Heilsugæslan sinnir fjölbreyttri þjónustu
– Reynt að færa þjónustuna nær skjólstæðingunum
Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslu HSS, segir starfsemi heilsugæslunnar viðamikla, heilsugæslan sinni um tuttugu þúsund skjólstæðingum á öllum aldri og verkefnin eru jafn ólík og þau eru mörg.
„Við erum með þrjátíu starfsmenn sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, svo erum við með um fimmtán lækna, þannig að þetta er orðin ansi stór heilsugæsla,“ segir Andrea. „Við erum með um tuttugu þúsund skjólstæðinga, svo það er af nógu af taka. Við erum með mæðravernd uppi á ljósmæðravakt sem tilheyrir heilsugæslunni, þannig að þær aðstoða okkur líka. Svo erum við líka með næringarfræðing og sálfræðinga. Þetta er fjölbreyttur hópur.“
Þannig að þau koma víða að þessi verkefni sem þið eruð að fást við?
„Já, algjörlega. Við erum náttúrulega með þessa lögbundnu þjónustu sem er; mæðravernd, ungbarnavernd, heilsugæsla í grunnskólum, við erum með hjúkrunarfræðinga í tíu grunnskólunum hér á Suðurnesjum. Svo erum við með öfluga hjúkrunarmóttöku sem sinnir mörgum flóknum verkefnum. Svo gerum við rannsóknir hér á heilsugæslunni; hjartalínurit, spírómetríu, sem eru öndunarmælingar, heyrnarmælingar og minnispróf fyrir fólk – þannig að þetta er mjög fjölbreytt. Það er mjög fjölbreytt að vinna á heilsugæslu.“
Fer öll starfsemin fram innan veggja HSS eða er henni dreift um bæinn, hvernig er það?
„Sálfræðiþjónustan okkar er á Hafnargötu 90, að öðru leyti erum við hér í húsinu. Við höfum fengið smá stækkun, nú er búið að flytja hjúkrunarmóttökuna og þar af leiðandi fengum við fleiri læknastofur inn á ganginn og það er mikil bót fyrir okkur. Við erum að vísu með skólahjúkrunarfræðingana í skólunum en þær hafa líka aðstöðu hér hjá okkur.“
Væntanlega hefur verið full þörf fyrir stækkun með stækkandi samfélagi?
„Alveg klárt mál. Við vorum með sjö hundruð fermetra sem átti að þjónusta allan þennan skjólstæðingahóp og það gekk auðvitað ekkert alltaf mjög vel. Það varð að finna rými fyrir þjónustuna því maður vill hafa stofu þar sem maður er að taka á móti skjólstæðingum. Við reynum að gera okkar besta í því.“
Heilsugæslan aðlagast aðstæðum hverju sinni
Það hefur mætt talsvert á heilsugæslunni undanfarin ár, í tengslum við heimsfaraldur og annað slíkt.
„Jú, heldur betur. Við höfum heldur betur mátt aðlaga okkur að breyttum aðstæðum og gerum það hverju sinni. Við erum líka með allskonar átök í gangi, núna erum við með bólusetningarátak og erum þar af leiðandi með hópbólusetningar. Við erum að úthýsa því í rauninni því við framkvæmum þær ekki hérna innanhúss, því við erum líka með svolítinn bílastæðavanda og húsnæðisvanda, þannig að við höfum verið að taka stóra hópa í Hljómahöllina og höfum boðið upp á bólusetningar í Vörðunni í Sandgerði og líka í Vogum. Svo er ánægjulegt að segja frá því að við erum að fara að opna heilsugæslusel í Vogunum vonandi fyrir jólin.“
Þannig að þetta er bara aukin þjónusta við skjólstæðinga, að mæta á staðinn.
„Já, við erum að reyna það. Við erum líka að reyna að færa þjónustuna nær skjólstæðingunum. Það stendur til að opna heilsugæslusel í Suðurnesjabæ á næsta ári og það er í ferli núna. Þetta verður betri þjónusta við skjólstæðinga í sínu heimahéraði.“
Hvernig er með mönnun á þessu öllu? Hvernig gengur að manna svona deild?
„Það sem okkur skortir helst núna í augnablikinu eru hjúkrunarfræðingar. Þeir eru nú ekki á hverju strái en við reynum að gera eins vel og við getum. Við vorum áður í svolitlum læknaskorti sem horfir nú til betri vegar en við höfum núna gripið til þess ráðs að stofna heilsugæsluteymi fyrir skjólstæðinga, þar sem að í staðinn fyrir að tilheyra einhverjum heilsugæslulækni þá er fólk skráð í teymi, sem er þverfaglegt með hjúkrunarfræðingi, lækni og sjúkraliða eða ritara, sem halda um þeirra mál. Þannig að eftirfylgd og þessi þjónusta sem skjólstæðingar þurfa ætti ekki að detta niður. Þetta á náttúrulega sérstaklega við einstaklinga sem eru með langtímasjúkdóma og slík vandamál, það eru minni áhyggjur af þeim sem eru hraustir en við reynum að leggja áherslu á að sinna þjónustunni vel.“
Þannig að þeir hafi aðgang að fólki sem þeir þekkja og þekkir þeirra sögu.
„Já, það er stefnan. Það er sami hópurinn, það eru sömu læknar í hverju teymi og það eru tveir til þrír hjúkrunarfræðingar, málin þeirra eiga að vera gripin ef eitthvað kemur upp á. Þetta er að vísu ekki akútþjónusta, þetta heilsugæsluþjónusta og hún er ekki bráðaþjónusta. Þannig að það getur tekið tvo, þrjá daga að fá svar – en ef einn læknir fer í frí þá er annar sem grípur málin. Þá eru það þessi sömu einstaklingar sem ættu að þekkja skjólstæðinginn. Auðvitað kemur þessi kynning á skjólstæðingum á smá tíma, það tekur smá stund að kynnast, og þetta hefur reynst vel það sem af er. Við erum líka að þróa þetta í leiðinni.“
Þessi heilsugæslusel sem þú talar um í Vogum og Suðurnesjabæ. Verða þau starfrækt alla daga?
„Við munum byrja í Vogunum með því að hafa tvo daga í viku, svo verður þetta að aukast eftir þörfinni. Við ætlum ekki að láta fólk sitja og bíða eftir skjólstæðingunum en um leið og þörfin eykst þá munum við auka við mannskap og opnunartíma.“