðkomu mjög margra, íbúa, starfsfólks og fleiri og fleiri sem hafa komið að þeirri stefnumótun.“
Hverjir eru lykilþættir í stefnumótuninni sem þið ætlið að vinna að?
„Það er þjónustan og traustið. Það er einn þáttur í stefnumótuninni að stofnunin sé sjálfbær. Það eru miklar og ríkar kröfur gerðar til stofnunarinnar með alþjóðaflugvöllinn hér við hliðina á okkur og einnig eru ríkar kröfur sem náttúran leggur á stofnunina, við þurfum að vera sjálfbær.“